Árið 2023 gert upp

Þetta hefur verið gott ár fyrir Málspjall. Innlegg á árinu voru 2.003 eða að meðaltali 5,6 á dag, athugasemdir 33.429 eða að meðaltali 93 á dag, viðbrögð (læk) 141.085 eða að meðaltali 393 á dag, og 3.999 fóru að meðaltali inn á síðu hópsins á dag. Allt er þetta veruleg aukning frá fyrra ári. Hópverjar eru nú tæplega 9.300 – hefur fjölgað um 2.500 á árinu. Vegna fjölda nýrra félaga finnst mér rétt að hnykkja hér á meginviðfangsefnum hópsins, sem eru í fyrsta lagi að efla jákvæða umræðu um íslenskuna; í öðru lagi að svara spurningum um íslenskt mál og málnotkun; í þriðja lagi að andæfa óþarfri enskunotkun; í fjórða lagi að birta fræðandi pistla um málið; og í fimmta lagi að vera vettvangur umræðu um mál jaðarsettra hópa.

Jákvæð umræða. Megintilgangurinn með stofnun hópsins var upphaflega sá að hvetja til jákvæðrar umræðu um íslenskt mál og málnotkun og reyna að ýta undir slíka umræðu. Mér hefur lengi blöskrað umræðan í málfarshópum á samfélagsmiðlum og athugasemdadálkum vefmiðla og er þess fullviss að sú umræða sé stórskaðleg fyrir íslenskuna – fæli fólk frá því að tjá sig opinberlega og geri ungt fólk fráhverft málinu. Ég á mér þá hugsjón að breyta þessu – auka umburðarlyndi fólks gagnvart málfari annarra og tilbrigðum í máli. Mér finnst mikilvægt að berjast gegn þeirri tvíhyggju sem við höfum flest alist upp við, að málfar sé annaðhvort rétt eða rangt og aðeins eitt sé rétt en allt annað rangt. Það er ekki þannig – íslenskan er alls konar.

Spurningar og svör. Mér finnst mikilvægt að almennir málnotendur eigi sér vettvang þar sem hægt er að bera fram spurningar um hvaðeina sem varðar mál og málnotkun og fá svar við þeim samstundis eða því sem næst. Skilyrði er þó að spurningarnar séu bornar fram á jákvæðum eða hlutlausum nótum og fyrirspyrjendur gefi sér ekki forsendur eða séu að leita staðfestingar á eigin fordómum. Ég reyni að svara öllum spurningum eftir megni, en auðvitað er æskilegt að aðrir hópverjar svari einnig, eins og algengt er. Eftir því sem fjölgar í hópnum aukast einnig líkur á því að einhverjir hópverja geti svarað því sem um er spurt. Ég held að fyrirspyrjendur hafi oftast fengið hér einhverja úrlausn mála þótt vitanlega séu undantekningar frá því.

Óþörf enska. Ein helsta ógnin við íslenskuna um þessar mundir er meðvitundarleysi okkar gagnvart áhrifum enskunnar – við erum orðin alltof ónæm fyrir enskunni í málumhverfi okkar og tökum oft ekki eftir því að enska er notuð þar sem væri auðvelt og eðlilegt – og jafnvel stundum lagaskylda – að nota íslensku. Ég hef lagt áherslu á að berjast gegn óþarfri enskunotkun fyrirtækja og stofnana – í auglýsingum, á matseðlum, á skiltum, í vöruheitum og víðar. Margir hópverjar hafa tekið virkan þátt í þessari baráttu sem hefur stundum skilað árangri – ýmis dæmi eru um að skiltum og auglýsingum hafi verið breytt í framhaldi af athugasemdum hér. En því miður er líka algengt að athugasemdir séu hunsaðar – baráttan heldur áfram.

Fræðsla. Ég var kennari í nærri 40 ár og hef gaman af að fræða fólk – og hef trú á því að mörgum þyki fengur að fræðslu um íslenskuna. Þess vegna skrifa ég hér pistla um hvaðeina sem varðar hana – um tungumálið sjálft og tilbrigði í formi og merkingu þess, en einnig um notkun þess á ýmsum sviðum, orðræðugreiningu, íslenskukennslu innflytjenda, íslenska málstefnu, o.fl. Þetta eru oft langir pistlar, flestir á bilinu 400-700 orð, og ólíklegt að mörgum endist tími og áhugi til að lesa þá alla til enda. En það er í góðu lagi – ég geri þetta ekki síst sjálfum mér til fróðleiks og skemmtunar. Það er líka alltaf hægt að nálgast pistlana, sem nú eru orðnir hálft níunda hundrað, á heimasíðu minni, https://uni.hi.is/eirikur/ritaskra/malfarspistlar/.

Vettvangur jaðarsettra. Ég hef auðvitað lengi vitað að sem síðmiðaldra menntaður hvítur karlmaður að norðan í efri millistétt tilheyri ég forréttindahópi. En það hefur smátt og smátt verið að renna upp fyrir mér hvernig þau forréttindi ná einnig til tungumálsins, og að stórir hópar í þjóðfélaginu – ekki síst hinsegin fólk og fólk með annað móðurmál en íslensku – eiga undir högg að sækja í málfarslegum efnum og eru jaðarsettir, ýmist af tungumálinu sjálfu eða notendum þess. Þetta er mjög alvarlegt fyrir þessa hópa en líka fyrir íslenskuna – og fyrir lýðræðið í landinu. Þess vegna finnst mér mikilvægt að jaðarsettir hópar hafi rödd og málfar þeirra hafi vettvang og hef reynt að skýra málstað þeirra og tala máli þeirra eftir mætti.

Hér hefur frá upphafi verið lögð áhersla á að forðast neikvæða umræðu og athugasemdir við málfar einstaklinga og hópa, og ég hef miskunnarlaust eytt innleggjum og athugasemdum sem brjóta í bága við þessa stefnu eða virðast ekki hafa annan tilgang en benda á einhverja meinta hnökra á máli og málnotkun. Félagar í hópnum hafa líka verið duglegir við að benda mér á ef út af er brugðið. Ég hef þurft að útiloka nokkra frá hópnum vegna innleggja sem ekki eiga hér heima (einkum auglýsinga um óskyld efni) eða óviðurkvæmilegs orðbragðs. Ég legg hins vegar áherslu á að engum hefur verið eða verður vísað úr hópnum vegna skoðana sinna á máli og málfari, séu þær settar fram á málefnalegan hátt.