Rúta eyðilagðist af eldi
Í gær var hér spurt út í fyrirsögn á mbl.is, „Rúta eyðilagðist af eldi við Selfoss“. Fyrirspyrjandi sagðist hafa „lesið að það sé ekki hægt að láta gerandann í ljós með forsetningarlið af + þgf. í lok slíkra setninga“. Í umræðum var bent á að það er meginregla í íslensku að gerandi þarf að vera lifandi vera en ekki t.d. náttúruafl til að geta komið fram í forsetningarlið í þolmynd eins og Sigríður Sigurjónsdóttir og Joan Maling hafa fjallað um. Þær taka dæmið „Húsið var eyðilagt“ og segja að þar sé ekki hægt að bæta við „af eldi“ vegna þess að eldurinn er ekki lifandi vera og getur því ekki verið gerandi. En „ef eldur eða snjóflóð hefði eyðilagt húsið væri eðlilegt að nota miðmynd og segja […] Húsið eyðilagðist í eldi/í snjóflóðinu.“
Vissulega eru ekki mörg þolmyndardæmi á við húsið var eyðilagt af eldi á tímarit.is en þau eru þó til. Dæmi um miðmynd með af-lið eins og í fyrirsögninni eru hins vegar gömul eins og einnig var bent á í umræðum – ekki bara um eyðileggjast af eldi, heldur líka af vatni, af sprengingu, af skriðuhlaupum, af eldgosi, af þurrkum, af stormi o.s.frv. Slík dæmi skipta hundruðum – það elsta er í Skírni 1830 þar sem talað er um „gömlu borgirnar Herkúlaneum og Pompeji, sem eyðilögðust af ösku úr Vesúf á fyrstu öld eptir Krist“. Í ljósi fjölda slíkra dæma má því spyrja hvort það sé rangt sem fyrirspyrjandi hafði fyrir satt og Sigríður og Joan halda fram, að ekki sé hægt að hafa geranda í af-lið í dæmum eins og því sem vitnað var til í upphafi.
En hér þarf að athuga að nafnorð í forsetningarlið með af í slíkum dæmum þarf ekki að tákna raunverulegan geranda, heldur getur oft táknað einhvers konar ástæðu eða áhrifavald. Þetta sést vel í dæmum eins og vera úrvinda af þreytu, deyja af ást, æpa af sársauka o.s.frv. Í þeim dæmum er nafnorðið á eftir af vissulega einhvers konar ástæða þess sem sögnin lýsir, en samt ekki gerandi í venjulegum skilningi enda eru þetta ekki þolmyndarsetningar. Þegar um slíkt er að ræða er oftast hægt að nota aðrar forsetningar í staðinn fyrir af – úrvinda úr þreytu, deyja úr ást, æpa vegna sársauka o.s.frv. Þetta er aftur á móti ekki hægt í þolmyndardæmum eins og hann var étinn af hákarli – þar er útilokað að nota aðra forsetningu en af í vísun til geranda.
Í dæminu rútan eyðilagðist af eldi er hægt að nota aðrar forsetningar en af, t.d. í eldi eins og áður kom fram en einnig vegna elds. Slíkt væri ekki hægt ef um raunverulegan geranda væri að ræða eins og áður segir. Það þýðir að dæmi eins og fyrirsögnin sem nefnd var í upphafi geta alveg samræmst því að ekki sé hægt að hafa geranda í af-lið nema um lifandi veru sé að ræða. Og það þýðir þá líka að í svipuðum þolmyndardæmum sem vissulega koma fyrir þótt sjaldgæf séu eins og áður segir, eins og „Húsið er þó nær eyðilagt af eldi og vatni“ í Tímanum 1954, þarf ekki að líta svo á að af-liðurinn vísi til geranda, enda koma aðrar forsetningar fyrir í sambærilegum dæmum – „Elsta hús Siglufjarðar eyðilagt í eldi“ segir í Morgunblaðinu 1948.