Ég þori því ekki
Í mínu ungdæmi þótti hræðileg „málvilla“ að segja ég þori því ekki í stað ég þori það ekki. Þetta var álíka vont og hin illræmda „þágufallssýki“ mér langar, mér vantar o.þ.h., og raunar oft fellt undir hana þótt þágufallið með þora sé annars eðlis. Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er nefnt að þágufall sé notað með þora á Vestfjörðum og flest hinna fáu dæma um þágufallið frá fyrsta þriðjungi 20. aldar á tímarit.is eru úr ísfirskum blöðum. Í Vestra 1917 segir: „sumar halda jafnvel að þær hafi ekki leyfi til að ráða kennara fyrir hærri laun, eða þora því ekki vegna almennings.“ Í Skutli 1926 segir: „Og svo fór Wilson úr forsetastól að hann þorði því ekki“. Í Vesturlandi 1934 segir: „Munu þeir máske helzt þora því, er þeir vita Jón Auðunn fjarstaddan.“
Við þessu var lengi amast. Í Samtíðinni 1943 segir Björn Sigfússon: „Þágufallssýkin, sem kölluð er, nær til æ fleiri sagna með hverju ári og veldur glundroða. […] Rangt er að þora því ekki, en rétt að þora það ekki.“ Í Íslendingi 1951 segir: „Þágufallspestin færist með ári hverju í aukana. Má heita, að annarhvor unglingur og nokkuð af fullorðnu fólki segist ekki „þora því“ […].“ Í Vísi 1956 segir Eiríkur Hreinn Finnbogason: „Gömul þágufallssýki er það að nota þgf. með sögninni að þora, segja þora því, þora engu í staðinn fyrir þora það, þora ekkert. Þetta ætti að varast, þó að gamalt sé sums staðar.“ Í Morgunblaðinu 1996 er spurt: „Væri rétt að segja: Hann sagðist ekki þora því?“ og svarað: „Rétt væri: Hann sagðist ekki þora það.“
Það kvað þó við annan tón í greininni „Um málvöndun“ eftir Halldór Halldórsson prófessor sem birtist fyrst í Stíganda 1943. Þar segir: „Á Vesturlandi er alþýðumál að segja: Ég þori því ekki. Á Norðlendinga orkar þetta sem ambaga, því að þeir segja: Ég þori það ekki. En þetta myndi á sama hátt vera talin málleysa á Vestfjörðum. Hvorir hafa nú rétt fyrir sér? Ef þetta er athugað í fornum ritum, kemur í jós, að norðlenzkan er upprunalegri. En er hún að réttari? Ég sé ekki rök fyrir því. Ég þori því ekki er orðið sameiginleg villa um Vestfjörðu, og það veitir réttinn […]. Hvort tveggja er því jafnrétt, annað er vestfirzka, en hitt norðlenzka.“ Halldór var frá Ísafirði og trúlegt að hann hafi alist upp við þora því – sem gæti hafa haft áhrif á mat hans.
A.m.k. hafði hann ekki sömu afstöðu til mér langar heldur sagði: „Er þetta rétt mál? Því fer fjarri. Og ástæðan til þess er sú, að það hefir hvergi hlotið almenna viðurkenningu sem rétt mál. Mikill hluti þjóðarinnar í öllum landsfjórðungum finnur, að þetta stríðir gegn málkennd hans, mönnum finnst þetta vera málvilla, og meðan svo er, getur þetta ekki talizt sameiginleg villa og hefir því engan rétt á sér.“ Og hann bætti við: „Það mætti því segja, að það eitt sé rétt mál, sem hlotið hefir þá viðurkenningu að vera rétt mál.“ En síðan þetta var skrifað eru liðin 80 ár og notkun þágufalls með langa, vanta og fleiri sögnum hefur breiðst mjög út. Mörgum finnst þetta ekki vera málvilla, heldur er það eðlilegt mál þeirra. Það er tími til kominn að viðurkenna það.
Þrátt fyrir að Halldór Halldórsson viðurkenndi þora því fyrir 80 árum var lengi haldið áfram að amast við því eins og sýnt er hér að framan. Í Morgunblaðinu 2006 var birt ábending undir fyrirsögninni „Gætum tungunnar“ sem áður hafði birst í samnefndu kveri 1984: „Rétt er að segja: Ég þori það, þú þorir það, hann eða hún þorir það, þeir, þær eða þau þora það.“ Ég hef grun um að mörgum finnist enn að þora því sé rangt – í Morgunblaðinu 2012 birti Baldur Hafstað bréf frá kennara sem sagði: „Þegar ég var barn leiðrétti mamma mig alltaf þegar ég sagði „ég þori því ekki“. Ég átti að segja „ég þori það ekki“ og síðan ég loks lærði það hef ég haldið mig við það. Nú segja flestir þori því ekki, maður tekur eftir ef einhver segir þorir það.“
Þetta er í raun óvenju skýrt dæmi um þá ósamkvæmni og tilviljanir sem birtast í því hvaða tilbrigði í máli eru „viðurkennd“ og hver ekki. Í Málfarsbankanum segir: „Sögnin þora stýrði upprunalega þolfalli en er nú líka farin að stýra þágufalli. Bæði kemur því til greina að segja ég þori það ekki og ég þori því ekki.“ En auðvitað mætti segja nákvæmlega hliðstætt um langa, vanta, dreyma og fleiri sagnir – þær stýrðu upprunalega þolfalli á frumlagi sínu en eru nú líka farnar að stýra þágufalli. Samt er mér langar, mér vantar og mér dreymir enn talið rangt. Þó að það komi ekki fram þykir mér einsýnt að á bak við samþykki Málfarsbankans við þora því liggi áðurnefnd skoðun Halldórs Halldórssonar, sem væntanlega tók mið af hans eigin máli.
En fleiri dæmi má nefna um að málnotkun sumra málnotenda vegi þyngra en annarra þegar spurt er hvað sé „rétt mál“. Í málfarsþætti í Morgunblaðinu sem áður er vísað til sagði Baldur Hafstað, eftir að hafa nefnt að samkvæmt Íslenskri orðabók teldust þora það og þora því jafngild orðasambönd: „Mér hefur verið sagt að þora því tíðkist mjög á Vestfjörðum. Í sinni ágætu skáldsögu, Hjarta mannsins, sem gerist þar vestra, segir Jón Kalman: „… hann þorir ekki öðru en að taka við …“ Hér stýrir sögnin þora semsagt þágufalli.“ Síðan segir: „Jón Kalman er sannur töframaður í stílbrögðum og málbeitingu.“ Á bak við þetta virðist liggja sú hugmynd að málfar slíks stílsnillings hljóti að vera rétt – fyrst hann notar þora því megum við hin það líka.