Hvað merkir flugmiði?
Um daginn sá ég í Málvöndunarþættinum að spurt var um orðið flugmiði sem nýlega kom fyrir í erlendri frétt DV: „hópurinn hefur dreift flugmiðum sem nöfn leigusala og ljósmyndir af þeim eru á.“ Fyrirspyrjandi taldi líklegt að í frumtexta hefði staðið „the group distributed flyers“ og velti fyrir sér hvort um lélega þýðingu væri að ræða – hann kannaðist aðeins við merkinguna ‚flugfarseðill‘ í orðinu flugmiði og taldi að þarna hefði átt að standa ‚dreifimiði‘. Orðið flyer er í enskri orðabók skýrt 'a small piece of paper with information on it about a product or event‘' og í Ensk-íslenskri orðabók er það skýrt 'flugrit, dreifibréf'. En í Íslenskri orðabók er flugmiði skýrt 'dreifibréf, seðill (t.d. með frétt eða áskorun) sem dreift er út' og 'farseðill fyrir flugferð'.
Í Íslenskri nútímamálsorðabók er aftur á móti aðeins gefin merkingin 'miði eða blað sem veitir aðgang að flugferð, farseðill' og má því ætla að hin merkingin sem Íslensk orðabók nefnir sé að mestu horfin úr málinu. Sú merking er þó eldri en hin. Elsta dæmi um hana er í Norðurlandi 1905: „beint ofan í hana reynir M. K. að telja mönnum trú um, í flugmiða er hann hefir sent kjósendum, að hann eigi „alls engan þátt í útgáfu neins blaðs.““ Þetta er aðeins tveimur árum eftir flug Wright-bræðra og löngu fyrir daga flugs á Íslandi, þannig að ljóst er að þarna er um merkinguna 'dreifirit' að ræða. Sama gildir um nær öll dæmi um orðið í blöðum næstu 40 árin og rúmlega það. Frá þeim tíma hef ég aðeins fundið þrjú dæmi um aðra merkingu orðsins.
Í Morgunblaðinu 1920 segir: „Flugið. Í dag verður flogið með farþega, tíu mínútna flug fyrir 100 kr. […] Verða flugmiðar seldir suður í flugskála.“ Hér er augljóslega um merkinguna 'flugfarseðill' að ræða. Í Morgunblaðinu 1931 eru auglýstir vinningar í hlutaveltu og þar á meðal „3 flugmiðar. Hringflug“. Í Morgunblaðinu 1939 er auglýst: „Flugmiði til Akureyrar til sölu.“ En frá árinu 1947 fara að sjást fleiri dæmi um þessa merkingu, en þó ekki að ráði fyrr en eftir miðjan sjötta áratuginn. Það virðist ekki vera fyrr en eftir 1970 sem 'flugfarseðill' verður aðalmerking orðsins, og eftir 1980 verður merkingin 'dreifirit' fáséð þótt hún sjáist enn einstöku sinnum eins og í áðurnefndri frétt DV. Um leið fjölgar dæmum um orðið mjög.
Þótt orðið sé tilkomið fyrir daga flugs á Íslandi eins og áður segir er líklegt að málnotendur hafi fljótlega tengt dreifiritsmerkinguna við miða sem dreift er úr flugvélum – a.m.k. á það við um yfirgnæfandi meirihluta dæma um orðið í þeirri merkingu allt frá fjórða áratugnum og síðan. En það er athyglisvert að báðar merkingar orðsins skuli hafa lifað hlið við hlið í heila öld. Í fyrirspurninni í Málvöndunarþættinum sem vitnað var til í upphafi sagði: „Ef það á að nota það líka yfir dreifibréf eða hvað maður vill kalla það, er hætt við miklum misskilningi.“ Það er í sjálfu sér eðlileg ályktun þótt þetta virðist einhvern veginn hafa blessast. En líklega er vandamálið að mestu úr sögunni vegna þess að dreifiritsmerkingin er nokkurn veginn horfin.