Meinlaust?

Það er ástæða til að vekja hér athygli á vitundarvakningunni „Meinlaust?“ sem Jafnréttisstofa hefur staðið fyrir á samfélagsmiðlum síðan í fyrrahaust og er rekin undir merkjunum #meinlaust og @meinlaust. Í fyrsta hluta hennar var sjónum beint að kynbundinni og kynferðislegri áreitni, annar hluti var í samvinnu við Samtökin 78, þriðji hluti var í samvinnu við Þroskahjálp og fjórði og síðasti hluti í samvinnu við félagsskapinn Hennar rödd. Markmið átaksins er að vekja athygli á birtingarmyndum öráreitni sem fólk úr ýmsum jaðarsettum hópum verður fyrir í samfélaginu og fá fólk til að opna augun fyrir afleiðingum hennar. „Í vitundarvakningunni eru sagðar sögur sem byggðar eru á raunverulegum frásögnum fólks úr íslensku samfélagi í formi myndasagna.“

Orðið öráreitni er þýðing á microaggression í ensku og er komið í nokkra notkun þótt það sé ekki gamalt í málinu. Það er ekki komið inn í almennar orðabækur en var skráð á Nýyrðavef Árnastofnunar 2018. Það virðist fyrst hafa verið skilgreint í BA-ritgerð Emblu Guðrúnardóttur Ágústsdóttur frá 2016 þar sem segir: „Öráreitni er dulin og lúmsk mismunun eða fordómar sem beinast einna helst að jaðarsettum hópum. Með öráreitni er átt við atvik, í samneyti fólks, sem eitt og sér virðast smávægileg (e. micro) en þegar fólk í jaðarsettri stöðu upplifir slík atvik jafnvel oft á dag verða áhrif og afleiðingar þeirra mikil […]. Öráreitni getur birst í orðum, raddblæ, hunsun og viðmóti sem oft reynist erfitt að útskýra og greina nákvæmlega […].“

Ástæðan fyrir því að ég tek þetta upp hér er að tungumálið er iðulega notað til að beita öráreitni, m.a. orð og raddblær eins og áður segir. Þetta er alls ekki alltaf illa meint – „er jafnvel stundum ætlað sem hrós og eru þau sem láta slíkt út úr sér jafnvel ómeðvituð um afleiðingarnar“. Tungumálið er öflugt valdatæki sem hægt er að beita bæði til góðs og ills og mikilvægt að við séum meðvituð um það hvernig við beitum þessu tæki, ekki síst í samskiptum við fólk úr jaðarsettum hópum. Á heimasíðu átaksins er að finna skýringar á ýmsum orðum og hugtökum sem gagnlegt er að kynna sér og geta forðað okkur frá því að misbeita tungumálinu óafvitandi gagnvart jaðarsettu fólki. Íslenskan á það nefnilega ekki skilið að hún sé notuð til að meiða fólk.