Varð hún valdur að slysi – eða völd að slysi?
Í kverinu Gott mál eftir Ólaf Oddsson segir: „Valdur að slysi (ekki: Hún var valdur að slysi!) Lýsingarorðið valdur merkir: sem veldur (einkum e-u slæmu). Það beygist svipað og orðið kaldur. Hann er valdur að slysi, hún er völd, þeir eru valdir og þær eru valdar að slysi. Á þessu hafa ýmsir flaskað.“ Í nútímamáli tekur valdur yfirleitt með sér forsetninguna að – valdur að slysi, valdur að tjóni, valdur að skemmdum, valdur að árekstri, valdur að áverkum o.s.frv. Þó er talsvert algengt að forsetningin af sé notuð í stað að, og reyndar tíðkaðist það líka fyrr á öldum – að virðist koma til á 19. öld. Í fornu máli tók valdur hins vegar oftast með sér nafnorð í eignarfalli – „kenndi brátt hver valdur mundi verks þessa“ segir í Ólafs sögu Tryggvasonar.
Mér finnst ekki ótrúlegt að það sé rétt að orðið sé stundum beygt öðruvísi en mælt er með, en ég finn þó engin dæmi um það á prenti og aðeins tvö dæmi á samfélagsmiðlum. Á Hugi.is 2002 segir: „Hún fékk ekki meira því hún drap þau ekki, hún var valdur að dauða þeirra.“ Á Bland.is 2004 segir: „strákurinn minn þurfti að fara í aðgerð 5 vikna út af því að annað lungað féll saman út frá þindarlömun sem hún var valdur af.“ En reyndar er umdeilanlegt hvort hún var valdur að slysi er rangt. Ásgeir Blöndal Magnússon segir nefnilega í Íslenskri orðsifjabók: „Orðmynd þessi (v. e-s, v. að e-u) er oftast skilgreind sem [lýsingarorð] sem er vafasamt, þar sem valdur [í merkingunni ‘stjórnandi, stýrir; valdandi,…’] hæfir samhenginu fullt eins vel […].“
Samkvæmt þessu væri valdur nafnorð í þessu samhengi og valdur einhvers eða valdur að einhverju væri sambærilegt við t.d. höfundur einhvers og höfundur að einhverju, eða ábyrgðarmaður einhvers og ábyrgðarmaður að einhverju. Það má líka benda á að til er fjöldi samsettra nafnorða þar sem -valdur er síðari liður, þar á meðal orð eins og slysavaldur og tjónvaldur sem merkja sama og valdur að slysi og valdur að tjóni. En þótt það kunni að vera rétt hjá Ásgeiri Blöndal að valdur sé upphaflega nafnorð í þessu samhengi er samt auðvitað enginn vafi á því að valdur er oft ótvírætt lýsingarorð og jafnvel þegar í fornu máli – „Eigi erum vér þessa valdir Kjartan er þú berð á oss“ segir til dæmis í Laxdæla sögu.
Ef um nafnorð væri að ræða mætti búast við myndinni valdar í stað valdir – a.m.k. er það fleirtala orðsins í seinni tíma máli. Ótvíræð lýsingarorðabeyging kemur einnig fram í kvenkynsmyndum eins og „Hún er völd að dauða margra smábarna víða um heim“ í Frey 1996. Það er líka fjöldi dæma á við „Lögreglan handsamaði fljótt mann, er hún grunaði að vera valdan að stuldinum“ í Alþýðublaðinu 1943, en engin dæmi um *vera vald að stuldinum sem búast mætti við ef um nafnorð væri að ræða. Þá má einnig nefna orðið óvaldur sem merkir 'saklaus' og kemur fyrir í fornu máli – „Það er eigi gott ráð […] að snúa sökum á óvalda menn“ segir í Brennu-Njáls sögu. Þarna er enginn vafi á því að um lýsingarorð er að ræða.
Orðið valdur er langalgengast í karlkyni eintölu nefnifalli og sú mynd getur formsins vegna verið hvort heldur nafnorð eða lýsingarorð. Það er ekkert útilokað að upphaflega sé um nafnorð að ræða en það hafi síðan verið endurtúlkað sem lýsingarorð – en einnig er mögulegt að orðið hafi upphaflega verið lýsingarorð en sé stundum túlkað sem nafnorð. Í skýringum við nafnorðið valdur í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls segir: „Því bregður einnig fyrir í nefnifalli í sambandinu vera/verða valdur að e-u: Hér var hún valdur að eigin sársauka. Þarna er venjulegra að hafa lýsingarorð: […] Konan var sýknuð af að vera völd að eldsvoða.“ Mér finnst eðlilegt að líta svo á að í hún var valdur að slysi sé valdur nafnorð og setningin því hárrétt.