Hvernig lýst ykkur á þetta?

Ég hef yfirleitt forðast að skrifa hér um stafsetningu enda finnst mér það frekar ófrjótt viðfangsefni – stafsetningarreglur eru mannanna verk og frávik frá þeim segja lítið um almenna málkunnáttu. Frá því eru þó undantekningar, og eina slíka rakst ég á í morgun í föstudagsmasi Heimis Pálssonar sem skrifar: „Held ég hafi einhvern tíma nefnt að margir rita „hvernig lýst þér á þetta?“ en myndu aldrei skrifa sögnina „lýtast“ með ý. Þetta [er] áreiðanlega vegna þess að verið er að hugsa um ljós þegar manni lýst á, en alls ekki lýti þegar rætt er um sögnina lítast. Þetta er merkilegt og mér líst svo á að það væri verðugt samvinnuverkefni fyrir fagurkera og sálfræðing að kanna samband útlits og innblásturs í stafsetningu – svona ef vantar verkefni.“

Þetta minnti mig á pistil sem ég skrifaði nýlega: „Venjulega er litið svo á að munurinn á þakkir skildar og þakkir skyldar sé eingöngu stafsetningarmunur – í seinna dæminu sé y ranglega ritað fyrir i. En sama villa er nánast aldrei gerð í þakkir skylið – um það eru aðeins átta dæmi á tímarit.is, móti 1750 um þakkir skyldar. Það hlýtur því að vera eitthvað í myndinni skildar sem veldur því að málnotendum finnst eðlilegt að rita skyldar. Trúlegt er að þetta sé tengt við þakkarskuld í huga margra – við vitum að u og y skiptast oft á í skyldum orðum. Lýsingarorðið skyldur getur líka merkt 'skyldugur' þannig að hugsanlegt er að málnotendur skilji sambandið svo að skylt sé að þakka einhverjum. Slík merkingartengsl eru nærtækari en við skilinn.“

Annað svipað dæmi er orðið tilskilinn. Um þá mynd eru hátt í 3700 dæmi á tímarit.is en aðeins 12 um tilskylinn. Aftur á móti eru samtals rúm 1700 dæmi um myndirnar tilskyldir, tilskyldar og tilskyldum en um 9400 um samsvarandi myndir með i. Væntanlega tengja málnotendur þetta við orðin skylda og skyldur. Dæmi Heimis um lýst er örugglega svipaðs eðlis. Á tímarit.is eru rúm sjö þúsund dæmi um líst / lízt vel en hátt í þúsund um lýst / lýzt vel, og tæp átta þúsund um hvernig líst / lízt en tæp ellefu hundruð um hvernig lýst / lýzt. Athugið að þetta eru að verulegu leyti prófarkalesnir textar þannig að hlutfall dæma sem ekki samræmast reglum er mjög hátt. Aftur á móti eru rúm 500 dæmi um lítast vel en aðeins eitt um lýtast vel.

Þetta eru góð dæmi um það að „villur“ í stafsetningu eru ekki alltaf bara „villur“ í þeim skilningi að þær sýni vankunnáttu fólks í því sem það hefur átt að læra, heldur geta þær stundum sagt okkur eitthvað um málkerfi og máltilfinningu þeirra sem skrifa. Þau sem skrifa mér lýst vel á þetta, hún á þakkir skyldar og hann lauk verkinu á tilskyldum tíma eru sem sé einmitt að gera eins og fyrir þau er lagt í stafsetningarkennslu – þau eru (meðvitað eða ómeðvitað) að velta fyrir sér uppruna orðanna og tengslum þeirra við önnur orð. Það vill bara svo til að í þessum vangaveltum komast þau að „rangri“ niðurstöðu – miðað við reglurnar sem við höfum sett. En er ekki ástæða til að meta þetta við þau og vinna með það, frekar en gefa þeim bara villu?