Rizz og rizza eða riss og rissa

Í þættinum „Vikan með Gísla Marteini“ í gærkvöldi spurði Bergrún Íris Sævarsdóttir aðra þátttakendur um merkingu orða úr unglingamáli sem notuð voru í prófi sem nemendur í Dalskóla lögðu fyrir kennara sína í framhaldi af umræðum um PISA-prófið. Annað orðanna var rizz – reyndar var myndin rizza nefnd líka og sögð merkja 'reyna við'. Orðið er komið af enska orðinu charisma sem merkir 'persónutöfrar' en í ensku getur myndin rizz verið bæði nafnorð og sögn. Í íslensku verða sagnir hins vegar að fá nafnháttarendingu og því verður myndin rizza til, eins og í Valentínusarblaðinu í Kvennaskólanum 2023: „Þú hefur kennt mér margt í dag Valentínus, ég þarf kannski að vinna í sjálfum mér áður en ég get byrjað að reyna að rizza aðra.“

Ef nafnorðið rizz og sögnin rizza eiga að falla fullkomlega að íslensku þarf að breyta bæði stafsetningu og framburði þeirra örlítið. Bókstafurinn z er ekki hluti íslenska stafrófsins og svarar ekki til neins sérstaks hljóðs. Í ensku og mörgum erlendum málum stendur z fyrir raddað s, en það hljóð er ekki til í venjulegum íslenskum framburði. Þegar z var notuð íslensku var hún borin fram eins og s, og þegar erlend orð með z eru tekin inn í málið eru þau yfirleitt skrifuð með s og borin fram með s-hljóði – orð eins og t.d. bensín. Því liggur beint við að skrifa þessi orð riss og rissa, og bera fram eins og orð með sama rithætti sem fyrir eru í málinu í annarri merkingu – riss merkir 'lausleg teikning, skissa' og rissa merkir 'teikna (e-ð) lauslega'.

Það er svo sem ekkert einsdæmi að samhljóma orð hafi tvær eða fleiri óskyldar merkingar, og riss og rissa eru ekki það algeng orð í hinni hefðbundnu merkingu að þau ættu að trufla nýju notkunina, auk þess sem samhengið ætti alltaf að skera úr um merkinguna. En óvíst er að notendur orðanna í nýju merkingunni kæri sig um að laga þau að íslensku. Mér finnst reyndar ekki líklegt að orðin séu almennt borin fram með rödduðu z-hljóði eða verði það til frambúðar – ný málhljóð bætast ekki svo auðveldlega við og þegar orð með framandi hljóðum koma inn í málið eru lík íslensk hljóð sett í staðinn. Annað er með stafsetninguna – ekki er ólíklegt að notendur vilji halda rithættinum með zz enda z ekki framandi bókstafur á sama hátt og hljóðið.

Því má bæta við að Oxford-orðabókin valdi rizz nýlega orð ársins í ensku. Orðið er sagt hafa verið myndað fyrir tveimur árum en notkun þess í ensku tók stórt stökk eftir viðtal við leikarann Tom Holland í júní í sumar þar sem hann sagðist hafa „no rizz whatsoever“. Orðið hefur því greinilega verið fljótt að ná til íslenskra unglinga. Á síðu orðbókarinnar er bent á að myndun orðsins sé óvenjuleg – það er komið af miðhluta orðsins charisma en upphafi og enda orðsins er sleppt (önnur ensk orð mynduð á sama hátt eru fridge af refridgerator og flu af influenza). Slík orðmyndun er líka til í íslensku en sjaldgæf en kemur þó a.m.k. fyrir í Þróttó sem er stytting á íþróttahús (á Laugum í Reykjadal) og Íþróttakennaraskóli og flensa af inflúensa.