Tilhæfulaus árás

Í sjónvarpsfréttum í gær var sagt frá „tilhæfulausri árás“ á fólk í Dublin. Þetta var tekið upp í Málvöndunarþættinum og sagt: „Meiningin átti sjálfsagt að vera að árásin hefði verið tilefnislaus.“ Það er alveg rétt að venja er að nota lýsingarorðið tilefnislaus fremur en tilhæfulaus í þessu samhengi. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er fyrrnefnda orðið skýrt 'án tilefnis' en það síðarnefnda 'sem byggir ekki á staðreyndum, á ekki við rök að styðjast'. Í raun og veru má því segja að merkingarkjarni beggja orðanna sé sá sami, þ.e. það eru ekki forsendur fyrir því sem um er rætt. Munurinn er sá að tilhæfulaus vísar einungis til mállegra forsendna – orðróms, frásagna, fullyrðinga o.s.frv. – en merkingin í tilefnislaus er mun víðari.

Það er ekki nýtt að þessum orðum sé blandað saman, einkum þannig að tilhæfulaus sé notað í stað tilefnislaus. Elsta dæmi sem ég finn um tilhæfulausa árás er í Austra árið 1900: „þá er mér skylt að benda þér á, að slík tilhæfulaus árás á trúarbrögð manna er algjör óhæfa.“ Alls eru um 60 dæmi um tilhæfulausa árás á tímarit.is, flest frá því eftir 1970 og einkum eftir 1990. Í Risamálheildinni eru dæmin um 70, bæði úr formlegu og óformlegu málsniði. Þessi notkun orðsins fer því greinilega í vöxt. Aftur á móti er sjaldgæft að tilefnislaus sé notað þar sem hefð er fyrir tilhæfulaus þótt finna megi fáein dæmi eins og „Við skiljum ekki hvað liggur að baki svona fréttamennsku, þar sem um algerlega tilefnislausa sögu er að ræða“ í Mjölni 1983.

Auk merkingarlíkindanna sem áður eru nefnd eru vitaskuld mikil orðfræðileg og hljóðfræðileg líkindi með orðunum tilhæfulaus og tilefnislaus og því þarf þessi blöndun ekki að koma á óvart, enda hefur þótt ástæða til að vara við henni í Málfarsbankanum þar sem segir: „Orðið tilhæfulaus merkir: alveg loginn, sem enginn sannleikskjarni er í (Íslensk orðabók). Athuga að rugla ekki saman við orðið tilefnislaus sem merkir: ástæðulaus.“ Eins og hér hefur komið fram er notkun tilhæfulaus í stað tilefnislaus gömul í málinu þótt hún hafi aldrei verið algeng. Hún virðist þó fara vaxandi en er varla orðin svo algeng að rétt sé að líta á hana sem málvenju. Þess vegna er rétt að mæla með því að málnotendur haldi sig við hefðbundinn greinarmun orðanna.