Ábyrgð stjórnvalda á íslensku sem öðru máli

Á Samstöðinni var í fyrrakvöld rætt við Aleksöndru Leonardsdóttur sérfræðing hjá ASÍ um stöðu íslensku meðal innflytjenda og kennslu íslensku sem annars máls. Þetta var frábært viðtal þar sem margt fróðlegt kom fram – um ýmislegt af því hefur verið skrifað hér á þessum vettvangi en öðru hafði ég ekki áttað mig á. Meginniðurstaðan af viðtalinu var sú að það stendur upp á stjórnvöld að gera miklu betur. Ýmsar aðgerðir eru boðaðar í aðgerðaáætlun sem til stendur að leggja fyrir Alþingi í haust en miklu meira þarf til. En aðalatriðið er að þótt áætlunin verði samþykkt fylgir henni ekkert fé, og hvorki verður séð á fjárlögum 2024 né fjármálaáætlun næstu fimm ára að ætlunin sé að auka verulega fé til kennslu íslensku sem annars máls.

Það má halda því fram að rótin að vandanum sé sú að engin formleg stefna er til í málefnum innflytjenda og flóttafólks. Aleksandra lýsti því þannig að hér væri þess í stað rekin óformleg Gastarbeiter-stefna eins og í Þýskalandi og víðar í Evrópu á árum áður, sem gengi út á það að bjóða fólki að koma hingað til að vinna en gera ekki ráð fyrir að það settist hér að, og þess vegna væri ekki talin ástæða til að leggja áherslu á að kenna því íslensku eða rótfesta það í samfélaginu að öðru leyti. En auðvitað gengur þetta ekki eftir – meginhluti fólksins sest hér að og býr hér árum og áratugum saman, margt án þess að læra nokkurn tíma nema hrafl í íslensku. Enda eru orðin hér til samfélög þar sem íslenska er ekki notuð – og þeim mun fara fjölgandi.

Einn þáttur stefnuleysisins er sá að eftir uppstokkun ráðuneyta heyra málefni íslenskunnar undir mörg ráðuneyti. Kennsla íslensku sem annars máls í grunn- og framhaldsskólum er á ábyrgð Mennta- og barnamálaráðuneytisins, íslenska sem annað mál á háskólastigi heyrir undir Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið, íslenskukennsla fullorðinna er á verksviði Félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins, og málefni íslenskunnar að öðru leyti eru undir Menningar- og viðskiptaráðuneytinu. Þetta hefur iðulega þau áhrif að hvert ráðuneyti vísar á annað og ábyrgð á málum er mjög óljós. Fagleg þekking á málefnum íslensku sem annars máls innan stjórnarráðsins er lítil og dreifð. Úr þessu er mjög mikilvægt að bæta.

Um 70 þúsund erlendir ríkisborgarar búa nú á Íslandi. Sum þeirra kunna íslensku nokkurn veginn, önnur að einhverju leyti, en mörg lítið sem ekkert. Rannsóknir sýna þó að innflytjendur vilja yfirleitt læra íslensku en gefast oft fljótlega upp – sjaldnast vegna þess að tungumálið sé svo erfitt, heldur af ytri ástæðum. Þótt talsvert framboð sé af íslenskunámskeiðum eru þau oft óaðgengileg. Það þarf að greiða fyrir þau, og þótt fólk sem er komið inn á vinnumarkaðinn geti fengið styrk frá stéttarfélagi sínu þarf það að leggja út fyrir námskeiðunum og bíða síðan eftir því að fá endurgreitt, og það getur verið erfitt fyrir láglaunafólk að leggja út tugi þúsunda. Það er nauðsynlegt að breyta skipulaginu hvað þetta varðar til að fólk ráði við að taka námskeiðin.

Fólk sem kemur hingað til að vinna er flest á barneignaaldri og á margt börn. Þetta fólk vinnur yfirleitt láglaunastörf og þarf að vinna langan vinnudag til að ná endum saman, jafnvel vera í fleiri en einu starfi og vinnur oft vaktavinnu. Það er skiljanlegt að fólkið kjósi frekar að nota þann litla frítíma sem það hefur til að vera með börnum sínum en setjast á íslenskunámskeið. Það er því grundvallaratriði að kennslan fari fram á vinnutíma og fléttist helst saman við vinnuna. Aleksandra benti einnig á að til að sækja íslenskunám, sérstaklega á landsbyggðinni, væri eiginlega nauðsynlegt að vera á bíl vegna skorts á almenningssamgöngum, en láglaunafólk sem er nýlega komið til landsins er sjaldnast á bíl. Bætt aðgengi að námskeiðum er mikilvægt.

Sú íslenskukennsla sem er í boði er mjög misjöfn, að magni, innihaldi og gæðum. Samræmingu skortir algerlega, sem og stöðupróf sem geri mögulegt að átta sig á stöðu fólks, og evrópski tungumálaramminn hefur ekki verið nægilega vel innleiddur – það þarf að samræma kröfur sem gerðar eru eftir tiltekið nám. Þau námskeið sem eru í boði eru flest á lægstu stigum – brýn þörf er á framhaldsnámskeiðum. Nemendahópar eru líka oft mjög sundurleitir að uppruna, bakgrunni og hæfni. Yfirleitt er gert ráð fyrir að þau hafi öll farið gegnum „hefðbundið“ menntakerfi – og tali ensku – en því fer fjarri. Það vantar líka mun meiri rannsóknir á íslensku sem öðru máli – hvernig eigi að kenna hana, hvernig námsefni eigi að vera o.s.frv.

En jafnvel þótt fólk ljúki þeim námskeiðum sem í boði eru og ætli sér að fara að nota íslensku er það sífellt barið niður. Námið er einskis metið, það færir fólkinu engan ávinning. Stöðugt eru gerðar athugasemdir við málnotkun fólksins – hreim, beygingar o.fl. Íslendingar gefa sér oft ekki þann tíma sem þarf til samskipta við fólk sem hefur ekki málið fullkomlega á valdi sínu og skipta yfir í ensku. Rannsóknir sýna að fyrsta tungumál sem innflytjendur læra á Íslandi er enska, jafnvel fólk sem hefur ekki nema mjög takmarkaðan bakgrunn í ensku. Samt er ætlast til að innflytjendur læri íslensku til að fá fullan aðgang að samfélaginu og skortur á íslenskukunnáttu jafnvel notaður til að halda fólki niðri í launum. Þessu verður að breyta.