Posted on Færðu inn athugasemd

Að sýna (mið)fingurinn

Í morgun birtist frétt á mbl.is með fyrirsögninni „Fréttaþulur BBC sýndi miðfingurinn“. Ég sá bent á þetta í Málvöndunarþættinum þar sem spurt var hvort við kölluðum þetta ekki löngutöng miðfingur væri „ísl-enska“. Í frumtextanum stendur vissulega „with her middle finger raised“ og í sjálfu sér er engin ástæða til að efast um að þýðandinn hafi þarna, e.t.v. í hugsunarleysi, gripið enska orðalagið og þýtt það með samsvarandi íslenskum orðum eða orðhlutum. Það táknar samt ekki að miðfingur sé endilega ótækt orð í íslensku þótt auðvitað sé það rétt að venjulega íslenska orðið yfir fingurinn í miðjunni er langatöng. Árið 2001 var einmitt spurt á Vísindavefnum: „Af hverju heita allir puttarnir fingur nema einn sem heitir TÖNG, langatöng?“

Í svari Guðrúnar Kvaran kom fram að flestir fingurnir ættu sér fleiri en eitt heiti (þumall, þumalfingur, þumalputti; vísifingur, sleikifingur, bendifingur; langastöng, langatöng; baugfingur, hringfingur, græðifingur; litlifingur, litliputti, lilliputti). Hún nefndi þó ekki heitið miðfingur en sagði: „Miðfingur handarinnar er oftast nefndur langatöng en í eldra máli einnig langastöng. Hugsanlega er sú mynd upprunalegri og vísar til þess að þessi fingur stendur fram úr hinum eins og löng stöng.“ Bæði langastöng og löngustöng eru flettiorð í Íslensk-danskri orðabók 1920-1924 og vísað á löngutöng sem er aðalmynd orðsins þar, en orðin er hvorki að finna í Ritmálssafni Árnastofnunar né á tímarit.is. Öðru máli gegnir um orðið miðfingur.

Samkvæmt Ritmálssafni Árnastofnunar kemur miðfingur fyrst fyrir í latnesk-íslensku orðabókinni Nucleus Latinitatis eftir Jón Árnason biskup frá 1738 þar sem orðið verpus er þýtt „Midfingur, Laungutaung“. Þarna er notuð myndin löngutöng í nefnifalli – þetta er líka elsta dæmi um það orð þannig að orðin eru jafngömul í málinu. Í Dactylismus Ecclestiasticus eður Fingra-rím eftir sama höfund frá 1739 segir: „Aprilis í hátíðareikningnum byrjast alltíð á topp miðfingurs.“ Í bókinni Sá nýi yfirsetukvenna skóli … sem kom út á íslensku 1749 segir: „Hún skal brúka hér til vísifingur og miðfingur.“ Í Tyro Juris eður Barn í lögum eftir Svein Sölvason frá 1754 segir: „að sá sem sór, lagði tvo nefnilega vísi og miðfingurinn á hina helgu bók.“

Á tímarit.is eru fáein dæmi um miðfingur frá fyrri hluta 20. aldar, það elsta í Austra 1909: „á þá fremsti köggull miðfingurs að geta krækzt í keng þann í hnakknum, sem ólin er fest í.“ Fram um 1990 eru þó aðeins u.þ.b. tíu dæmi um orðið, en eftir það fara að sjást dæmi þar sem það er notað í samböndum eins og lyfta miðfingri og sýna miðfingurinn. Elsta dæmi um það er í Morgunblaðinu 1992: „Andi náði ekki aftur jafn góðum árangri, varð níundi og lyfti miðfingri framan í áhorfendur og sjónvarpsvélar eftir seinna stökkið.“ Í Helgarpóstinum 1995 segir: „Ég áttaði mig til dæmis ekki á því fyrir hvað það stóð að reka miðfingurinn framan í fólk fyrr en ég flutti til Íslands.“ Alls eru 15 dæmi af þessu tagi frá síðustu þremur áratugum á tímarit.is.

Sambandið rétta/sýna/gefa (einhverjum) fingur hefur verið algengt frá því um aldamót í nokkrum tilbrigðum – í  Risamálheildinni eru tæp 570 dæmi um fingur í þessu sambandi, um 340 dæmi um putta, 64 dæmi um rétta eða sýna löngutöng, og 12 dæmi um miðfingur. Þótt trúlegt sé að sambandið sé komið í íslensku úr ensku er engin ástæða til að amast við því enda athöfnin sameiginleg vestræn menningararfleifð. Vissulega er langatöng það orð sem hefð er fyrir að nota um miðfingurinn, en í þessu tiltekna sambandi er ekkert óeðlilegt að nota önnur orð og mér finnst langatöng ekkert endilega fara betur en miðfingur í því. Orðið miðfingur er til í málinu og álíka gamalt og langatöng og á fullan rétt á sér í þessu orðasambandi.

Posted on Færðu inn athugasemd

Eflum leikskólana!

Ég get ekki stillt mig um að halda áfram með umræðu um PISA-prófið. Ég hef nefnt – og er ekki einn um það – að grundvöllur málþroskans sé lagður á heimilunum, á fyrstu mánuðum og árum barna, og það sé á ábyrgð foreldra að leggja þennan grunn. Í umræðum hefur verið nefnt að sumir foreldrar standi þar illa að vígi – m.a. innflytjendur og fólk sem þarf að vinna langan vinnudag vegna lágra launa, mikils húsnæðiskostnaðar o.fl. Þessir foreldrar eigi þess ekki kost, hversu mikið sem þau vildu, að sinna börnum sínum nægilega vel að þessu leyti. Þar verður samfélagið að koma til aðstoðar og sjá til þess að jafna aðstæður þessara barna við önnur þannig að ófullnægjandi málörvun á heimilinu leiði ekki til þess að þau lendi á eftir í málþroska.

Í umræðum hefur verið bent á þá sérstöðu Íslands að hér ganga nær öll börn í leikskóla og því gefst einstakt tækifæri á að ná til þeirra og jafna aðstöðuna. En þá þarf auðvitað að skapa leikskólanum skilyrði til að sinna þessu hlutverki. Kannanir sýna yfirleitt mikla ánægju foreldra með starf leikskóla – þau telja að börnunum líði þar vel, þar ríki notalegt og vingjarnlegt andrúmsloft, viðfangsefni barnanna séu áhugaverð o.s.frv. En meginvandinn er sá að hlutfall menntaðs leikskólastarfsfólks er alltof lágt – aðeins rétt rúmur fjórðungur þess hefur kennaramenntun, þar af rúm 88% með leikskólakennaramenntun. En leikskólar eru mjög misvel staddir að þessu leyti og sums staðar virðist hlutfall leikskólakennara vera mjög lágt.

Sú breyting að hafa eitt leyfisbréf fyrir alla kennara jók á vandann því að talsverður fjöldi leikskólakennara hefur fært sig í grunnskóla. Ófaglært starfsfólk er hátt í 60% af heildarfjölda starfsfólks og rúmur helmingur starfsfólksins með menntun á framhaldsskólastigi eða minni. Við það bætist að talsverður fjöldi ófaglærðs leikskólastarfsfólks er af erlendum uppruna og talar stundum litla eða ófullkomna íslensku og er þar með ekki í aðstöðu til að efla málþroska barnanna í íslensku. Með þessu er alls ekki verið að gera lítið úr þessu fólki – vitanlega er margt ófaglært starfsfólk, hvort sem það er íslenskt eða af erlendum uppruna, frábært í því að sinna ýmsum þörfum barnanna og stuðla að þeirri almennu ánægju sem ríkir með leikskólastarfið.

En ófaglært starfsfólk hefur ekki þá fagþekkingu sem nauðsynleg er til að vinna á skipulegan hátt að málörvun, eflingu málþroska og aukningu orðaforða barnanna. Slík þekking er hluti af námi leikskólakennara og mætti reyndar vera stærri. Fjölmargar rannsóknir, innlendar og erlendar, sýna nefnilega fram á að ónógur málþroski á leikskólaaldri dregur langan slóða. Þetta hefur m.a. komið fram í ýmsum rannsóknum Hrafnhildar Ragnarsdóttur prófessors emeritus á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Í grein hennar í Netlu 2015 er bent á að „mælingar á málþroska íslenskra barna undir lok leikskóla spái fyrir um lesskilning þeirra frá og með öðrum eða þriðja bekk (eins og fjölmargar rannsóknir á börnum í öðrum löndum hafa sýnt)“.

Í greininni segir enn fremur: „Niðurstöðurnar staðfesta að meðal íslenskra barna eru síðustu árin í leikskóla mikið gróskutímabil fyrir málþroskaþætti sem gegna lykilhlutverki í alhliða þroska og leggja grunn að læsi og námsárangri síðar. Þær leiða jafnframt í ljós að munur á málþroska jafngamalla íslenskra barna er þá þegar orðinn verulegur og að sá munur tengist að hluta ýmsum áhættuþáttum í aðstæðum barnanna og fjölskyldna þeirra. Niðurstöðurnar undirstrika þannig hversu mikilvægt er að fylgjast grannt með málþroska/þróun orðaforða, málfræði og hlustunarskilnings barna á leikskólaárunum, ekki síst þeirra sem slakast standa og tryggja að þau fái fjölþætta og vandaða málörvun bæði í leikskóla og heima.“

Vegna þessa þarf slakt gengi á PISA-prófinu ekki að koma á óvart – við hefðum getað séð það fyrir út frá málþroska leikskólabarna fyrir tíu árum eða svo, og út frá lesferilsprófum undanfarinna ára eins og Anna Kristín Sigurðardóttir prófessor hefur bent á. Þetta sýnir glöggt að vandinn verður ekki leystur með einhverjum skammvinnum átaksverkefnum. Það sem við gerum núna hefur áhrif á útkomu barna sem nú eru á leikskóla í PISA-prófinu 2034. Þess vegna er ekki eftir neinu að bíða. Við þurfum að leggja megináherslu á að efla leikskólann, fjölga fagmenntuðu starfsfólki þar og auka áherslu á málörvun og málþroska. En forsenda þess er að kjör leikskólakennara verði stórbætt – erum við tilbúin til þess?