Nýja lúkkið lúkkar vel
Í innleggi í gær var vitnað í gamla frétt með fyrirsögninni „Bríet frumsýnir nýtt lúkk“ og spurt hvort lúkk þætti góð og gild íslenska núorðið. Fyrirspyrjandi tók fram að sér fyndist blæmunur á orðinu lúkk og íslenska orðinu útlit og einn þátttakandi í umræðu um þetta sagði: „Í mínum huga er munurinn á lúkk og útliti sá að lúkk er útlit sem er skapað á meðvitaðan hátt.“ Þetta er einmitt málið – útlit getur verið mismunandi eftir aðstæðum og verður oft til á tilviljanakenndan hátt en lúkkið er sú mynd sem við viljum gefa – af okkur sjálfum eða einhverju í umhverfi okkar. Orðið lúkk er auðvitað komið af enska nafnorðinu look sem er þýtt sem 'útlit, svipur, yfirbragð' í Ensk-íslenskri orðabók og í mörgum tilvikum ætti síðastnefnda þýðingin best við.
Þetta sést best á dæmum. Elstu dæmi um lúkk á prenti eru hátt í 40 ára gömul og orðið oft haft innan gæsalappa fyrstu árin. Í DV 1985 segir: „Bandaríkjamenn þykjast höfundar „lúkksins“.“ Í Vikunni 1986 segir: „hermannalúkkið í uppáhaldi“. Í Þjóðviljanum 1990 segir: „hip hop lúkkið virðist ætla að lifa enn um sinn.“ Í Þjóðviljanum 1991 segir: „Var þar allt „lúkk“ það sama og í þeirri vinsælu mynd.“ Í Pressunni 1991 segir: „Hann hafði yfir sér nokkurs konar Smart spæjaralúkk á sínum yngri árum.“ Í Pressunni 1993 segir: „Kannski er allt annað „lúkk“ á skjánum en á öðrum vettvangi, ég veit það ekki.“ Í Eintaki 1994 segir: „Það er komið nýtt lúkk á staðinn.“ Í Tímanum 1995 segir: „Þú verður fríkaður í dag með skerí lúkk og bóld frasa á.“
Dæmum á tímarit.is fjölgar mjög upp úr aldamótum og í Risamálheildinni eru alls um níu þúsund dæmi um það – langflest vissulega á samfélagsmiðlum en þó rúmlega þúsund úr formlegra máli. Sögnin lúkka fylgdi svo fljótlega á eftir nafnorðinu – elsta dæmi um hana á prenti er í Pressunni 1994: „ég tala nú ekki um ef maður leyfir sér að lúkka svolítið dröggí“. Í DV 1998 segir: „Þetta eru mjög stíliseraðir gæjar og því nokkuð pottþétt að bókin muni lúkka flott.“ Í DV 2002 segir: „Það eina sem þetta gerir er að lúkka vel, eins og hver önnur innanstokkshönnun.“ Sögnin er talsvert sjaldgæfari en nafnorðið en tíðniþróunin er svipuð – í Risamálheildinni eru um 4.900 dæmi um lúkka, þar af um 4.600 af samfélagsmiðlum.
Það má kannski segja að nafnorðið lúkk sé ekki sérlega íslenskulegt en fleiri sambærileg tökuorð sem þykja góð og gild íslenska eru þó til – húkk, múkk (segja ekki múkk), púkk (leggja í púkk) og þrúkk. Sama má segja um sögnina lúkka – hún á sér hliðstæður í tökusögnunum dúkka, húkka, krúkka, púkka og þrúkka. Í innlegginu sem nefnt var í upphafi sagði fyrirspyrjandi að sér fyndist „mikil notkun orðsins [lúkk] í daglegu tali benda til þess að það þjóni ákveðinni þörf“ og dæmafjöldinn styður sannarlega þá tilfinningu. Þótt þessi orð séu vissulega tekin úr ensku taka þau íslenskum beygingum og eiga sér ýmsar hliðstæður í málinu. Þrátt fyrir ætternið sé ég enga ástæðu til annars en telja nafnorðið lúkk og sögnina lúkka góð og gild íslensk orð.