Fóru þau vill vega eða villur vega?

Orðasambandið fara villur vega(r) í merkingunni 'vera villtur' eða 'hafa rangt fyrir sér, skjátlast' kemur fyrir þegar í fornu máli – „sný ég þessu níði á landvættir […] svo að allar fari þær villar vega“ segir í Egils sögu. Oft er sambandið sagt notað ranglega. Í Málfarsbankanum segir t.d.: „Lýsingarorðið villur (vill, villt) hefur sömu merkinu og lýsingarorðið villtur. Hann fer villur vegar. Þeir fara villir vegar. Hún fer vill vegar. Ekki: „þeir fara villur vegar“, „hún fer villur vegar“ enda er það ekki nafnorðið villa sem hér um ræðir.“ Og Jón G. Friðjónsson segir í Morgunblaðinu 2007: „Í nútímamáli (reyndar frá fyrri hluta 20. aldar) er villur stundum skilið sem þf.flt. af villa […]. Slík notkun samræmist hvorki uppruna né málvenju.“

Í nútímamáli kemur lýsingarorðið villur tæpast fyrir nema í sambandinu fara villur vega(r). Nafnorðið villa er hins vegar mjög algengt og þess vegna er engin furða að málnotendur telji að um það orð sé að ræða í þessu sambandi. Reyndar er sú notkun eldri en frá fyrri hluta 20, aldar – frá því fyrir aldamótin 1900. Í Heimskringlu 1891 segir: „þeir hafa farið villur vegar.“ Í Lísingu 1899 segir: „Vér sjáum það, að samviskan getur farið villur vegar.“ Í Þjóðviljanum 1899 segir: „Það er að vísu raunalegt, að sjá góða, og í raun og veru skynsama, menn fara villur vegar.“ Dæmum fjölgar svo þegar kemur fram yfir aldamót og alla 20. öldina má finna á tímarit.is fjölda dæma sem sýna glöggt að villur er skilið sem nafnorð en ekki lýsingarorð.

Nokkur dæmi: Í Frækorni 1908 segir: „Að sönnu er höfundurinn svo vægur, að hann ætlast ekki til, að neinn fari að álasa fornkirkjunni eða kirkjunni yfirleitt, að hún hefir farið villur vegar.“ Í Unga hermanninum 1909 segir: „Og þeir, sem hugsa, að Guð vilji ekki, að börn hans umgangist hann þannig, þeir fara villur vegar.“ Í Vísi 1937 segir: „Flugurnar fara villur vegar stundum.“ Í Skinfaxa 1939 segir: „Þau fara villur vegar í hríð og náttmyrkri.“ Í Íslendingi 1955 segir: „Báðir aðilar fara villur vegar.“ Í Skagablaðinu 1986 segir: „Það er ekki oft sem fréttist af fólki sem fer villur vegar á eða við Akranes.“ Í Morgunblaðinu 1992 segir: „Ég held að megnið af þessu unga fólki hafi nú gert sér grein fyrir því að það fór villur vegar.“

Vissulega er enginn vafi á því að villur er upphaflega lýsingarorð í sambandinu fara villur vega(r). En það þýðir ekki endilega að við séum bundin við þann skilning og annar skilningur sé sjálfkrafa rangur – það eru fjölmörg dæmi um að orð og orðasambönd hafi nú aðra merkingu eða séu skilin á annan hátt en í fornu máli. Það er enginn vafi á því að löng og mikil notkun orðsins villur sem nafnorðs í þessu sambandi hefur skapað nýja málvenju – til hliðar við þá gömlu sem auðvitað er enn í fullu gildi. Það er nefnilega ekkert að því að tvær mismunandi málvenjur séu í gangi – við þurfum ekkert öll að tala eins. Tilbrigði sýna að það er líf í málinu. Bæði blaðið fór villt vega og blaðið fór villur vega hlýtur að teljast rétt mál.