Að sýna (mið)fingurinn
Í morgun birtist frétt á mbl.is með fyrirsögninni „Fréttaþulur BBC sýndi miðfingurinn“. Ég sá bent á þetta í Málvöndunarþættinum þar sem spurt var hvort við kölluðum þetta ekki löngutöng – miðfingur væri „ísl-enska“. Í frumtextanum stendur vissulega „with her middle finger raised“ og í sjálfu sér er engin ástæða til að efast um að þýðandinn hafi þarna, e.t.v. í hugsunarleysi, gripið enska orðalagið og þýtt það með samsvarandi íslenskum orðum eða orðhlutum. Það táknar samt ekki að miðfingur sé endilega ótækt orð í íslensku þótt auðvitað sé það rétt að venjulega íslenska orðið yfir fingurinn í miðjunni er langatöng. Árið 2001 var einmitt spurt á Vísindavefnum: „Af hverju heita allir puttarnir fingur nema einn sem heitir TÖNG, langatöng?“
Í svari Guðrúnar Kvaran kom fram að flestir fingurnir ættu sér fleiri en eitt heiti (þumall, þumalfingur, þumalputti; vísifingur, sleikifingur, bendifingur; langastöng, langatöng; baugfingur, hringfingur, græðifingur; litlifingur, litliputti, lilliputti). Hún nefndi þó ekki heitið miðfingur en sagði: „Miðfingur handarinnar er oftast nefndur langatöng en í eldra máli einnig langastöng. Hugsanlega er sú mynd upprunalegri og vísar til þess að þessi fingur stendur fram úr hinum eins og löng stöng.“ Bæði langastöng og löngustöng eru flettiorð í Íslensk-danskri orðabók 1920-1924 og vísað á löngutöng sem er aðalmynd orðsins þar, en orðin er hvorki að finna í Ritmálssafni Árnastofnunar né á tímarit.is. Öðru máli gegnir um orðið miðfingur.
Samkvæmt Ritmálssafni Árnastofnunar kemur miðfingur fyrst fyrir í latnesk-íslensku orðabókinni Nucleus Latinitatis eftir Jón Árnason biskup frá 1738 þar sem orðið verpus er þýtt „Midfingur, Laungutaung“. Þarna er notuð myndin löngutöng í nefnifalli – þetta er líka elsta dæmi um það orð þannig að orðin eru jafngömul í málinu. Í Dactylismus Ecclestiasticus eður Fingra-rím eftir sama höfund frá 1739 segir: „Aprilis í hátíðareikningnum byrjast alltíð á topp miðfingurs.“ Í bókinni Sá nýi yfirsetukvenna skóli … sem kom út á íslensku 1749 segir: „Hún skal brúka hér til vísifingur og miðfingur.“ Í Tyro Juris eður Barn í lögum eftir Svein Sölvason frá 1754 segir: „að sá sem sór, lagði tvo nefnilega vísi og miðfingurinn á hina helgu bók.“
Á tímarit.is eru fáein dæmi um miðfingur frá fyrri hluta 20. aldar, það elsta í Austra 1909: „á þá fremsti köggull miðfingurs að geta krækzt í keng þann í hnakknum, sem ólin er fest í.“ Fram um 1990 eru þó aðeins u.þ.b. tíu dæmi um orðið, en eftir það fara að sjást dæmi þar sem það er notað í samböndum eins og lyfta miðfingri og sýna miðfingurinn. Elsta dæmi um það er í Morgunblaðinu 1992: „Andi náði ekki aftur jafn góðum árangri, varð níundi og lyfti miðfingri framan í áhorfendur og sjónvarpsvélar eftir seinna stökkið.“ Í Helgarpóstinum 1995 segir: „Ég áttaði mig til dæmis ekki á því fyrir hvað það stóð að reka miðfingurinn framan í fólk fyrr en ég flutti til Íslands.“ Alls eru 15 dæmi af þessu tagi frá síðustu þremur áratugum á tímarit.is.
Sambandið rétta/sýna/gefa (einhverjum) fingur hefur verið algengt frá því um aldamót í nokkrum tilbrigðum – í Risamálheildinni eru tæp 570 dæmi um fingur í þessu sambandi, um 340 dæmi um putta, 64 dæmi um rétta eða sýna löngutöng, og 12 dæmi um miðfingur. Þótt trúlegt sé að sambandið sé komið í íslensku úr ensku er engin ástæða til að amast við því enda athöfnin sameiginleg vestræn menningararfleifð. Vissulega er langatöng það orð sem hefð er fyrir að nota um miðfingurinn, en í þessu tiltekna sambandi er ekkert óeðlilegt að nota önnur orð og mér finnst langatöng ekkert endilega fara betur en miðfingur í því. Orðið miðfingur er til í málinu og álíka gamalt og langatöng og á fullan rétt á sér í þessu orðasambandi.