Algjör negla
Nafnorðið negla er í Íslenskri nútímamálsorðabók skýrt 'tappi í gat á trébáti sem sjó er hleypt út um'. Hliðstæð skýring er í Íslenskri orðabók en þar er bætt við að í óformlegu íþróttamáli geti orðið einnig merkt 'fast markskot'. Elsta dæmi sem ég finn um það er í Morgunblaðinu 1997: „Mark Verons var sérlega glæsilegt, viðstöðulaus negla í skeytin eftir hornspyrnu.“ Þessi merking er væntanlega komin af sögninni negla í samböndum eins og negla boltann/boltanum í markið sem er skýrt 'skjóta fast í markið' í Íslenskri orðabók. Elsta dæmi sem ég finn um negla bolta (í mark) er frá 1960, og framan af var alltaf notað þolfall – negla boltann. Þágufallið, negla boltanum, kemur svo til um 1980 og er nú mun algengara – þolfallið virðist vera á útleið.
En nafnorðið negla er nú mjög oft notað um hvaðeina sem hittir í mark eða slær í gegn. Fyrstu merki sem ég finn um það er auglýsing í Morgunblaðinu 1977 þar sem segir: „En það er nú ekkert slor fullt af nýjum plötum og svo er plötusnúðurinn búinn að vinna vel og dyggilega við að undirbúa kvöldið svo það verður algjör negla í stuðinu allt frá 20.30 til 00.30.“ Í Helgarpóstinum 1981 segir: „Eftir allt þetta, kemur Þeyr með 40 mínútna prógramm, og kynnir m.a. nýja plötu sem kemur einmitt út þennan dag og ku vera algjör negla.“ Sama ár var nokkrum sinnum í Helgarpóstinum dálkurinn „Leiðarvísir helgarinnar“ þar sem lýst var því sem væri á dagskrá á skemmtistöðum borgarinnar, og stundum klykkt út með „Algjör negla“.
Þessi notkun var þó sjaldgæf lengi vel, eða komst a.m.k. ekki mikið á prent, en á síðustu árum hefur hún stóraukist. Í Vísi 2008 segir: „Þátturinn verður algjör negla, segir Logi Bergmann.“ Á vef RÚV 2016 segir: „Sérstaklega í byrjun þegar hann færir sig úr Wham! yfir í Faith og lætur sér vaxa skeggbrodda og setur sig í rokkstellingu. Það var alveg negla hjá honum.“ Í Fréttablaðinu 2020 segir: „Ef markmiðið hefði verið að skapa umtal, þá væri þetta algjör negla hjá þjóðkirkjunni.“ Oft er orðið notað í sömu merkingu og smellur, t.d. á vef RÚV 2018: „Hann hefur sent frá sér þónokkrar neglur“ og „Hún snýr úr sjálfskipaðri átta ára útlegð úr bransanum með negluna Missing U sem hefur allt það besta sem Robyn-smellur þarf að hafa.“
En negla er líka notað í dálítið annarri merkingu, eins og í DV 2014: „Hún er svo mikil negla og hún hefur kennt mér svo á lífið.“ Í DV 2020 segir: „Ég var með svo góðan jarðfræðikennara í MR, hún var svo mikil negla og mér fannst hún svo töff.“ Á Vísi 2021 segir: „Taylor Swift finnst mér algjör negla, drottning poppsins.“ Þótt þarna megi vissulega sjá skyldleika við merkinguna 'slá í gegn' finnst mér þetta frekar skylt orðinu nagli í samböndum eins og vera mikill/harður nagli sem er skýrt 'vera harður af sér, harður í samskiptum' í Íslenskri nútímamálsorðabók. Í öllum þessum dæmum er rætt um konu og mælandinn er kona – ef til vill finnst konum eðlilegra að nota kvenkynsorðið negla um konur en karlkynsorðið nagli.
Á seinustu mánuðum finnst mér ég hafa séð sambandið X með neglu býsna oft á vef- og samfélagsmiðlum, í þeirri merkingu að verið sé að kasta sprengju inn í umræðuna, eða setja mál sitt fram á sérlega skýran og hnitmiðaðan hátt og slá vopn úr höndum andstæðinga. Mér finnst ekkert athugavert við þessa orðanotkun, en hætta er á að hún verði dálítil klisja þegar hver „neglan“ kemur á fætur annarri og sumt fólk skrifar ekki pistil nema um „neglu“ sé að ræða. En hvað sem þessu líður er ljóst að orðið negla hefur gengið í endurnýjun lífdaga enda lítil þörf á því nú orðið í upphaflegri merkingu. Þetta er gott dæmi um það hvernig hægt er að endurnýta gömul orð sem hafa lokið hlutverki sínu, en auðvitað þarf að gæta þess að ofnota þau ekki.
Leave a Reply