Jafntefli

Um daginn var hér vakin athygli á setningu í frétt á Vísi: „Býflugnagerið var svo fjölmennt að úr fjarlægð minnti það helst á snjókomu, eða býflugnaher tilbúinn til átaka.“ Þarna er vissulega um að ræða óhefðbundna notkun lýsingarorðsins fjölmennt sem skýrt er 'með mörgu fólki' í Íslenskri nútímamálsorðabók og 'með marga menn, með mörgu fólki' í Íslenskri orðabók. Orðhlutinn -menn- er vitanlega af rótinni mann- í maður, og því má virðast óeðlilegt og órökrétt að nota orðið um býflugur. Ég ætla ekki heldur að mæla með þeirri notkun eða mæla henni bót, en það er samt rétt að benda á að í málinu má finna fjölmörg sambærileg dæmi sem þykja góð og gild og aldrei eru gerðar athugasemdir við. Eitt slíkt er orðið jafntefli.

Í Íslenskri nútímamálsorðabók eru gefnar tvær skýringar á jafntefli: 'það þegar tveir skákmenn ljúka skák sinni þannig að hvorugur getur mátað hinn (báðir fá hálfan vinning)' og 'jöfn úrslit í hvaða keppni sem er'. Orðið er skýrt á sama hátt í Íslenskri orðabók en tekið fram að síðari merkingin sé afleidd, enda augljóst að síðari liðurinn -tefli er dreginn af nafnorðinu tafl. Orðið jafntefli kemur fyrir þegar í fornu máli – að vísu eru aðeins tvö dæmi um það í dæmasafni Ordbog over det norrøne prosasprog, en í báðum er talað um jafntefli í skák. Sama er að segja um langflest dæmi um orðið fram á annan áratug 20. aldar, en dæmin eru reyndar ekki mörg og stór hluti þeirra úr skákblaðinu Í uppnámi sem kom út á árunum 1901-1902.

Elsta dæmi sem ég finn um að orðið sé notað um annað en skák er í Ísafold 1890 en þar er reyndar notuð myndin jafntefl (án -i): „verðið á fiski þaðan er nærri komið í jafntefl við Ísafjarðarfiskinn.“ Í Heimskringlu 1895 segir: „Hvað “Base ball” leikinn áhrærir, þá vilja “North Star”-menn hér í bænum halda fram, að þar hafi verið jafntefli.“ Í sama blaði 1896 segir: „Árið 1888 sótti hann um þingforseta-embættið gegn Brisson, og varð þar jafntefli.“ Í Austra 1898 segir: „Mér virðist hér ekki hafa verið jafntefli við herra Merton, því að þessir peningar eru falskir!“ Í sama blaði sama ár segir: „En Englendingar munu eigi hafa þar syðra ennþá fleiri en um 50,000 vígra manna, svo að ennþá er eigi meira en jafntefli af þeirra hálfu.“

En fljótlega eftir að knattspyrnuiðkun hófst á Íslandi var farið að nota jafntefli um úrslit leikja. Í Vísi 1915 segir: „Rvíkurmenn hugsuðu nú um að koma knettinum inn hjá Fram og gera jafntefli ef mögulegt væri, en vörnin hjá Fram er sterk, með tveimur 42 cm. fallbyssum, svo að jafntefli var útilokað.“ Í Morgunblaðinu 1916 segir: „Leikarnir hafa því farið svo, að tvisvar hefir orðið jafntefli, en „Fram“ hefir einn vinning.“ Í Vísi 1916 segir: „Knattspyrnukappleikur Vals og Reykjavíkur, sem háður var á íþróttavellinum í gær varð jafntefli, 3 : 3.“ Ekki er að sjá í blöðum nein merki þess að þetta orðalag hafi þótt óeðlilegt, t.d. verður þess ekki vart að „jafntefli“ sé haft innan gæsalappa eins og oft er þegar nýtt orðalag er að ryðja sér til rúms.

Það er sem sé komin meira en hundrað ára hefð á það að nota jafntefli ekki bara um tafl eins og orðhlutinn -tefl- bendir til, heldur um það þegar hvorugur keppenda vinnur sigur, hvort sem er í íþróttum, stjórnmálum, hernaði eða annars konar keppni. Þetta er fullkomlega eðlilegt og þegar við notum orðið erum við ekkert að velta þessu fyrir okkur og það truflar okkur ekkert – þetta er sú málnotkun sem við ólumst upp við. Aftur á móti erum við ekki vön því að fjölmennt sé haft um annað en fólk og þess vegna truflar það okkur að tala um fjölmennt býflugnager. Það er þó í raun algerlega sambærilegt við að tala um jafntefli í knattspyrnuleik – nema því erum við vön. Ég vildi bara minna á að málhefðin er ekki alltaf og þarf ekki að vera rökrétt.