Að fasa út

Í Málvöndunarþættinum sá ég amast við sambandinu fasa út sem er algengt í fréttum og annarri opinberri umræðu og skýrslum þessa dagana. Forsætisráðherra sagði t.d. nýlega í viðtali: „Við tölum mjög skýrt fyrir þeirri afstöðu að fasa út jarðefnaeldsneyti og að hætta opinberum niðurgreiðslum á því.“ Í skýrslunni Vindorka: Valkostir og greining sem Stjórnarráðið gaf út í apríl sl. segir: „Ljóst er að ef markmið ríkisstjórnarinnar um að fasa jarðefnaeldsneyti að fullu út á næstu 17 árum á að nást þarf að huga heildstætt að nýtingu orkukerfisins.“ Í Skýrslu starfshóps um eflingu samfélagsins á Vestfjörðum frá því í júní sl. segir: „Markmið: Að fasa út notkun jarðefnaeldsneyti[s] til húshitunar á Vestfjörðum fyrir árið 2030.“

Ljóst er af samhengi að fasa út er þarna notað í sömu merkingu og enska sambandið phase out sem það er komið af og skýrt er 'to remove or stop using something gradually or in stages', þ.e. 'fjarlægja eða hætta að nota eitthvað smátt og smátt eða í skrefum'. Þetta er mjög nýlegt orðalag í íslensku – elsta dæmi sem ég finn er í héraðsdómi frá 2011 þar sem segir: „í því er gert ráð fyrir að SPRON geti fasað út þjónustuþætti.“ Í Vísi 2016 segir: „Heimasíminn lifir enn góðu lífi og það lítur út fyrir að honum verði fasað út hægt og rólega.“ Í Morgunblaðinu 2016 segir: „Ákváðu stjórnvöld þá að fasa út kjarnorku og loka kjarnorkuverum.“ Í Fréttablaðinu 2019 segir: „Þar verður m.a. rætt samnorrænt átak að fasa út plasti í forhlöðum haglaskota.“

Þegar nýjar áhrifssagnir koma inn í málið getur verið spurning hvaða falli þær stýra, og eins og dæmin hér að framan sýna virðist fallstjórn fasa vera á reiki. Þolfall er notað í „fasa út þjónustuþætti“ en þágufall í „honum verði fasað út“ og „fasa út plasti“. Dæmi eru um ýmist þolfall eða þágufall með sama orði: Í Bændablaðinu 2020 er sagt að „fyrsti áfangi Símans við að fasa út PSTN koparkerfið, heimasíma, hefjist 1. október næstkomandi“ en í Morgunblaðinu sama ár segir: „Danir fóru þá leið að fasa út ákveðnum grunnkerfum.“ Í algengustu notkun orðsins, dæmum eins og „fasa út jarðefnaeldsneyti“, „fasa út notkun jarðefnaeldsneytis“ „fasa út olíu“ o.fl., er hins vegar ekki hægt að sjá hvort um þolfall eða þágufall er að ræða.

Þar eð sambandið er mjög nýlegt finnst sögnin fasa ekki í orðabókum en hún fellur ágætlega að málinu, sbr. nasa, rasa, þrasa o.fl. Aðeins 14 dæmi er um fasa út á tímarit.is, flest frá síðustu þremur árum, og innan við tíu í Risamálheildinni. Aftur á móti eru tíu dæmi um nafnorðið útfösun á tímarit.is, það elsta frá 2002 en flest frá síðustu fimm árum, og yfir 50 dæmi í Risamálheildinni. Notkun fasa út hefur margfaldast á síðustu mánuðum, einkum í tengslum við loftslagsumræðu en einnig í öðru samhengi. Einnig hefur sambandið fasa niður heyrst í svipuðu samhengi en í ensku er til phase down í sömu merkingu og phase out. Sambandið fasa út er gagnlegt í íslensku – merkir annað en bæði draga úr og hætta. Ég sé ekkert mæla gegn því.