Niður til Afríku

Málfarsbankinn segir: „Athuga ber að tala fremur um norður og suður í heiminum en „upp“ eða „uppi“ og „niður“ eða „niðri“. Sagt er: suður til Afríku, suður í Afríku, norður til Kanada, norður í Kanada (ekki „niður til Afríku“, „niðri í Afríku“, „upp til Kanada“, „uppi í Kanada“).“ Í kverinu Gætum tungunnar er notað afdráttarlausara orðalag: „Sagt var: Hann fór niður til Afríku. Rétt væri: Hann fór suður til Afríku.“ Ólafur Oddsson tekur undir þetta í kverinu Gott mál og segir: „Sumir menn tala um að fara „niður“ til sólarlanda og þaðan fara þeir svo „upp“ til Íslands. Þessar áttaviðmiðanir eru dæmi um erlend máláhrif. Danir tala um að ferðast „ned til Hamborg“ en þetta er ekki málvenja hér.“ Þetta þarf þó að skoða nánar.

Vel má vera að það megi kalla þessa notkun atviksorðanna upp og niður „erlend máláhrif“, en hitt er fráleitt að segja að hún sé „ekki málvenja hér“ því að það hefur hún verið lengi. Allt frá því fyrir miðja 19. öld var alvanalegt að nota niður til um ferðir frá Íslandi til Danmerkur. Í Nýjum félagsritum 1842 segir: „Thórarensen amtmaður sendi mikið af kaupverði Hólajarðanna […] beinlínis niður til Kaupmannahafnar.“ Í Undirbúningsblaði undir þjóðfundinn 1850 segir: „Sjer í lagi þótti fundarmönnum, að það mundi verða nauðsynlegt, að senda menn niður til Danmerkur.“ Í Sunnanfara 1896 segir: „Nú þykir það nóg fyrir menntamenn okkar ef þeir drattast niður til Hafnarháskólans og drekka þar bjór í nokkur missiri.“

Enn algengara var þó að nota upp til um ferðir til Íslands, og það virðist raunar hafa verið hið venjulega orðalag – um það eru rúm 460 dæmi á tímarit.is, en tæp 270 um norður til Íslands. Í Skírni 1838 segir: „hún skyldi nú til vorsins senda 2 landmælara upp til Íslands.“ Í Þjóðólfi 1863 segir: „það var svo handhægt fyrir hann að fara sjálfr upp til Íslands til að læra íslenzkuna.“ Í Ísafold 1875 segir: „Í fyrra sendi bókmennta-fjelags deildin í Höfn bókapakka upp til Íslands í gegnum póstinn.“ Í Þjóðólfi 1875 segir: „Hún kemur út í Bretlandi um leið og hjer, og þaðan má ná henni upp til Íslands.“ Í Fréttum frá Íslandi 1879 segir: „Sömuleiðis lagði alþingi það til, að stjórnin hlutaðist til um, að seglskip yrði sent upp til Íslands.“

En þótt langalgengast væri að nota niður til um Danmörku og upp til um Ísland er þetta orðalag notað um fleira. Í Norðanfara 1879 segir: „áður en skólinn byrjaði fór jeg niður til Sljesvíkur að finna nokkra menn.“ Í Bjarka 1900 segir: „Fótatak þeirra á marmaratröppunum […] heyrðist út til kvenmans, sem gekk ein eftir veginum niður til Sevillu.“ Í Skírni 1841 segir: „Eptir þetta hörfaði Ibrahim undan upp til Damascusborgar.“ Í Dagfara 1906 segir: „Ritsímann upp til Færeyja var búið að leggja í lok júlí.“ Í Austra 1896 segir: „Að í stað þess feykimikla vatns, er streymir norðan frá Heimsskautinu niður til Grænlands og þaðan suður í höf, hljóti að streyma jafn stríður straumur frá Norður-Siberíu, upp að Heimsskautinu.“

Þegar kemur fram á 20. öldina og ferðalög aukast fara að koma dæmi um fleiri og fleiri staðaheiti með þessum orðum, einkum niður. Í Morgunblaðinu 1915 segir: „Eftir skipan Viihjálms keisara, voru þeir allir sendir niður til Miklagarðs.“ Í Alþýðublaðinu 1922 segir: „Væri það maklegt, að J.M. fengi að velta niður til Spánar með tillögur sínar í fanginu.“  Í Siglfirðingi 1924 segir: „Veiða togararnir, sem kunnugt er, í ís og fara svo með aflann niður til Englands og selja hann þar.“ Í Alþýðublaðinu 1928 segir: „Á annan jóladag s.l. sendi ég niður til Þýzkalands landslagsmynd af mér í fornbúningnum.“ Í Ljósberanum 1934 segir: „hann átti að flytja móður með lítið barn alla leið niður til Egyptalands.“

Það er sem sé ljóst að það er hátt í 200 ára gömul málvenja að nota upp og niður með staðaheitum í merkingunni 'norður' og 'suður'. Vissulega eru orðin upp og niður ekki notuð í grunnmerkingu sinni þarna – þetta er myndlíking út frá landakorti eða hnattlíkani. En myndlíkingar þykja yfirleitt fremur skraut á máli en málspjöll og hliðstæðar myndlíkingar eru vitanlega algengar í málinu og alveg eðlilegar. Vissulega er trúlegt að þessi myndlíking sé upphaflega fengin að láni úr dönsku. En hún miðast ekkert fremur við danskar aðstæður en íslenskar og gæti því eins verið íslensk að uppruna. Að amast við þessu er þess vegna della sem hver hafa étið upp eftir öðrum – það er nákvæmlega ekkert að því að fara niður til Afríku.