Ástæðan af hverju
Í dag var hér bent á að ungt fólk segði iðulega ástæðan af hverju í stað ástæðan fyrir því að eða ástæða þess að eins og hefð er fyrir í málinu. Þetta er ekki alveg nýtt – elsta dæmi sem ég finn um það á prenti er í DV 2000: „Ástæðan af hverju hlauparar óska eftir að atburðurinn eigi sér frekar stað á laugardeginum en sunnudeginum er sú að þá geta þeir hlaupið fyrst um daginn.“ Næsta dæmi er í DV 2009: „Ætli það sé ekki ástæðan af hverju ég heillaðist svona af Íslandi á sínum tíma?“ Í Valsblaðinu 2011 segir: „Ég held að aðal ástæðan af hverju ég valdi handboltann var af því ég elskaði hann og allt það sem hann snerist um.“ Í Víkurfréttum 2014 segir: „Ástæðan af hverju við byrjuðum aftur er að skatturinn fann eitthvað athugavert við heimilisbókhaldið.“
Í Risamálheildinni eru alls um 430 dæmi um þetta samband, langflest af samfélagsmiðlum en rúm 70 úr formlegra máli – þó sárafá úr prentmiðlum. Á samfélagsmiðlum hefur sambandið verið algengt síðan um aldamót en sást vart annars staðar fyrr en um 2010 og dæmum hefur farið ört fjölgandi á allra síðustu árum. Varla er hægt að efast um að þetta sé tilkomið fyrir áhrif frá ensku þar sem sagt er the reason why í sömu merkingu. Í umræðu um þetta var einnig nefnt að unglingar segðu stundum það er af hverju sem er væntanlega komið af that‘s why í ensku. Engin dæmi um það samband er þó að finna í Risamálheildinni og leit á vefnum skilaði ekki heldur neinu þannig að ég geri ráð fyrir að þetta sé ekki algengt enn sem komið er.
En þótt ljóst sé að sambandið ástæðan af hverju á rætur í ensku er það í sjálfu sér engin skýring á því að það skuli eiga greiða leið inn í íslensku. Í sambandinu af hverju er af forsetning sem stýrir þágufalli á spurnarfornafninu hvað sem er í hvorugkyni. Fornöfn hafa jafnan einhverja tilvísun og hverju vísar til skýringar á því sem um er spurt, eins og m.a. má sjá á því að ævinlega er hægt að setja hvaða ástæðu í stað hverju án þess að merkingin breytist. Ef sagt væri t.d. ástæðan af hverri ég fór væri hugsanlegt að túlka hverri þannig að það vísaði til orðsins ástæða. Þetta væri þá svipað og staðurinn hvar ég bjó, konan hverrar son ég þekkti o.s.frv. Þetta eru hvorki algengar né liprar setningar og ekki sérlega íslenskulegar, en þekkjast þó í málinu.
En í setningunum sem hér um ræðir er ekki notuð kvenkynsmynd spurnarfornafnsins heldur hvorugkyn – ástæðan af hverju – og hvorugkynið getur ekki vísað til kvenkynsorðsins ástæða. Aftur á móti gæti samband eins og tilefnið af hverju staðist samkvæmt þessu – hverju er þágufall í hvorugkyni sem hugsanlegt er að túlka þannig að það vísi til hvorugkynsorðsins tilefnið. Slíkt dæmi má reyndar finna í Vísi 2022: „Man nú ekki tilefnið af hverju ég skáldaði þetta upp til að byrja með.“ En þetta er einstakt dæmi. Það sem truflar mig – og þau sem ekki eru vön sambandinu ástæðan af hverju – er væntanlega ekki síst þessi árekstuf milli kvenkynsnafnorðs og hvorugkynsfornafns – þessu fornafni virðist vera ofaukið, ekki hafa neina tilvísun.
En tilkoma sambandsins ástæðan af hverju gæti tengst því að sambandið af hverju virðist vera runnið saman í eitt orð í huga margra málnotenda. Það má marka af því að sambandið er mjög oft skrifað í einu lagi, afhverju. Um það er hátt á áttunda þúsund dæma á tímarit.is – fjöldinn fór mjög vaxandi á áttunda áratugnum og margfaldaðist eftir 1980. Í Risamálheildinni er hvorki meira né minna en nærri 130 þúsund dæmi um þennan rithátt – vissulega langflest af samfélagsmiðlum þar sem þessi ritháttur er hátt í jafn algengur og af hverju, en þó rúm fjögur þúsund úr formlegri textum. Við það má bæta rithættinum akkuru sem hátt í fjögur þúsund dæmi eru um í Risamálheildinni en aðeins 84 á tímarit.is, það elsta frá 1960.
Hjá þeim sem skynja afhverju / akkuru sem eina heild er það því orðið atviksorð, sambærilegt við hví. Það þýðir að fólk skynjar ekki neina vísun í -hverju / -kuru og þar með er ekki lengur neinn truflandi árekstur milli kvenkynsorðsins ástæðan og hvorugkynsmyndarinnar hverju. Það gæti skýrt hvers vegna ástæðan af hverju kemst inn í málið. En hvort sem eitthvert vit er í þessari skýringu legg ég áherslu á að mér finnst ástæðan af hverju hljóma mjög ankannanlega og myndi vilja losna við það. En þetta orðalag er greinlega komið inn í mál ungs fólks og ólíklegt að því verði útrýmt og í stað þess að ergja sig yfir því finnst mér skynsamlegra og skemmtilegra að velta því fyrir sér hvers vegna það eigi svona greiða leið inn í íslensku.