Nýslendingar

Í gær heyrði ég í fyrsta skipti orðið slendingur sem Derek Terell Allen, íslenskukennari hjá Dósaverksmiðjunni, notaði í merkingunni 'nýbúi' í pistli sem hann flutti á Rás eitt. Ég veit ekki hvort Derek hefur búið þetta orð til, eða hvort það hefur verið eitthvað í gangi, en það er a.m.k. ekki í Risamálheildinni og Google finnur engin dæmi um það. Það er augljóst að orðið er myndað með samruna orðanna nýr og Íslendingur – stofni lýsingarorðsins, ný-, er bætt framan við nafnorðið Íslendingur. Það má segja að bæði orðin haldi sér að fullu í þessari sambræðslu því að í-ið er samnýtt – hljóðið er auðvitað það sama þótt það sé skrifað með ý í öðru orðinu en í í hinu. Þetta er því í sjálfu sér gagnsætt og lipurt orð – en er svona orðmyndun góð og gild?

Orðmyndun með sambræðslu er vel þekkt í ýmsum málum, m.a. ensku. Lewis Carroll, höfundur Lísu í Undralandi, bjó til mörg orð af þessu tagi í bullkvæðinu Jabberwocky og kallaði þau „portmanteau words“ (portmanteau er 'hörð, ílöng tvíhólfa ferðataska' og þetta vísar til þess að tveimur orðum er pakkað saman í eitt). En þótt slík orðmyndun sé oft notuð í gamni kemur hún líka fram í orðum sem þykja góð og gild. Eitt elsta og þekktasta dæmið er enska orðið smog sem er sambræðsla úr smoke 'reykur' og fog 'þoka' og var myndað til að lýsa dæmigerðu Lundúnaloftslagi í upphafi 20. aldar. Annað dæmi er brunch sem er sambræðsla úr breakfast og lunch, en þekktasta dæmið í samtímanum er þó Brexit sem er sambræðsla úr Britain og exit.

En þessi orðmyndunaraðferð er ekki mikið notuð í íslensku nema helst í gamni. Á Nýyrðavef Árnastofnunar má finna ýmis slík dæmi, eins og smáhrifavaldur 'áhrifavaldur með smáan hóp fylgjenda' (e. minfluencer, úr micro influencer), kólasveinn úr kóla og jólasveinn, 'ameríski rauði og hvíti jólasveinninn í auglýsingum Coca-Cola-fyrirtækisins', hungramur 'hungraður og gramur' (e. hangry, úr hungry og angry), þunnudagur 'sunnudagur sem eytt er í þynnku', og svörtudagur 'svartur föstudagur' (e. Black Friday). Einnig má nefna smánudagur 'sunnudagur sem fer í vaskinn af því að maður er heltekinn af kvíða yfir því að þurfa að mæta í vinnu á mánudegi en felur í þokkabót í sér smán og lítilleika' (e. smonday, úr Sunday og Monday).

Þetta eru í sjálfu sér ágæt orð mörg hver en kannski ekki líkleg til að komast í almenna notkun frekar en orðið þreykur sem þó hefur komist í íðorðasöfn og er myndað af þoka og reykur, augljóslega með smog sem fyrirmynd. En eitt þekktasta og mest notaða orð málsins, sem oft er tekið sem dæmi um snjalla orðmyndun, er þó af þessu tagi. Það er orðið tölva sem Sigurður Nordal prófessor myndaði og „kvað orðið dregið af orðunum tala og völva“ – með sambræðslu. Það orð sýnir glöggt að sambræðsla af þessu tagi er fullgild orðmyndunaraðferð og þess vegna ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að orðið slendingur fengi þegnrétt í málinu. Mér finnst það í fljótu bragði ágætt orð, en örlög þess ráðast vitanlega meðal málnotenda.