Dýr og ódýr fargjöld
Í Málvöndunarþættinum var vakin athygli á því að orðalagið „Verð á fargjöldum“ hefði komið fyrir í fréttum Ríkisútvarpsins í dag. Þótt það væri ekki sagt berum orðum má gera því skóna að málshefjanda hafi þótt þetta orðalag óeðlilegt, og er ekki einn um það – þetta er algengt umkvörtunarefni í málfarsumræðu. Í kverinu Gætum tungunnar frá 1984 segir: „Sagt var: Fargjaldið kostar sjö þúsund. Rétt væri: Farið kostar sjö þúsund krónur. Eða: Fargjaldið er sjö þúsund krónur.“ Í sama kveri segir einnig: „Sagt var: Fargjöld eru mismunandi dýr. Rétt væri: Fargjöld eru mismunandi há. Eða: Far er misjafnlega dýrt.“ Málfarsbankinn er ekki eins afdráttarlaus en segir: „Betra er að tala um há eða lág (far)gjöld en „dýr eða ódýr (far)gjöld“.“
Gísli Jónsson skýrði þetta svo í þætti sínum í Morgunblaðinu 1982: „Er hægt að selja eða kaupa fargjöld? […] Ég svara þessu neitandi. Við kaupum ekki fargjald. Við kaupum far eða farmiða og gjöldum svo og svo mikið fyrir. Það gjald er fargjald, sem við þannig látum af hendi rakna, en við seljum það hvorki né kaupum.“ Þetta má auðvitað til sanns vegar færa, og rímar við skýringu orðsins fargjald í Íslenskri nútímamálsorðabók: 'verð sem farþegi greiðir fyrir far (og flutning á farangri sínum)'. Það er samt athyglisvert að í áðurnefndum þætti birti Gísli – athugasemdalaust – texta frá Íslenskri málstöð þar sem segir „eiga kost á ódýrara fargjaldi en hinn almenni farþegi“ og að „farþegi geti fengið ódýrara fargjald með vissum skilyrðum“.
Á tímarit.is eru um 50 dæmi um selja fargjald, elst í Lögréttu 1914: „því eru þeir neyddir til að selja fargjald tvöfalt eða jafnvel fjórfalt hærri“; hátt í 40 dæmi um kaupa fargjald, elst í Heimskringlu 1941: „hann fékk mér fé til að kaupa fargjald fyrir til Argentínu“; um 120 dæmi um verð á fargjöldum, elst í Lögbergi 1941: „sama verð á fargjöldum og átti sér stað fyrir stríðið“; um 170 dæmi um fargjald kostar, elst í Heimskringlu 1886: „Fargjald hjeðan frá bænum […] kostar 75 cents“; rúm 150 dæmi um dýrt fargjald, elst í Fréttum frá Íslandi 1877: „Fargjald og fararbeini hefur og þótt óþarflega dýr“; hátt í 1400 dæmi um ódýrt fargjald, elst í Lögbergi 1897: „Sýningarstjórnin hefur samið […] um frámunalega ódýrt fargjald hingað“.
Skýringin á þessu orðalagi er ósköp einföld – orðið fargjald hefur bætt við sig merkingu og merkir það sama og orðið far, þ.e. 'flutningur', til viðbótar merkingunni sem gefin er í Íslenskri nútímamálsorðabók. Eins og oft hefur verið skrifað um hér gerist það iðulega að merking samsettra orða breytist með tímanum og verður „órökrétt“ – hættir að vera summa eða fall af merkingu samsetningarliðanna. Elsta dæmi um orðið fargjald er frá 1873 þannig að orðið hefur getað haft merkinguna 'flutningur' næstum því frá upphafi – elsta dæmið frá 1877 eins og nefnt er hér að framan. Það er því rétt mál og í fullu samræmi við málhefð að tala um að kaupa og selja fargjöld, verð á fargjöldum, að fargjöld kosti svo og svo mikið, eða dýr og ódýr fargjöld.