Enska í Þjóðleikhúsinu

Í viðtali við þjóðleikhússtjóra í Morgunblaðinu í dag segir hann: „Á sama tíma erum við líka að horfa á aðra hópa sem ekki hafa haft gott aðgengi að húsinu, til dæmis þá sem tala ekki íslensku og erum við að byrja að texta leiksýningar á ensku í vetur líka. Við erum að reyna allt sem við getum til þess að standa undir nafni sem alvöru þjóðleikhús og leikhús í eigu þjóðarinnar.“ Sumum finnst örugglega mega setja spurningarmerki við þetta. Þjóðleikhúsinu er ætlað samkvæmt lögum að „vera til fyrirmyndar um listrænan flutning viðfangsefna á íslensku“ – er þá einhver skynsemi í því að setja enskan texta við sýningar? Er þarna ekki enn verið að auka hlut enskunnar í íslensku málsamfélagi sem mörgum finnst þó meira en nógu stór fyrir?

Mér finnst þetta mjög jákvætt og til fyrirmyndar. Eins og ég hef margsagt er enskan enginn óvinur – við þurfum að horfast í augu við að hún er komin til að vera í íslensku málsamfélagi og hér mun áfram vera stór hópur fólks sem kann ekki íslensku til fulls. Innflytjendur eru nú um 18% mannfjöldans og þótt fáir þeirra eigi ensku að móðurmáli skilur meginhluti þeirra væntanlega málið að einhverju leyti, enda enska aðalsamskiptamál milli innflytjenda og innfæddra. Þess vegna ætti enskur texti að geta gagnast verulegum hluta innflytjenda. Auk þess kunna auðvitað margir þeirra eitthvað í íslensku og með því að nýta sér samspil tals, texta og leikrænnar tjáningar ættu þeir að geta notið leiksýninga með enskum texta mun betur en áður.

Það er mikilvægt að íslenska verði áfram aðalsamskiptamál í landinu og það verður hún ekki til frambúðar nema hún nái í miklu meira mæli en nú er til hins stóra hóps innflytjenda. En forsendan fyrir því að hún geri það er að það fólk einangrist ekki í sínum málsamfélögum, heldur finnist það velkomið í íslensku málsamfélagi og geti notið alls þess sem það hefur upp á að bjóða – þar á meðal menningar og lista. Þess vegna er mikilvægt að auðvelda fólki með takmarkaða íslenskukunnáttu að sækja leikhús. Þótt aðferðin til þess sé að nota enskan texta vinnur það ekki gegn íslenskunni, enda víkur hún ekki fyrir enskunni. Þvert á móti styrkir þetta íslenskuna til lengri tíma litið. Þess vegna er ástæða til að fagna þessum áformum.