Í persónu

Ýmis nútímatækni hefur gert það að verkum að merking algengra hugtaka og orða sem varða mannleg samskipti er ekki jafn ljós og áður – orða eins og sjá(st), hitta(st), halda fund o.s.frv. Áður fyrr voru þessi orð bundin stund og stað – fólk þurfti að vera samtímis í sama rými. En með tilkomu síma, útvarps, sjónvarps og sérstaklega netsins og snjallsíma hefur þetta breyst. Nú tölum við um að sjást, hittast, halda fundi o.s.frv. með hjálp tækninnar og þurfum ekki að vera í sama rými – og jafnvel ekki endilega á sama tíma. Mörgum finnst samt nauðsynlegt að greina þarna á milli – taka t.d. fram hvort við ætlum að koma saman á tilteknum stað til að halda fund, eða vera hvort/hvert á sínum stað og halda netfund. Hvernig gerum við þann mun?

Í ensku er sambandið in person notað í þessum tilgangi – það vísar þá til þess að fólk kemur saman í raunheimum. Í íslensku hefur samsvörunin í persónu verið tekin upp í sama tilgangi. Enska sambandið merkir raunar líka 'persónulega' og sú er merkingin í elstu dæmum sem ég finn um í persónu. Í viðtali við Björk Guðmundsdóttur í Helgarpóstinum 1995 segir: „Á Íslandi þekkja mig allir í persónu.“ Sama merking er í „þegar maður hittir hann í persónu er hann ósköp venjulegur gaur“ í Morgunblaðinu 2000, og oft í minningargreinum – „þó að þú sért ekki hjá mér í persónu“ í Morgunblaðinu 1997, „þó að þú verðir ekki hér í persónu“ í Morgunblaðinu 1999, „Ég fékk ekki að kynnast þér í persónu“ í Morgunblaðinu 2000, o.fl.

En svo fara að koma dæmi þar sem í persónu er andstæða við með stafrænum hætti eða eitthvað slíkt. Í Monitor 2011 segir: „Hvort er hún skemmtilegri á netspjallinu eða í persónu?“ Í Fréttablaðinu 2012 segir: „Jingjun Xu setti nemendunum það fyrir að reyna að selja hlutabréf með mismunandi hætti, í persónu, í síma, með myndspjalli eða með því að senda textaskilaboð.“ Í Morgunblaðinu 2019 segir: „Er tölvan tekin fram yfir að hitta vini í persónu?“ Í Morgunblaðinu 2020 segir: „Að öðrum kosti þurfi fólk að mæta í persónu til að endurnýja.“ Stundum mætti setja persónulega í stað í persónu en þó ekki alltaf, t.d. varla í setningunni „Hann segist bæði spila á vefnum og í persónu“ í Morgunblaðinu 2010.

En með tilkomu covid-19 snemma árs 2020 dró mjög úr beinum samskiptum fólks augliti til auglitis og netsamskipti jukust að sama skapi, og við það margfaldaðist notkun sambandsins í persónu. Jafnframt virðist merkingarsvið þess hafa víkkað og þó að ég sé farinn að venjast því hnykkti mér við í morgun þegar ég sá frétt á vef Ríkisútvarpsins þar sem fjallað var um breytt útlit EM-stofunnar og birtar tvær myndir, önnur með textanum „Svona lítur stofan út í útsendingu“ en undir hinni stóð „Svona lítur stofan út í persónu.“ Þarna er ljóst að sambandið í persónu hefur rofið tengslin við orðið persóna og er farið að merkja 'í raun' – nema hugmyndin hafi verið að persónugera stofuna þarna sem mér finnst ekki líklegt.

En þótt sambandið í persónu eigi sér ekki langa sögu í íslensku gegnir öðru máli um sambandið í eigin persónu. Það hefur tíðkast a.m.k. síðan á seinni hluta 19. aldar og er væntanlega komiðúr dönsku, i egen person. Það stendur iðulega með sjálfur og gegnir oft því hlutverki að leggja áherslu á að um viðkomandi sjálfan / sjálfa / sjálft er að ræða en ekki fulltrúa hans / hennar / háns. Í Eimreiðinni 1902 segir: „Þetta barst prófastinum til eyrna og kom hann sjálfur í eigin persónu til að vera við prófið.“ Í Morgunblaðinu 1990 segir: „Wynette afhendir verðlaunin í eigin persónu í samkvæmi, sem haldið verður henni til heiðurs.“ Í Morgunblaðinu 2010 segir: „Þakið rifnar svo af Háskólabíói þegar Maxímús birtist loks á sviðinu í eigin persónu.“

Þótt orðið persóna sé upphaflega tökuorð í íslensku kemur það fyrir þegar í fornu máli og er vitanlega fyrir löngu orðið fullgilt íslenskt orð. En sambandið í persónu í þeirri merkingu sem hér hefur verið lýst er tekið úr ensku og á sér ekki hefð í málinu. Það er hins vegar ekki hægt að benda á eitthvert eitt orðalag sem hægt væri að nota í staðinn. Eins og áður segir væri oft hægt að nota persónulega, en stundum jafnvel sjálfur / sjálf / sjálft. Einnig mætti oft segja í raunheimi / raunheimum, í raunveruleikanum eða í raun. En svo kemur líka til greina að leita ekki að neinum staðgenglum heldur taka bara sambandinu í persónu fegins hendi og reyna að venjast því þrátt fyrir upprunann. Það verðum við bara að meta hvert fyrir sig.