Dansar hann við dömurnar
Orðið dama hefur lengi verið mjög algengt í málinu þótt líklega hafi dregið eitthvað úr notkun þess á síðustu árum. Það merkir upphaflega 'hefðarkona, frú; látprúð og snyrtileg stúlka eða kona' samkvæmt Íslenskri orðsifjabók og er tökuorð úr dönsku, enda hefur það ekki alltaf þótt góð og gild íslenska – er t.d. merkt með spurningarmerki í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924. Í Íslenskri orðabók er orðið skilgreint 'kona, vel klædd stúlka', 'stúlka með yndisþokka í fasi' og 'hefðarkona' og í Íslenskri nútímamálsorðabók er það skilgreint sem 'kona' (dæmi: hann mætti á ballið með dömu) og 'fáguð kona' (dæmi: hún klæðir sig eins og dama). Það virðist nokkuð ljóst að það er ekki alltaf hægt að setja dama í stað kona.
Það þarf ekki að leita lengi til að sjá að orðið dama er oft notað í neikvæðu eða vafasömu samhengi. Í Morgunblaðinu 2010 er talað um „dömurnar hans Geira á Goldfinger.“ Í Fréttablaðinu 2010 er auglýst: „Dömurnar á Rauða Torginu eru yndislegur og síbreytilegur hópur kvenna sem elska símadaður.“ Í Fréttablaðinu 2011 segir: „Ekki fylgdi sögunni hvort leikarinn ætlaðist til að dömurnar gengju í Háloftaklúbbinn með sér.“ Í DV 2012 segir: „Bond kemst í lífsháska og dömurnar kikna í hnjánum yfir honum eins og áður.“ Í DV 2020 segir: „Götukappakstur, testósterónkeppni og bikiníklæddar dömur tilheyra liðinni tíð.“ Í Fréttablaðinu 2020 segir: „Það var eldri dama! Sú var gagnslaus á áður óséðu stigi!“
Þetta eru bara örfá dæmi af ótalmörgum sem mætti taka. Það er samt ekki svo að meginhluti dæmanna sé af þessu tagi. Oftast er orðið notað um klæðnað, útlit, framkomu o.þ.h., eins og skilgreiningar orðabóka nefna – aldrei í vísun til hugmynda, skoðana, þekkingar eða orða þeirra kvenna sem um ræðir. Nema þá í sérstökum tilgangi. Í umræðu hér um tillögu eða ósk frá hópi ungra kvenna skrifaði (karl)maður – sem fann tillögunni allt til foráttu: „Ef ég skil dömurnar rétt …“ Þarna er dömurnar – orð sem á við ytri þætti og oft er notað í neikvæðu samhengi – augljóslega notað til að gera lítið úr konunum og hugmyndum þeirra. Með slíkri orðanotkun dæmir fólk sig úr leik í málefnalegri umræðu. Ekki gera lítið úr þeim sem við erum ósammála.