Hlustum á innflytjendur!
Í dag var ég á mjög áhugaverðu málþingi í Eddu á vegum Félags kvenna í atvinnulífinu þar sem var „fjallað um mikilvægi íslenskunnar fyrir okkur öll og hvernig tungumálið er í raun valdatæki og lykill að samfélaginu og atvinnumarkaði“ og m.a. rætt „um leiðir atvinnulífsins til að geta stutt við starfsfólk sem þarf og vill tileinka sér íslensku“. Þar voru flutt fimm stutt en mjög áhugaverð erindi, en það sem mér fannst merkilegast var að heyra persónulegar reynslusögur þriggja kvenna af erlendum uppruna sem koma frá ólíkum löndum og hafa búið mislengi á Íslandi. Þær tala allar mjög vel skiljanlega íslensku – en vissulega með mismiklum erlendum hreim og mismiklum frávikum frá hefðbundinni beygingu og setningaskipan. Það er í góðu lagi.
Þessar konur höfðu allar sömu skilaboðin til Íslendinga: Hlustið á okkur! Sameiginleg reynsla þeirra er sem sé sú að Íslendingar gefa sér ekki tíma til – eða hafa ekki áhuga á – að hlusta á fólk sem er að læra málið og hefur ekki enn náð fullu valdi á því. Við erum óþolinmóð, við grípum fram í fyrir fólki, við leiðréttum fólk óumbeðið, við gerum gys að villum sem fólk gerir, við skiptum yfir í ensku – við hlustum ekki. Afleiðingin er sú að margir innflytjendur fá enga þjálfun í að tala íslensku og fer þess vegna ekki fram í henni. En það er ekki það versta. Viðtökurnar geta dregið kjark úr fólki, brotið það niður og leitt til þess að það missi allan áhuga á íslenskunámi – og geta jafnvel orðið til þess að fólk dragi sig inn í skel og einangrist.
Vitnisburður þessara kvenna rímar fullkomlega við það sem segir í nýrri skýrslu frá Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, „Samfélög án aðgreiningar: Mat innflytjenda á eigin færni í Íslensku“: „Innflytjendur reyna almennt að nota íslensku í ýmsum aðstæðum og þannig segja um 60% þeirra sem ekki telja sig hafa góða færni í íslensku það vera mjög eða frekar líklegt að þau noti íslensku í verslun. Mun lægra hlutfall gera það hins vegar við meira krefjandi aðstæður, svo sem í óformlegum samræðum við vini eða í læknisheimsókn. Algengt er að innflytjendum sé svarað á ensku þegar þau tala íslensku og nokkuð er um að gert sé grín að þeim sem tala íslensku með hreim og að komið sé óvingjarnlega fram við innflytjendur vegna íslenskukunnáttu þeirra.“
Ef við viljum að íslenska verði áfram aðalsamskiptatungumálið á Íslandi og sameign þeirra sem búa á landinu, óháð uppruna þeirra, verðum við að breyta þessu. Innflytjendur vilja yfirleitt læra íslensku og við verðum að gera þeim það kleift, m.a. með því að bjóða ókeypis nám sem hægt er að stunda á vinnutíma. Á málþinginu í dag var lögð áhersla á nauðsyn þess að setja innleiðingarstefnu eða innleiðingaráætlun fyrir innflytjendur eins og tíðkast víðast í nágrannalöndunum – hafa eitthvert skipulag á því hvernig tekið er á móti innflytjendum og hvernig þeim er auðveldað að koma inn í samfélagið, verða hluti af því og festa rætur í því. Þetta er gífurlega mikilvægt fyrir fólkið sjálft – en ekki síður fyrir íslenskuna.