Uppstú, uppstúf, uppstúfur – og uppstúningur
Það er við hæfi í dag að skoða orðið uppstú(f)(ur) sem merkir 'hvít, þykk sósa úr hveiti, smjöri og mjólk, jafningur'. Það er íslensk gerð af danska nafnorðinu opstuvning sem hefur sömu merkingu og er komið af sögninni opstue 'búa til jafning' – stuve merkir 'hita upp aftur, sjóða við hægan eld'. Í íslensku er f(v) (og reyndar g líka) oft mjög ógreinilegt eða hverfur alveg á eftir ú (og á og ó) í áherslulausum atkvæðum, í orðum eins og ljúf/ljúfur, dúfa/dúfur o.fl., og þess vegna er ekkert óeðlilegt að til verði bæði myndin uppstú og uppstúf. Karlkynsmyndin uppstúfur verður til vegna þess að orðið er miklu oftar notað í þolfalli og þágufalli en í nefnifalli – búa til uppstúf, hangikjöt með uppstúfi – og út frá því er nefnifallsmyndin uppstúfur búin til.
Elsta dæmi um aðlögun danska orðsins opstuvning að íslensku er jafnframt það sem fer næst fyrirmyndinni. Það er orðið uppstúning sem kemur fyrir í auglýsingu í Vísi 1922: „Allskonar uppstúning, svo sem: grænar baunir, asparges, rófur, kartöflur og margt fleira.“ Þarna virðist orðið þó frekar merkja 'niðursuðuvara' en 'jafningur'. Þetta er eina dæmið um kvenkynsmynd orðsins á tímarit.is en karlkynsmyndin uppstúningur er nefnd sem hliðarmynd undir uppstúf í Íslenskri orðabók. Elsta dæmið á tímarit.is um hvorugkynsmyndina uppstúf er frá 1927, elsta dæmi um karlkynsmyndina uppstúfur frá 1959 en elsta dæmi um uppstú frá 1946. Fimm dæmi eru hins vegar um lýsingarorðið uppstúfaður og það kemur fyrir í bréfi frá 1891.
Langalgengustu beygingarmyndir orðsins eru uppstúf og uppstúfi, og báðar gætu verið hvort heldur karlkyns- eða hvorugkynsmyndir eins og áður segir. En út frá myndum með ákveðnum greini sem ótvírætt tilheyra aðeins öðru kyninu sýnist mér að hvorugkynið hafi verið algengast áður fyrr en karlkynið hafi sótt á síðustu áratugi og sé algengast núna. Ég sé engar forsendur fyrir því að kalla eina þessara mynda réttari en aðra, hvað þá að amast við þeim. Málfarsbankinn segir reyndar: „Í staðinn fyrir orðin uppstú, uppstúfur og uppstúf er hægt að nota orðið jafningur.“ Á bak við þetta liggur líklega andóf gegn tökuorðum, en eins og Guðrún Kvaran segir á Vísindavefnum er jafningur líka tökuorð úr dönsku, að vísu síðan í lok 18. aldar.