Að brenna fyrir eitthvað/einhverju
Sambandið brenna fyrir einhverju er mjög algengt um þessar mundir, og ég fór að skoða það í framhaldi af því að hér var spurt í gær hvernig það væri hugsað. Þá kom í ljós að þrátt fyrir tíðni þess er það ekki að finna í helstu orðabókum, hvorki Íslenskri orðabók né Íslenskri nútímamálsorðabók. Merkingin er þó ljós – eitthvað í átt við 'vera einhverjum hjartans mál' eða 'bera eitthvað fyrir brjósti'. Sögnin brenna er líka notuð í ýmsum samböndum skyldrar merkingar, eins og hafa brennandi áhuga á einhverju, vera brennandi í andanum, eitthvað brennur á einhverjum, og einnig er talað um eldhuga. Það er því ekki hægt að segja annað en merkingin í brenna fyrir einhverju sé eðlileg og gagnsæ út frá öðrum samböndum í málinu.
Elsta dæmi sem ég finn um sambandið í þessari merkingu er í Bjarma 1954: „Enn í dag skapar hann nýja menn, sem brenna fyrir því að flytja orð hans og ríki til annarra.“ Næsta dæmi er líka í Bjarma 1961: „Hann kallar oss til starfa meðal kynslóðar vorrar og felur oss hlutverk, sem vér hljótum að brenna fyrir að vinna að.“ Þriðja dæmið er í Morgunblaðinu 1961: „Því að aðeins menn, sem brenna fyrir hinu rétta geta gert sér vonir um að bera sigurorð af þeim, sem berjast fyrir hinu ranga.“ Fjórða dæmi er í Bjarma 1970: „Það er gleðilegt að sjá, að hér eru einnig nokkrir, sem brenna fyrir útbreiðslu Guðs ríkis.“ Athyglisvert er að í öllum þessum dæmum er verið að fjalla um trúarleg efni, sem og í einu dæmi til viðbótar frá síðustu öld, í Bjarma 1997.
Ég finn sem sé aðeins fimm dæmi frá því fyrir aldamót, og 25-30 til viðbótar fram til 2013. En á árunum 2014-2015 verður þetta samband skyndilega mjög algengt og fljótlega eftir það fór sumum að þykja nóg um. Þannig segir Jón Sigurðsson í grein í Skírni 2017: „Núorðið eru menn ekki brennandi í andanum, fullir brennandi áhuga eða eldheitir hugsjónamenn, heldur heyrist oft sagt: ,,Hann brennur fyrir náttúruvernd.“ En tíðni sambandsins í þessari merkingu hefur þó margfaldast síðan 2017 – sennilega eru a.m.k. þúsund dæmi um það í Risamálheildinni frá síðustu fimm árum (útilokað er að nefna nákvæma tölu vegna þess að sambandið brenna fyrir getur líka haft aðrar merkingar). Það er sannarlega hægt að tala um þetta sem tískuorðasamband.
Það er ekki gott að segja hvernig þetta samband kemur upp, og enn óljósara hvers vegna það verður skyndilega svona vinsælt. Í umræðum var bent á að það ætti sér hliðstæðu í dönsku (þar sem það þætti líka ofnotað), brænde for noget sem skýrt er „være meget ivrig og engageret“ eða 'vera mjög ákafur og áhugasamur' og hefur því sömu merkingu og íslenska sambandið. En áhrif dönsku á íslensku eru sáralítil núorðið og einhvern veginn finnst mér ekki líklegt að sprengingu í notkun þess megi rekja til dönsku. Í ensku er einnig til burn for someone or something sem skýrt er „to desire someone or something very much“ eða 'þrá einhvern eða eitthvað mjög mikið' sem er skylt en þó dálítið annað og óvíst að það skýri notkunina í íslensku.
Þótt sambandið sé ekki í orðabókum eins og áður segir kemur það fyrir í Málfarsbankanum sem segir: „Frekar er sagt brenna fyrir einhverju en brenna fyrir eitthvað.“ Vissulega er notað þágufall í elstu dæmunum en þolfall kemur samt fljótlega fram – „Við þurfum hjörtu sem brenna fyrir sannleikann og þekkinguna á Guði“ segir í Bjarma 1997. Í fljótu bragði sýnist mér að þágufallið sé heldur algengara en þolfallið. Val þágufalls fram yfir þolfall gæti því byggst bæði á aldri og tíðni, en í hvorugu er þó grundvallarmunur á föllunum. Það er hins vegar athyglisvert að Málfarsbankinn nefnir aðeins hvoru fallinu er mælt með, en gerir enga athugasemd við notkun sambandsins yfirleitt, enda engin ástæða til að amast við því.