Ég er oní kjallara niðrí bæ

Í dálknum „Þankabrot Jóns í Grófinni“ í Íslendingi 1942 segir: „Sú hræðilega málvilla virðist breiðast út eins og skæð farsótt, að vera »ofan í« einhverju í stað: »niðri í«.“ Í Útvarpstíðindum 1943 segir: „Menn tala um að vera ofan í bæ, vera ofan í fjöru o. s. frv., í stað þess að segja ber að vera niðri í bæ, vera niðri í fjöru.“ Í „Þankabrotum Jóns í Grófinni“ í Íslendingi 1951 segir: „Önnur slæm málvilla sést öðru hverju í blöðunum og er algeng í talmáli unglinga. Það er að segja „ofan í“ fyrir „niðri í“.“ Í Íslendingi-Ísafold 1972 segir: „Á síðari árum heyrist æ oftar „ofan í“ fyrir „niðri í.“ Blaðamenn dagblaðanna eru óðum að ánetjast þessari nýju málvillu […].“ En „málvillan“ var reyndar alls ekki ný 1942, hvað þá 1972, eins og heimildir sýna vel.

Í Skólablaðinu 1909 skrifar Jón Þórarinsson: „Sunnlendingar (og víst Múlsýslingar og ef til vill fleiri) segja: Eg geymi hnykilinn »ofan í« skúffu; bærinn stendur »ofan í« dalnum o.s.frv. »Ofan í« í merkingunni »niðri í« er svo daglegt brauð hjer í Rvík, að menn er farið að greina á um það, hvort ekki megi alveg á sama standa, hvort heldur sagt er. Og sumir hafa alveg hausavíxl á þessum orðum.“ Jón taldi sig hafa kveðið „þetta sunnlenska »ofan í«  niður“ hjá börnunum. „En svo kemur átta ára stelpan með »Norðurland« í hendinni og segir hróðug: Pabbi, líttu á! Hjerna stendur: Ofan í spiladósinni er ljósastika með logandi kerti; og þetta skrifar Einar Hjörleifsson [Kvaran]; og mátti eg þá ekki líka segja um daginn, að stúlkurnar væru ofan í kjallara að þvo?“

En þótt þessi málvenja sé orðin meira en aldargömul er enn verið að amast við henni. Í Málfarsbankanum segir: „Orðin ofan í og niður í, sem eru sömu merkingar, eru notuð um hreyfingu: þau létu sig síga niður/ofan í hellinn. Orðin niðri í eru notuð um dvöl á stað: þau héldu til niðri í hellinum. Samkvæmt þessu gengi ekki að segja „þau héldu til ofan í hellinum“ sem er þó útbreidd málvenja.“ Málfarsbankinn slær því greinilega dálítið úr og í með þetta. Þar segir einnig: „Atviksorðið niðri er notað um dvöl: vera niðri í fjöru. Atviksorðið niður er nota um hreyfingu: fara niður í fjöru.“ Í kverinu Gætum tungunnar frá 1984 segir: „Rétt væri að segja: Hann var uppi á fjallinu en kom ofan hlíðina niður í dalinn og er nú niðri við ána.“

En hvað þótti athugavert við að nota ofan í um dvöl? Vissulega vísar ofan oftast til hreyfingar niður, og í áðurnefndum „Þankabrotum Jóns í Grófinni“ í Íslendingi 1951 segir: „Það er hægt að fara ofan en ekki vera ofan.“ Það er alveg rétt, en það skiptir máli hvort sagt er ofan í eða bara ofan. Það má færa rök að því að ofan í sé orðið að sérstöku orði (sbr. orðalag Málfarsbankans hér að framan) enda er það nánast alltaf borið fram oní (og iðulega skrifað þannig líka – hátt í 6.600 dæmi eru um þann rithátt í Risamálheildinni). Þótt ofan eitt og sér vísi oftast til hreyfingar eins og áður segir þarf oní ekki að gera það. Í nútímamáli er mjög algengt að nota ofan í um dvöl – og líklega ekki mörgum ljóst að eitthvað hafi þótt athugavert við það.

Svipað er með niður í sem Málfarsbankinn bendir á að vísi til hreyfingar – það er oft notað um dvöl, eins og ofan í, og sú notkun er varla yngri en notkun ofan í um dvöl. Í Þjóðólfi 1890 segir: „öll önnur föt hans voru niður í koffortinu.“ Í Plógi 1900 segir: „Hefur það að líkindum verið niður í Akratungum.“ Í eðlilegum framburði falla niðri í og niður í venjulega saman, hvort tveggja borið fram niðrí (og 13.400 dæmi um þann rithátt í Risamálheildinni). Það má þess vegna halda því fram að niðrí sé orðið sjálfstætt orð, eins og oní, sem notað sé bæði um hreyfingu og dvöl. Þótt bæði ofan í og niður í hafi upphaflega aðeins átt við um hreyfingu er því komin löng hefð á að nota samböndin um dvöl og fráleitt að amast við því.