Að urða, hrauna, drulla og valta yfir
Í gær var vakin hér athygli á setningunni „Mourinho urðaði yfir Taylor í viðtölum eftir leik“ í frétt á Vísi og spurt hvort ekki væri yfirleitt bara talað um að urða. Ég fór að skoða þetta og komst að því að það er vissulega rétt að urða yfir virðist ekki gamalt í málinu en er algengt á samfélagsmiðlum. Elsta dæmi sem ég finn er á Hugi.is 2002: „Sem sagt Rottweiler urðuðu yfir Johnsen kallinn.“ Örfá dæmi eru um sambandið á tímarit.is, það elsta í Fréttablaðinu 2017: „Krakkarnir eiga það ekki skilið frá mér sem mikilsmetnum karakter í íslensku tónlistarlífi að ég sé að urða yfir þau.“ Það er ljóst að urða yfir merkir 'hundskamma, hreyta ónotum í, tala niðrandi um' eða eitthvað slíkt. Í Risamálheildinni eru dæmin um 200, flest frá síðasta áratug.
Í umræðu um áðurnefnda fyrirspurn voru nefnd fleiri svipuð sambönd eins og hrauna yfir og valta yfir. Sambandið hrauna yfir merkir það sama og urða yfir en er aðeins eldra. Elstu dæmi sem ég finn um það eru frá 1998, t.d. í Skinfaxa það ár: „Steini var eitthvað að uppfæra diska inni í studíói og ég var eitthvað aðeins að hrauna yfir hann.“ Fyrstu árin er hrauna stundum innan gæsalappa en virðist þó fljótlega hafa öðlast viðurkenningu. Þannig segir í Morgunblaðinu 2003: „Víkverja þykir t.a.m. orðasambandið „að hrauna yfir“ einhvern [veginn] sérlega íslenskt og skemmtilegt.“ Á síðasta áratug hefur sambandið orðið mjög algengt og hátt í fimm þúsund dæmi eru um það í Risamálheildinni, hátt í ¾ af samfélagsmiðlum.
Þriðja sambandið sem notað er í sömu merkingu er drulla yfir. Ekki er ótrúlegt að sögnin í því sambandi hafi haft þau áhrif að það hafi komist seint á prent, en elsta dæmi sem ég finn um það er í Munin 1994: „Eigum við ekki bara að drulla yfir þá strákar?“ Á tímarit.is er þó á annað hundrað dæma um þetta samband og í Risamálheildinni vel á ellefta þúsund. Sambandið valta yfir er svo dálítið eldra. Elsta dæmi sem ég finn um það er í Þjóðviljanum 1983: „Í ákvörðuninni um að falla frá samningabanninu felst einnig viðurkenning á því að ekki er hægt að valta yfir sjónarmið verkalýðshreyfingarinnar í stjórn landsins.“ Fram undir 1990 er sambandið stundum haft innan gæsalappa en verður svo mjög algengt þegar kemur fram á tíunda áratuginn.
Öll þessi sambönd er hægt að nota í sömu merkingu, þeirri sem lýst var við urða yfir hér að framan, en nokkur tilbrigði eru þó í notkun þeirra. Tvö þessara sambanda, valta yfir og hrauna yfir, er að finna í Íslenskri nútímamálsorðabók – það fyrrnefnda er skýrt 'vera með yfirgang eða frekju'. Það getur átt við, en sambandið merkir mun oftar 'gersigra' eins og í Víkurfréttum 1992: „Keflvíkingar voru í miklu stuði og völtuðu yfir Hauka, 6-0.“ Sambandið hrauna yfir er aftur á móti sagt „óformlegt“ og skýrt 'sýna e-m yfirgang, vaða yfir e-n'. Það getur vissulega átt við, en yfirgangurinn er þó oftast í orðum, ekki athöfnum. Sama máli gegnir um drulla yfir og urða yfir – þar er yfirleitt vísað til orða og e.t.v. látbragðs frekar en aðgerða.
Þá er loks komið að spurningunni sem nefnd var í upphafi – hvort ekki sé vaninn að tala um að urða frekar en urða yfir. Svarið er játandi, en þó með fyrirvara. Ég held nefnilega að þetta tvennt merki ekki það sama. Þegar eitthvað er urðað er venjulega gengið frá því endanlega – sögnin urða merkir bókstaflega 'hylja grjóti, grafa í urð' eins og segir í Íslenskri orðabók. Það sem hefur verið urðað á yfirleitt ekki afturkvæmt, er endanlega úr leik, en þannig er ekki með það sem er urðað yfir. Líklegt er að sambandið urða yfir hafi orðið til fyrir áhrif frá hinum samböndunum sem hér eru nefnd. Mér finnst samt ástæðulaust að amast við því – bókstafleg merking væri 'kasta urð (grjóti) yfir' og sé sé ekki betur en það sé líking sem geti staðist.