Posted on Færðu inn athugasemd

Málspjall þriggja ára

Fyrir fjórum árum, í byrjun ágúst 2019, byrjaði ég að skrifa pistla um málfræðileg efni í Málvöndunarþáttinn og skrifaði alls um 120 pistla þar næsta árið. Á endanum gafst ég hins vegar upp á þeim hópi vegna þess neikvæða anda sem þar ríkti – og ríkir enn – og stofnaði þennan hóp sem á þriggja ára afmæli í dag. Markmiðið var að efla jákvæða umræðu um íslenskt mál – birta fræðandi pistla um mál og málnotkun, svara spurningum, og skapa umræðuvettvang. En markmiðið hefur einnig verið að efla íslenskuna og auka notkun hennar, m.a. með því benda á óþarfa enskunotkun og berjast gegn henni og með því að tala fyrir því að öllum leyfist og sé auðveldað að nota íslenskuna á sinn hátt, þ. á m. kynsegin fólki og fólki af erlendum uppruna.

Á fyrstu vikum hópsins gengu um tvö þúsund manns í hann og síðan hefur fjölgað jafnt og þétt í honum, kringum tvö þúsund manns á ári – félagar eru nú rúm átta þúsund. Samtals hef ég birt hér tæplega 700 pistla, deilt ófáum fréttum og greinum og svarað aragrúa spurninga, auk þess sem aðrir hópverjar hafa vitanlega skrifað ótalmörg innlegg, tekið þátt í umræðum og svarað spurningum. Innlegg undanfarna tvo mánuði eru að meðaltali rúmlega fimm á dag, og athugasemdir rúmlega 100. Það er því óhætt að halda því fram að hópurinn sé mjög virkur og hann hefur líka haft áhrif – fjölmiðlar hafa iðulega vitnað í hann og athugasemdir sem hér hafa verið gerðar hafa nokkrum sinnum stuðlað að því að fyrirtæki hafa látið af óþarfri enskunotkun.

Ég er enn sannfærðari en áður um að jákvæð umræða, umburðarlyndi og virðing fyrir öðru fólki og málnotkun þess er frekar til þess fallin að efla íslenskuna en hneykslun, umvandanir og leiðréttingar. Það þýðir ekki að við eigum að láta það afskiptalaust ef við heyrum eða sjáum í fjölmiðlum málfar sem gengur í berhögg við málhefð. Ég hef nokkrum sinnum, m.a. tvisvar í síðustu viku, sent fréttafólki Ríkisútvarpsins tölvupóst og bent á óhefðbundið orðalag í fréttum. Undantekningarlaust er brugðist vel við – ég fæ þakkarpóst og viðkomandi frétt er breytt. Ég er ekki í vafa um að slíkar ábendingar eru líklegri til að skila árangri og skapa jákvætt viðhorf til málvöndunar en opinberar leiðréttingar þar sem talað er með lítilsvirðingu um „fréttabörn“.

Haldið endilega áfram að skrifa innlegg og athugasemdir, spyrja spurninga og svara, og taka þátt í umræðum. Munið bara að athugasemdir við málfar einstaklinga eða hópa eru ekki leyfðar og verður eytt. Innlegg sem virðast hafa þann eina tilgang að vekja athygli á einhverju sem höfundi finnst mega betur fara eru ekki heldur leyfð, og sama gildir um innlegg sem ekki verður séð að komi íslensku máli neitt við. Allar skoðanir á máli og málfari eru leyfðar, að því tilskildu að þær séu settar fram á málefnalegan hátt og ekki með óviðurkvæmilegu orðalagi. Ég vonast til að hópurinn haldi áfram að vaxa og umræður verði áfram líflegar. Það skiptir máli fyrir íslenskuna að við ræðum hana, fræðumst um hana, og skiptumst á skoðunum um hana.

Posted on Færðu inn athugasemd

Skoðanalöggur

Í viðtali í Morgunblaðinu um helgina sagði Kristrún Heimisdóttir: „Svo verður ekki horft fram hjá því að það er stórhættulegt hvernig skoðanalöggur halda umræðunni í heljargreipum. Þess vegna er svo margt sem erfitt er að ræða; allt frá íslenskri tungu yfir í kristindóminn og allt þar á milli.“ Elsta dæmi sem ég hef fundið um orðið skoðanalögga er í Alþýðublaðinu 1992, þar sem rætt er um ágreining innan Kvennalistans um EES-aðild og talað um „skoðanalöggur Kvennalistans“ og sagt „þingsysturnar brugðu sér í gervi stalínískrar skoðanalöggu“. Í Degi-Tímanum 1997 er fjallað um brottrekstur pistlahöfunda frá Ríkisútvarpinu og sagt: „Markús Örn segir enga skoðanalöggu í útvarpinu.“ Markús notaði þó ekki orðið skoðanalögga.

Fréttin um Kvennalistann fjallar um það þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir lýsti annarri skoðun á EES-aðild en meirihluti þingflokksins sem brást hart við og hótaði m.a. að taka hana úr utanríkismálanefnd. Í fréttinni um pistlahöfundana var sagt frá því að þeir Illugi Jökulsson og Hannes Hólmsteinn Gissurarson hefðu verið endurráðnir sem pistlahöfundar við Ríkisútvarpið eftir að hafa verið sagt upp þremur árum áður. Um uppsögnina sagði þáverandi útvarpsstjóri: „Það var reyndar Illugi sem var látinn fara fyrst vegna þess að hann þótti hafa brotið af sér“ – með því að tjá ákveðnar skoðanir. Í báðum tilvikum er orðið skoðanalögga því notað í merkingunni 'fólk sem notar boðvald sitt til að (reyna að) stjórna umræðunni' eða eitthvað slíkt.

En notkun orðins skoðanalögga hefur breyst. Í „Staksteinum“ Mogunblaðsins 2014 er rætt um mótmæli gegn ummælum þáverandi forsætisráðherra um loftslagsbreytingar og sagt: „Að mati tiltekins hóps fólks er það að verða svo að ákveðnir menn mega helst ekki tjá sig og ákveðnar skoðanir mega helst ekki heyrast. Og ef þær heyrast, þá fara þessar skoðanalöggur af stað og reyna að ráðast af nægilegri heift á viðkomandi til að hann láti sér það að kenningu verða og lúti eftirleiðis vilja hópsins.“ Á Eyjunni 2014 segir: „fólk var sakað um föðurlandssvik og þeir sem vildu að mannréttindi og stjórnarskrá yrðu virt voru kallaðir „rétttrúnaðarsinnar“ og „skoðanalöggur“.“ Þarna er ekki verið að tala um fólk sem hefur eitthvert boðvald yfir öðrum.

Þannig virðist það eitt að lýsa andstöðu við tiltekna skoðun nægja til að fá á sig stimpilinn skoðanalögga sem er vitanlega mjög gildishlaðið og neikvætt orð. Vissulega er sumt fólk í betri aðstöðu en annað til að koma skoðunum sínum á framfæri og hafa áhrif á skoðanir annarra, í krafti þjóðfélagsstöðu sinnar, valda, frægðar, þekkingar, valds á tungumálinu o.fl. Þetta fólk mætti t.d. kalla umræðustjóra eða jafnvel áhrifavalda, en svo framarlega sem það hefur ekki boðvald yfir öðrum er fráleitt að tala um það sem skoðanalöggur. Það er ekki til annars fallið en að gera málflutning fólks tortryggilegan og kæfa umræðuna – og er einmitt notað til þess. Þau sem nota orðið skoðanalögga um annað fólk hitta þess vegna fyrst og fremst sjálf sig fyrir.