Seiglíft orð

Í gær var hér spurt hvort fólk kannaðist við lýsingarorðið seiglífur sem kom fyrir í frétt í DV – „Í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu kemur fram að sú mýta sé seiglíf að klassísk hönnun kosti mikið“. Fyrirspyrjandi taldi að þarna ætti fremur að standa lífseig, og það er vitaskuld venjulega orðið í þessari merkingu. Í umræðum um orðið var þess getið til að um væri að ræða (lélega) þýðingu úr dönsku, og vissulega er samsvarandi orð þar sejlivet. Þetta gæti virst líkleg tilgáta í ljósi þess að fréttatilkynningin sem DV vitnaði í var frá IKEA í Danmörku og því upphaflega á dönsku. En orðið sejlivet er ekki notað þar í setningu sem samsvarar dæminu úr DV heldur segir: „Der hersker en myte om, at langtidsholdbart design koster rigtig mange penge.“

Þetta útilokar auðvitað ekki að orðið geti hafa komið í íslensku úr dönsku, en það er þá langt síðan. Í umræðum kom nefnilega fram að seiglífur er gamalt orð í málinu – elsta dæmið er í Ísafold 1883: „Röng hugmynd um eigin dugnað er svo seiglíft djöflakyn, að það verður ekki einu sinni út rekið með föstum og bænahaldi.“ Þótt hið venjulega orð lífseigur sé vitanlega gott og gilt, er seiglífur einnig rétt myndað og á sér ýmsar hliðstæður þar sem lýsingarorð er fyrri hluti með -lífur – algeng orð eins og langlífur, skammlífur, skírlífur, hreinlífur og sællífur, en einnig sjaldgæfari orð eins og léttlífur og þunglífur. Auk þess eru til ýmsar samsetningar með -lífur sem hafa fyrri lið úr öðrum orðflokkum – eilífur, gjálífur, hóglífur, saurlífur o.fl.

Það er því ástæðulaust að leita erlendra fyrirmynda að orðinu seiglífur, en vissulega er það sjaldgæft – það er hvorki í Íslenskri orðabók Íslenskri nútímamálsorðabók og aðeins 36 dæmi eru um það á tímarit.is og tíu í Risamálheildinni. Það er athyglisvert að dæmin um orðið á tímarit.is dreifast á alla áratugi frá 1883 nema tvo, oftast tvö eða þrjú dæmi á hverjum áratug. Þótt ekki sé hægt að útiloka að orðið hafi upphaflega komið úr dönsku eru litlar líkur á að það gildi um notkun þess síðustu hundrað árin. Hugsanlegt er að orðið hafi verið smíðað aftur og aftur, með orð eins og langlífur að fyrirmynd, en sennilega er þetta fremur dæmi um að sjaldgæf orð geta lifað áratugum og öldum saman í málinu án þess að miklar heimildir geymist um þau.