Rýing, rúning og rúningur
Á föstudagskvöld birtist á vef mbl.is frétt undir fyrirsögninni „Ráðherra rúði íslenska rollu“. Þessi frétt var sett inn í Málvöndunarþáttinn sama kvöld með umsögninni „Rýingin. Vonandi eru rollurnar vel rúnar.“ Út frá þessu má ætla að orðið rýing hafi komið fyrir í fréttinni en það er þar ekki núna, heldur stendur „Ráðherrann birti myndskeið af rúningunni“ og „þrátt fyrir það gekk rúningin vel“. Vissulega er kvenkynsorðið rúning hið venjulega verknaðarheiti af sögninni rýja – reyndar er orðið einnig notað í karlkyni, rúningur. Fréttinni var breytt morguninn eftir og gera má ráð fyrir að þá hafi verið skipt um orð, e.t.v. vegna athugasemda. En þótt orðið rýing sé vissulega sjaldgæft er það þó til í málinu og á sér langa sögu.
Í Ritmálssafni Árnastofnunar eru nokkur dæmi um orðið rýing, það elsta frá 1840: „Geldfjársafn til rýingar í 4. og 5. viku sumars.“ Orðið kemur fyrir í Íslenzkum rjettritunarreglum þess mikla málhreinsunarmanns Halldórs Kr. Friðrikssonar frá 1859. Á tímarit.is eru um 30 dæmi um orðið, það elsta í Fjallkonunni 1888: „Það var 5. júní, að fé á Sjöundá var rekið heim til rýingar.“ Í Norðurljósinu 1891 segir: „Vorverk (túnvinna, hirðing eldiviðar, rýing o. fl.) voru búin víðast hvar fyrri hluta þessa mánaðar.“ Í Náttúrufræðingnum 1935 segir: „Undanfarin ár hafa rússneskir vísindamenn gert tilraunir með nýjar aðferðir með rýingu á sauðfé.“ Í Tímanum 1968 segir: „En þessi rýing var og mun vera lögvernduð, og jafn árvís og rýing sauðfjár.“
Orðið rýing er flettiorð í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924, merkt „ASkaft“. Nokkur dæmi frá fyrsta hluta 20. aldar eru um orðið í Íslenzkum þjóðsögum og sögnum Sigfúsar Sigfússonar en hann var Austfirðingur. Þetta bendir hvort tveggja til þess að orðið hafi einkum tíðkast austanlands, og meðal yngstu dæma um það á tímarit.is eru tvö dæmi úr austfirska ritinu Múlaþingi frá 2008 og 2011. Orðið er einnig talið upp með orðum mynduðum með viðskeytinu -ing í Die Suffixe im Isländischen eftir Alexander Jóhannesson frá 1927, og það er flettiorð í Íslenskri orðabók og nefnt undir rýja í Íslenskri orðsifjabók. Það er því enginn vafi á að þótt orðið rýing sé sjaldgæft er það fullgilt íslenskt orð sem vel hefði mátt standa áfram í frétt mbl.is.