Eyddu í sparnað

Í dag var hér spurt hvort fremur ætti að tala um að eyða eða verja ævinni í eitthvað. Þetta hefur verið hér til umræðu áður og einnig oft í Málvöndunarþættinum. Sumum þykir merking sagnarinnar eyða of neikvæð til að eðlilegt sé að nota hana í samhengi sem gera má ráð fyrir að sé jákvætt, svo sem eyða jólunum með fjölskyldunni eða eitthvað slíkt. Í Íslenskri orðabók er merkingin vissulega sögð 'koma í lóg, gera að engu, sóa, nota (illa)' en í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er bæði gefin merkingin 'nota, neyta' („bruge, forbruge, konsumere“) og ‚sóa‘ („ødsle, bortødsle, spilde“) og í Íslenskri nútímamálsorðabók eru gefnar merkingarnar 'nota (peninga), taka af (peningum eða öðru)' og 'láta tímann líða, verja tímanum'.

Vissulega hefur sögnin einnig aðra merkingu – aðalmerking hennar er 'útrýma, tortíma, eyðileggja' samkvæmt Íslenskri orðabók eða 'láta (e-ð) hverfa, fjarlægja, eyðileggja (e-ð)' samkvæmt Íslenskri nútímamálsorðabók. Það er ekkert óeðlilegt að þessi merking setji neikvæðan blæ á sögnina í huga margra, en það breytir því ekki að löng hefð er fyrir notkun hennar í hlutlausri eða jákvæðri merkingu, einkum þegar vísað er til tíma. Á tímarit.is eru mun fleiri dæmi um eyða en verja í flestum samböndum sem vísa til tíma – eyða ævinni, eyða tímanum, eyða jólunum, eyða deginum, eyða kvöldinu o.s.frv. Vissulega eru mörg dæmi um eyða í þessum samböndum neikvæð, en gömul dæmi um jákvæða merkingu má þó finna.

Þannig segir í Norðanfara 1876: „Að því búnu vil jeg flytja upp til sveita, og eyða dögunum í kyrrþey, við vísindalegar hugleiðingar, og leggjast að lokum, svo enginn viti af, á banabeð minn.“ Í Aldamótum 1898 segir: „Hann […] hafði nú hugsað gott til þeirrar óviðjafnanlegu ánægju, að eyða kvöldinu með því að lesa hitt og þetta.“  Í Vísi 1924 segir: „Honum var það eitt ljóst, að ef hann hefði ekki þessa stúlku hjá sér, ef hann mætti ekki eyða ævinni með henni, þá væri ekkert til, sem fengi honum gleði.“ Í Lögbergi 1930 segir: „Eg sagði þeim, að eg ætlaði að fara heim, til að eyða jólunum með fólki mínu.“ Það er ljóst að merkingin 'sóa' á ekki við í þessum tilvikum og sama gildir um fjölmörg önnur gömul dæmi.

Þegar vísað er til peninga er merkingin 'sóa' meira áberandi en þó má finna gömul dæmi um hlutlausa eða jákvæða merkingu. Í Landnemanum 1892 segir: „Jafnvel þó kaupið sje tíðum ljettvægt, sem fæst fyrir slíkt starf, er samt betra að sæta því, en vera iðjulaus og þurfa að eyða peningum sínum fyrir fæði.“ Í Heimskringlu 1897 segir: „Aðrir eyða peningum sínum í að hjálpa fátækum og bæta kjör þeirra er bágt eiga.“ Í Þjóðólfi 1909 segir: „Mundi ekki ástandið slæma miklu heldur koma af því, að vér höfum vanrækt að eyða fé til barnafræðslunnar hjá þjóðinni?“ Í nútímamáli eru samböndin eyða fé og eyða peningum mjög algeng án þess að nokkuð neikvætt þurfi að vera við eyðsluna – þótt það geti auðvitað oft verið matsatriði.

Þótt merking og notkun eyða og verja skarist þannig mjög í nútímamáli hefur eyða vissulega oft á sér neikvæðari blæ. Fyrir 30 árum var rekin auglýsingaherferð fyrir spariskírteini ríkissjóðs undir kjörorðinu „Eyddu í sparnað“ – það þótti ýmsum mótsögn vegna þess að sagnirnar eyða og spara væru gagnstæðrar merkingar, en væntanlega átti auglýsingin einmitt að spila á það. Hvað sem því líður er ljóst að spurningunni sem vitnað var til í upphafi má svara þannig að vel sé hægt að tala um að eyða ævinni ekki síður en verja ævinni án þess að merkingin sé neikvæð. Það gerir a.m.k. ekki lakari höfundur en Hannes Pétursson í Skagfirðingabók 1970: „Þar fremra í Dölum og Lýtingsstaðahreppi hafði hann eytt ævinni mestmegnis.“