Hvar aldist þú upp?

Fyrir rúmum 40 árum þegar ég var enn í námi vann ég smátíma við framburðarathuganir í Skagafirði á vegum verkefnisins Rannsókn á íslensku nútímamáli sem Höskuldur Þráinsson og Kristján Árnason stóðu að. Við fórum tveir milli bæja og töluðum við fólk á ýmsum aldri og reyndum að fá fram eðlilegan framburð þess. Einu sinni var ég að ræða við rúmlega áttræðan bónda og spurði eitthvað sem svo: „Hvar aldist þú upp?“ Bóndinn hváði og var augljóslega forviða á að maður sem gaf sig út fyrir að vera málfræðingur gerði slíka villu. Ég áttaði mig strax á þeim mistökum sem ég hafði gert og reyndi einhvern veginn að breiða yfir þau en ég er hræddur um að bóndinn hafi ekki haft mikla trú á lærdómi mínum og kunnáttu eftir þetta.

Eins og ég vissi vel – þótt ég gleymdi því þarna við óheppilegar aðstæður – á nefnilega að segja ólst, ekki aldist, eins og Málfarsbankinn bendir á: „Hann ólst upp á Akureyri. Ekki: „hann aldist upp á Akureyri“.“ Fyrst ástæða þykir til að vara við myndinni aldist hefur hún augljóslega verið eitthvað notuð, og ég hlýt að hafa alist upp við hana fyrst ég notaði hana þarna. En oft hafa verið gerðar athugasemdir við hana. Gísli Jónsson sagði t.d. í Morgunblaðinu 1989: „í sveitinni, þar sem ég ólst upp (ekki „aldist“ eins og glapyrðingar segja nú um stundir)“ og í ræðu á Alþingi 2008 sagði Árni Johnsen: „Það var t.d. ekki skemmtilegt fyrir okkur þegar ég hlustaði á einn af forustumönnum íslenska háskólasamfélagsins nota þessi orð: „Ég aldist upp.““

Myndin aldist er gömul – elsta dæmi um hana er í Sunnanfara 1897: „Aldist hann upp hjá þeim í lítilli menntun til fermingaraldurs.“ Í Frækorni 1911 segir: „Aldist hann upp í sveit.“ Samsetningin uppaldist er líka til. Í Templar 1911 segir: „Kristján heitinn gat verið ágætur læknir og mikilsmetinn maður, en hann lærði list sína og uppaldist á brennivínsöldinni.“ En þótt þessi beyging komi helst fyrir í miðmyndinni aldist eru líka dæmi um aldi í germynd. Í Morgunblaðinu 1935 segir: „Kópurinn, sem Teitur Stefánsson á Akranesi bjargaði í sumar og aldi upp heima hjá sjer hefir nú verið skotinn.“ Í Vísi 1940 segir: „þegar börnin af fyrra hjónabandi hennar voru uppkomin tók hún að sér nokkur umkomulaus börn og aldi upp.“

Myndin aldist kemur fyrir í blöðum og tímaritum öðru hverju allra 20. öldina og er algeng enn. Í Risamálheildinni eru hátt í 300 dæmi um hana og einnig hljóðverptu myndirnar öldust og öldumst, einkum af samfélagsmiðlum. Það er auðvitað ekki einsdæmi að sterkar sagnir hafi tilhneigingu til að fá veika beygingu. Sumar slíkar breytingar eru um garð gengnar og fyllilega viðurkenndar – hjálpa var halp í þátíð í fornu máli en er nú hjálpaði, bjarga var barg en er nú bjargaði, fela var fal en er nú faldi, o.fl. Breytingin ól(st) verður aldi(st) er algerlega hliðstæð en ekki gengin í gegn og ekki viðurkennd. Í ljósi aldurs og tíðni veiku þátíðarinnar eru samt engar forsendur til annars en viðurkenna veiku beyginguna sem rétt mál við hlið þeirrar sterku.