Innstæða eða innistæða?

Ég var spurður að því hvort ætti fremur að tala um innstæðu eða innistæðu, t.d. í banka. Í Málfarsbankanum segir: „Mælt er með orðinu innstæða en ekki innistæða.“ Í pistli Jóns G. Friðjónssonar í Málfarsbankanum segir: „Nafnorðið innstæða í merkingunni 'eign' er kunn í fornu máli en merkingin 'inneign á bók eða reikningi' mun vera frá 19. öld og tíðkast hvort tveggja enn […]. Orðmyndin innistæða (frá fyrri hl. 19. aldar) mun nú vera algengust […]. Orðmyndin innstæða er tvímælalaust upprunaleg og í alla staði rétt, sbr. hliðstæðuna inneign.“ Það er auðvitað enginn vafi á því að innstæða er rétt orðmynd en það táknar ekki endilega að innistæða sé þar með röng, enda segir Jón það ekki. Önnur myndin þarf ekki að útiloka hina.

Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er orðið innistæða ekki skýrt sérstaklega, aðeins vísað á innstæða sem aftur er sagt merkja 'inneign'. Þarna er innstæða því aðalmyndin, en í Íslenskri orðabók er innstæða aðeins skýrt með orðinu 'innistæða' en innistæða er aftur skýrt 'fé á bankareikningi, innstæða'. Þetta er eðlilegt að túlka þannig að innistæða sé aðalmyndin. Í Íslenskri nútímamálsorðabók eru bæði orðin skýrð 'fjárhæð á innlánsreikningi í banka'. Á tímarit.is er rúmlega hálft tíunda þúsund dæma um innistæða en helmingi meira,  á tuttugasta þúsund, um innstæða. Í Risamálheildinni er munurinn miklu minni – á átjánda þúsund dæma um innistæða en hátt í tuttugu þúsund um innstæða. Fyrrnefnda myndin sækir greinilega á.

Það má reyndar færa rök að því að innistæða sé sú mynd sem við mætti búast út frá merkingu atviksorðanna inn og inni – það fyrrnefnda vísar til hreyfingar en það síðarnefnda til kyrrstöðu. Við leggjum peninga inn í bankann en þeir standa inni í bankanum (og -stæða er skylt standa). Á sama hátt mætti búast við innieign og þótt sú mynd sé mjög sjaldgæf núorðið var hún algeng á seinasta hluta 19. aldar og fram um miðja síðustu öld – alls eru rúm 1500 dæmi um hana á tímarit.is. Myndin inneign er því ekki rök fyrir því að innstæða sé réttari mynd en innistæða þótt hún sé vissulega eldri. En vitnisburður orðabóka, aldur og tíðni orðmyndarinnar innistæða sýnir glöggt að sú mynd er ekki síður góð og gild – fyrir henni er löng og rík hefð.