Sáttur með/við árangurinn

Fyrr í dag var hér spurt um sambandið sáttur við/með sem fyrirspyrjanda fannst ofnotað, ekki síst í íþróttamáli – „virðist jafnvel hafa tekið yfir orðið ánægður“. Í Íslenskri nútímamálsorðabók eru gefnar tvær merkingar lýsingarorðsins sáttur: 'sem hefur sæst við e-n' og 'ánægður, sammála'. Þegar sambandið sáttur við vísar til fólks er oft erfitt að greina milli merkinganna – ég er sáttur við þig getur merkt bæði 'við erum sátt(ir)' og 'ég er ánægður með þig / ég sætti mig við þig'. En í dæmum eins og sáttur við niðurstöðuna /útkomuna eða sáttur við að tapa getur sáttur við eingöngu merkt 'ég er ánægður með' eða 'ég sætti mig við', og sama máli gegnir um sambandið sáttur með – það getur ekki merkt 'sem hefur sæst við'.

Merkingin 'ánægður' í orðinu sáttur er ekki ný, og t.d. gefin í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924, en virðist þó lengi vel hafa verið fremur sjaldgæf. En tíðni hennar hefur aukist mjög mikið á síðustu áratugum, einkum eftir 1980, eins og marka má af því að samböndin sáttur með og sáttur við að voru sjaldgæf fyrir þann tíma en eru nú mjög algeng – í Risamálheildinni eru tæp 38 þúsund dæmi um fyrrnefnda sambandið en rúm 13 þúsund um það síðarnefnda. En þótt þessi merking sé í mikilli sókn er samt langt í að þessi sambönd útrými sambandinu ánægður með – um það eru rúm 240 þúsund dæmi í Risamálheildinni. Lausleg athugun bendir þó til þess að það sé rétt hjá fyrirspyrjanda að hlutfall sambanda með sáttur sé hærra í íþróttamáli.

En fyrirspyrjandi hafði ekki bara athugasemdir við tíðni sambandsins sáttur við/með, heldur einnig merkinguna, og sagði: „„Ég er bara mjög sáttur með (við) árangurinn,“ segir viðmælandi þegar hann er í raun hæstánægður. Í mínum huga merkir það að vera sáttur að eitthvað sé nógu gott miðað við aðstæður.“ Ég held reyndar að merking sambandsins fari mjög eftir aðstæðum, tónfalli og áherslu. Ef sagt er ég er mjög sáttur með árangurinn, með áherslu á mjög, merkir þetta vissulega 'ég er hæstánægður með árangurinn'. En ef þetta er sagt með hlutlausu tónfalli held ég að það merki einmitt það sem fyrirspyrjandi telur það merkja, þ.e. 'ég sætti mig við árangurinn'. Þetta getur þó sjálfsagt oft verið túlkunaratriði.