Aðgerðaáætlun í málefnum íslenskunnar
Því ber að fagna sérstaklega að megináherslan í aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu, níu aðgerðir af 18, er á íslensku sem annað mál og íslenskunám innflytjenda, enda fátt mikilvægara fyrir framtíð íslenskunnar. Það er gífurleg aukning í notkun annarra tungumála í landinu, einkum ensku. Þessi aukning stafar annars vegar af sprengingu í ferðaþjónustu þar sem enska er aðaltungumálið, og hins vegar af mikilli fjölgun fólks með annað móðurmál sem kemur hingað til að setjast að eða til að vinna hér tímabundið. Enska er aðalsamskiptamál milli innfæddra og þess fólks, og einnig innbyrðis milli fólks af mismunandi þjóðernum. Nú eru farin að verða til hér á landi afmörkuð málsamfélög þar sem íslenska er ekki notuð og fæstir kunna íslensku.
Það er nokkuð ljóst að fólki með annað móðurmál en íslensku mun enn fara fjölgandi á næstu áratugum, og enskunotkun aukast. Ekkert bendir til annars en ferðafólki haldi áfram að fjölga. Atvinnurekendur kalla eftir meira vinnuafli og því hefur verið spáð að eftir 20-30 ár verði allt að helmingur fólks á vinnumarkaði af erlendum uppruna. Á sama tíma er fæðingartíðni í sögulegu lágmarki. Allt þetta leiðir til þess að hlutfall enskunotkunar á móti íslenskunotkun hefur farið og fer hækkandi, og ef svo fer fram sem horfir er alls ekki óhugsandi, og jafnvel líklegt, að um miðja þessa öld muni enska hafa tekið við af íslensku sem aðalsamskiptamálið í landinu. Þessi aðgerðaáætlun þarf að geta snúið þeirri þróun við og er því gífurlega mikilvæg.
Aðgerðaáætlunin er metnaðarfull á margan hátt og í henni er að finna fjölda góðra áforma um aðgerðir sem örugglega munu efla íslenskuna verulega ef þeim verður hrint í framkvæmd. En þessar aðgerðir kosta fé – mismikið vissulega, en verulegar upphæðir þegar allt er talið. Það er megingalli aðgerðaáætluninnar að henni fylgja engar fjárveitingar, og fjármálaáætlun næstu fimm ára gefur litlar vísbendingar um að ríkisstjórnin áformi að verja verulegu fé til eflingar íslenskunnar á næstu árum. Auðvitað er ljóst að fé er ekki veitt með þingsályktun og allar fjárveitingar þurfa að vera á fjárlögum, en það hefði verið mikill kostur ef einstökum liðum áætlunarinnar hefði fylgt kostnaðarmat þótt slíkt mat geti aldrei orðið annað en vísbending.
Það er auðvelt að samþykkja tillögu um eflingu íslenskunnar ef hvergi kemur fram að henni fylgi einhver kostnaður, en kostnaðarmat auðveldar alþingismönnum að taka upplýsta afstöðu til tillögunnar og meta hvort þeim finnist væntanlegur ávinningur réttlæta kostnaðinn við aðgerðirnar. Það er mikilvægt að samþykkt þingsályktunartillögunnar feli í sér siðferðilega skuldbindingu um að styðja fjárveitingar til að framfylgja henni og hugmynd um líklegan kostnað er forsenda þess. Þess vegna er nauðsynlegt að áður en tillagan verður lögð fyrir Alþingi verði reiknaður út líklegur kostnaður á hvern lið, líkt og gert var við aðgerðaáætlun stjórnvalda í íslenskri máltækni sem unnið var eftir á árunum 2019-2022 og gafst mjög vel.