Posted on Færðu inn athugasemd

Enska í Þjóðleikhúsinu

Í viðtali við þjóðleikhússtjóra í Morgunblaðinu í dag segir hann: „Á sama tíma erum við líka að horfa á aðra hópa sem ekki hafa haft gott aðgengi að húsinu, til dæmis þá sem tala ekki íslensku og erum við að byrja að texta leiksýningar á ensku í vetur líka. Við erum að reyna allt sem við getum til þess að standa undir nafni sem alvöru þjóðleikhús og leikhús í eigu þjóðarinnar.“ Sumum finnst örugglega mega setja spurningarmerki við þetta. Þjóðleikhúsinu er ætlað samkvæmt lögum að „vera til fyrirmyndar um listrænan flutning viðfangsefna á íslensku“ – er þá einhver skynsemi í því að setja enskan texta við sýningar? Er þarna ekki enn verið að auka hlut enskunnar í íslensku málsamfélagi sem mörgum finnst þó meira en nógu stór fyrir?

Mér finnst þetta mjög jákvætt og til fyrirmyndar. Eins og ég hef margsagt er enskan enginn óvinur – við þurfum að horfast í augu við að hún er komin til að vera í íslensku málsamfélagi og hér mun áfram vera stór hópur fólks sem kann ekki íslensku til fulls. Innflytjendur eru nú um 18% mannfjöldans og þótt fáir þeirra eigi ensku að móðurmáli skilur meginhluti þeirra væntanlega málið að einhverju leyti, enda enska aðalsamskiptamál milli innflytjenda og innfæddra. Þess vegna ætti enskur texti að geta gagnast verulegum hluta innflytjenda. Auk þess kunna auðvitað margir þeirra eitthvað í íslensku og með því að nýta sér samspil tals, texta og leikrænnar tjáningar ættu þeir að geta notið leiksýninga með enskum texta mun betur en áður.

Það er mikilvægt að íslenska verði áfram aðalsamskiptamál í landinu og það verður hún ekki til frambúðar nema hún nái í miklu meira mæli en nú er til hins stóra hóps innflytjenda. En forsendan fyrir því að hún geri það er að það fólk einangrist ekki í sínum málsamfélögum, heldur finnist það velkomið í íslensku málsamfélagi og geti notið alls þess sem það hefur upp á að bjóða – þar á meðal menningar og lista. Þess vegna er mikilvægt að auðvelda fólki með takmarkaða íslenskukunnáttu að sækja leikhús. Þótt aðferðin til þess sé að nota enskan texta vinnur það ekki gegn íslenskunni, enda víkur hún ekki fyrir enskunni. Þvert á móti styrkir þetta íslenskuna til lengri tíma litið. Þess vegna er ástæða til að fagna þessum áformum.

Posted on Færðu inn athugasemd

Nú dámar mér – eða ekki

Í gær var spurt hér um nafnorðið dámur og sögnina dáma sem fyrirspyrjandi þekkti í orðasambandinu nú dámar mér ekki, í merkingunni 'nú er ég aldeilis hissa'. Í nútímamáli er sögnin nær eingöngu notuð í þessu orðasambandi eins og ráða má af því að hún er ekki skýrð sérstaklega í Íslenskri nútímamálsorðabók, heldur er sambandið í heild skýrt eða umorðað 'ég á ekki orð, ja hérna!' og sagt tákna undrun og hneykslun. En dáma merkir upphaflega 'bragðast, falla í geð' og mér dámar þetta ekki merkti því 'mér líkar þetta ekki'. Nafnorðið dámur sem merkti 'bragð; lykt, angan; yfirbragð' er líklega alveg horfið úr málinu nema í sambandinu draga dám af einhverju sem merkir 'líkjast eða vera undir áhrifum frá einhverju'.

Í eldri dæmum merkir dáma venjulega 'líka' – „Ekki dámaði mjer sú bænar aðferð Þuríðar“ segir í Píslarsögu séra Jóns Magnússonar frá miðri 17. öld. Sama merking er í öllum eldri dæmum í Ritmálssafni Árnastofnunar og á tímarit.is. En ýmis tilbrigði má finna í notkun sagnarinnar. Þannig er hún stundum notuð í sambandinu dáma að – „Fór mönnum þá ekki að dáma að þessu“ segir t.d. í Þjóðsögum Jóns Árnasonar frá miðri 19. öld, og „mér fer nú ekki mjög að að dáma, hvað menn eru latir og nota það lítt“ segir í Sunnanfara 1896. Einnig tekur sögnin stundum þolfallsfrumlag í stað þágufalls, eins og kemur fram í Íslenskri orðabók – „Vitaskuld er það eingin furða, þótt menn dámi ekki að því“ segir í Sunnanfara 1895.

Það er oft stutt frá merkingunni 'líka ekki' yfir í nútímamerkinguna 'fyllast undrun og hneykslun' og ekki alltaf ljóst hvor á við. Í Ísafold 1912 segir t.d.: „Eyjólfur, nú dámar mér ekki; nú held eg að eg hætti við að kjósa þig.“ Þetta voru viðbrögð kjósanda eftir ræðu frambjóðanda, og þarna getur merkingin verið hvort heldur er 'nú líkar mér ekki' eða 'nú er ég aldeilis hissa'. En í þýddri sögu eftir Mark Twain í Nýjum kvöldvökum 1914 segir: „Og þegar hún sá að búið var að kalka alla girðinguna svona vel, gekk alveg yfir hana. „Já, já! Nú ætlar mér ekkert að dáma!““ Konan sem segir þetta er ánægð með verkið, og því er ljóst að merkingin er undrun en ekki vanþóknun. Sú notkun er því komin fram í upphafi 20. aldar.

Merkingin 'bragðast' lifði einnig í dáma fram á 20. öld. Í ritinu Um tilfinningalífið eftir Ágúst H. Bjarnason frá 1918 segir: „Og enn segjum vjer á íslensku: »Nú dámar mjer ekki!« en það þýðir: þetta er ekki gott á bragðið; þessu geðjast mjer ekki að.“ En eftir því sem leið á 20. öld varð undrunarmerkingin algengari og sögnin kom æ oftar fyrir í sambandinu nú dámar mér ekki. Fljótlega fer sambandið einnig að koma fyrir án neitunar, en í sömu merkingu – í Lögbergi 1921 er að finna aðra þýðingu á sömu sögu og áður var vitnað til úr Nýjum kvöldvökum, en þar stendur „Nú dámar mér“ í stað „Nú ætlar mér ekkert að dáma!“. Það er ekki einsdæmi að neitun sé sleppt á þennan hátt – við segjum t.d. oft nú líst mér á í merkingunni 'mér líst ekkert á'.

Sögnin dáma í merkingunni 'líka' er algeng í færeysku – mær dámar hasa bókina. Merkingin 'líka' hefur einnig haldist í sögninni í íslensku fram undir þetta þótt hún sé orðin mjög sjaldgæf, en kemur t.d. fyrir í Fréttablaðinu 2019: „Einni fjölskyldunni hafi reyndar ekki dámað en hún hafi drifið sig yfir til annarrar fjölskyldu og þá liðið betur.“ Athyglisvert er að í krossgátu í Vikunni 1953 er dáma gefin sem ráðning á líka, en í krossgátu í Vísi sama ár er hún ráðning á ofbjóða. Á bak við síðarnefnda dæmið hlýtur að liggja sambandið nú dámar mér, án neitunar. Bæði nú dámar mér og nú dámar mér ekki eru algeng sambönd í óformlegu máli samkvæmt samfélagsmiðlahluta Risamálheildarinnar, sambandið án neitunar þó töluvert algengara.

Posted on Færðu inn athugasemd

Þetta er hægt

Hin mikla umræða sem hefur verið undanfarna daga um óþarfa og óæskilega enskunotkun á Íslandi hefur leitt ýmislegt í ljós sem vekur bæði ugg og bjartsýni. Það hefur komið mjög vel í ljós hversu ónæm við erum orðin fyrir enskunni í umhverfinu – tökum ekki eftir henni og finnst ekkert athugavert við hana fyrr en okkur er bent á hana. Eins og ég hef áður sagt held ég að þarna sé sjaldnast „einbeittur brotavilji“ að baki heldur hugsunarleysi, metnaðarleysi og kæruleysi – og jafnvel leti og tilhneiging til að spara. En það er uggvænlegt hversu útbreitt þetta meðvitundarleysi gagnvart enskunni, gagnvart því að alls konar merkingar, upplýsingar og textar séu á ensku, er orðið hjá mörgum fyrirtækjum og jafnvel hjá opinberum aðilum.

Mannauðssvið Reykjavíkurborgar segist hafa vitað af því um áramót að skilmálar 50skills, sem umsækjendum um störf hjá borginni er gert að samþykkja, væru á ensku. Í stað þess að fresta því að taka kerfi 50skills í notkun voru fyrirheit um að „þetta yrði komið í lag í sumar“ látin nægja en ekkert virðist hafa verið fylgst með því hvort svo væri – fyrr en vakin var athygli á málinu nú. Þetta rímar að vísu ekki við það svar sem ég fékk frá fyrirtækinu 50skills sem þykist ekkert hafa vitað af málinu fyrr en nú: „Við sáum þetta í fjölmiðlum í gær og fórum að sjálfsögðu beint í málið.“ En aðalspurningin er: Hvers vegna í ósköpunum hefur íslenskt fyrirtæki (sem 50skills mun vera, þrátt fyrir nafnið) skilmála sína eingöngu á ensku?

Fern samtök í atvinnulífinu skrifuðu utanríkisráðherra bréf á ensku um daginn og skýra enskunotkunina með því að tilgangur bréfsins hafi verið „að brýna ráðherra og veita upplýsingar svo að hún gæti að hagsmunum Íslands“ – sem er augljóslega yfirvarp, því að ef það hefði verið megintilgangur bréfsins hefði það að sjálfsögðu verið skrifað á íslensku. Innihaldslýsing á samlokum sem merktar eru ELMA, Eldhúsi og matsölum Landspítalans, er með stóru letri á ensku en undir er lýsing á íslensku með miklu minna letri. Sú skýring er gefin að „fyrirtækið sem framleiðir þessar samlokur fyrir okkur sé að merkja fyrir fleiri aðila“ – en af hverju hafði þessu ekki verið veitt athygli innan Landspítalans fyrr? Af hverju þurfti opinbera umræðu?

Svona mætti lengi telja upp dæmi um enskunotkun sem fyrirtæki og stofnanir láta viðgangast tímunum saman – oftast væntanlega í hugsunarleysi, ekki vegna þess að þau séu meðvitað að vinna gegn íslenskunni. Þeim finnst þetta kannski oft vera smáatriði sem skipti engu máli – og það er rétt, hvert þessara atriða um sig ræður engum úrslitum um framtíð íslenskunnar. En í sameiningu stuðla þau að meðvitundarleysi okkar um áhrif enskunnar og ryðja þannig brautina fyrir enn meiri ensku. Þetta er samt ekki bara á ábyrgð þeirra sem nota enskuna, heldur líka á ábyrgð okkar – við látum þetta viðgangast án þess að gera athugasemdir, oftast líklega vegna þess að við erum löngu hætt að taka eftir því enda enskan allt í kringum okkur.

Það jákvæða í þessu, sem vekur með manni smávegis bjartsýni, er að oft er brugðist vel við ábendingum og hlutunum kippt í lag þegar vakin er athygli á þeim. Mannauðssvið Reykjavíkurborgar ætlar að fylgja því eftir við 50skills að skilmálar fyrirtækisins verði þýddir á íslensku „ef þetta verður ekki komið í lag mjög fljótt“. 50skills segir: „Skilmálarnir eru komnir í þýðingu til þýðingarstofu og verða komnir með íslenska þýðingu innan skamms.“ Samtök atvinnulífsins ætla „að ganga úr skugga um að í þeim tilfellum sem enskan er notuð þá fylgi hún alltaf íslenskri frumútgáfu“. Landspítalinn segir: „Við sendum núna í morgun erindi og báðum um að samlokurnar okkar verði merktar á íslensku og það verður þannig framvegis.“

Þessi dæmi sýna okkur að þetta er hægt. Fyrirtæki og stofnanir vilja ekki fá á sig það orð að þau vinni gegn íslenskunni. Það er hægt að draga stórlega úr óþarfri og óæskilegri enskunotkun, oftast án mikils kostnaðar – og þó að það kosti stundum eitthvað er það bara óhjákvæmilegur kostnaður við að búa í litlu málsamfélagi. Það sem þarf er fyrst og fremst vitundarvakning. Við þurfum öll að átta okkur á því að það skiptir máli að nota íslensku þar sem þess er kostur. Stjórnendur fyrirtækja og stofnana bera sérstaka ábyrgð í þessu efni og þurfa alltaf að spyrja sig: „Er nauðsynlegt að nota ensku hér?“ „Er ekki hægt að nota íslensku í staðinn, eða meðfram enskunni?“ Og við þurfum að vera dugleg við að vekja athygli á óþarfri enskunotkun.