Að sunka og sakka
Í hópnum Skemmtileg íslensk orð var í dag umræða um sögnina súnka sem kom fyrir í frétt í mbl.is – „Ég var að fara yfir hana og þá súnkaði undan mér“ og „Jörðin getur súnkað niður“. Elsta dæmi um þessa sögn, sem einnig er oft rituð sunka eins og ritreglur mæla fyrir umþrátt fyrir að vera borin fram með ú, er í Heimdalli 1884: „það liggur við jeg súnki niður í hvert skipti, sem þjer gefið mjer á hann.“ Næsta dæmi er hins vegar með u, í Baldri 1910: „Um 300 fet frá jörðu missti farið jafnvægi sitt, grindin liðaðist í sundur, og sprekin rifu loftbelginn svo allt sunkaði niður.“ Sögnin hefur alla tíð verið sjaldgæf – um 140 dæmi eru um hana á tímarit.is, yfirleitt innan við fimm dæmi á hverjum áratug fram um 1980.
Eftir 1980 fjölgar dæmum um sunka nokkuð, sem gæti þó að einhverju leyti stafað af því að þá fer óformlegra mál að komast meira á prent en áður. Sögnin hefur nefnilega ekki alltaf þótt góð og gild íslenska – í ritdómi um Sögur frá Skaftáreldieftir Jón Trausta í Sameiningunni 1913 er ein málvillan sögð „sunkar (f. sekkr) niðr“ og sunka er sögð „óformleg“ í Íslenskri orðabók. En þótt sunka sé komin af dönsku sögninni synke sem merkir 'sökkva' hefur hún dálítið aðra merkingu. Hún er skýrð 'falla niður, sökkva í Íslenskri nútímamálsorðabók en í Íslenskri orðabók er skýringin 'detta, hlammast niður‘ eða ‚síga (ört) saman'. Mér finnst samt eiginlega vanta 'skyndilega, fyrirvaralaust, óforvarandis' í þessar skýringar.
Við leit að dæmum um sunka fann ég nokkur dæmi um að sögnin væri notuð í krossgátum, ýmist í skýringu eða lausn. Hún er þá pöruð með mismunandi sögnum – sökkva, detta, lækka og sakka. Síðastnefnda sögnin var einkum algeng í krossgátum um miðja síðustu öld og pöruð með sögnum eins og lækka, síga og dala, auk sunka. Þetta má ekki taka of bókstaflega – það verður að hafa í huga að oft er teygt töluvert á merkingu orða í krossgátum. Sögnin sakka er sögð „að nokkru“ tökuorð frá 19. öld úr dönsku sakke í Íslenskri orðsifjabók og kemur fyrir í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 í merkingunni 'síga saman' og er skýrð 'síga' og 'reka, hrekjast aftur á bak' í Íslenskri orðabók en kemur ekki fyrir í Íslenskri nútímamálsorðabók.
Sögnin sakka er sjaldgæf og þau tilvik þar sem hún nálgast það að vera samheiti við sunka eru mjög fá. Helst má nefna dæmi úr Arnfirðingi 1902: „Upp með hana að framan, niður með hana að aftan. Ha! Þar sakkar hún.“ Einnig má nefna dæmi í Morgunblaðinu 1974: „Það hefur ekki orðið nein umtalsverð breyting á sölu þorskblokkar, verðið máski heldur sakkað en hitt úr 60 centum.“ Nokkur dæmi eru einnig úr ræðum Steingríms J. Sigfússonar á Alþingi, t.d. „það er ekki gott að láta tekjustofna af þessu tagi sakka niður ef menn vanrækja það árum saman að láta þá fylgja verðlagi“ 2013 og „Það er t.d. umhugsunarefni að skattleysismörkin, jafngríðarlega mikið og þau hafa sakkað niður undanfarin ár, eiga að lyftast í þessum hægu skrefum“ 2008.
Þessar tvær sagnir, sunka og sakka, eiga ýmislegt sameiginlegt. Þær eru báðar tökuorð úr dönsku, komnar í málið seint á 19. öld. Dæmi eru um að þær séu notaðar í svipaðri merkingu í íslensku en merking beggja víkur nokkuð frá þeirri merkingu sem þær hafa í dönsku. Þær hafa báðar verið sjaldgæfar alla tíð en þó haldist óslitið í málinu. Hins vegar virðist vera talsvert meira líf í sunka – alls eru hátt í 140 dæmi um hana í Risamálheildinni, ýmist með u eða ú. Aðeins um tugur dæma er þar um sakka og sögnin virðist í seinni tíð nær eingöngu notuð í tengslum við laxveiði – „Á daginn standa veiðimenn nánast alltaf við fossinn og það veldur því að laxinn sakkar niður í ósinn og bíður færis“ segir t.d. í Vísi 2011.