Vöplur

Vöfflur hafa lengi verið vinsælt kaffibrauð á Íslandi og eru enn. Elsta dæmi um orðið er í Einföldu matreiðslu-vasakveri fyrir heldri manna húsfreyjur sem gefið var út árið 1800 og eignað Mörtu Maríu Stephensen en almennt talið eftir Magnús Stephensen mág hennar: „Vøfflur eru tilbúnar af Hveitimjøli.“ Elsta dæmið á tímarit.is er frá 1892 en orðið virðist ekki sérlega þekkt um aldamótin og þarfnast skýringar – í ritdómi í Nýju öldinni 1899 segir, í upptalningu á villum: „„vafla“ á líklega að vera „vaffla“ (útl. nafn á köku).“ Orðið er væntanlega komið af vaffel í dönsku en á upphaflega rætur í hollensku eins og Haraldur Bernharðsson hefur rakið skilmerkilega í grein í afmælisriti Guðrúnar Ingólfsdóttur, 38 vöplur.

Í titli þess rits er notuð myndin vöplur, einnig oft skrifuð vöpplur, enda er enginn framburðarmunur á pl og ppl. Rithátturinn vapla er mun eldri – elsta dæmi um hann er í Þjóðólfi 1910: „Nýar kleinur, vöplur og pönnukökur fást keyptar á Klapparstíg 4.“ Dæmi um samsetninguna vöplujárn er þó heldur eldra – úr Auglýsingablaðinu 1903. Rithátturinn vappla sést fyrst í Vísi 1945: „sem skafinn var yfir lummurnar, pönnukökurnar og vöpplurnar.“ Á seinustu áratugum virðist sá ritháttur hins vegar nær einhafður og hinn sést varla nema í áðurnefndum titli. Ég mæli með rithættinum vapla vegna þess að hann er eldri og pl er mun algengara en ppl, auk þess sem mér finnst almennt rétt að nota frekar færri bókstafi en fleiri.

Heimildir um myndina vapla eru fáskrúðugar. Í áðurnefndri grein Haraldar Bernharðssonar kemur fram að nokkur dæmi séu um hana í talmálssafni Orðabókar Háskólans frá því um 1980. Haraldur segir þau benda til að þessi mynd hafi verið nokkuð útbreidd en e.t.v. verið algengust í máli Norðlendinga, og hafi líklega „hopað nokkuð í seinni tíð“. Á tímarit.is eru um 30 dæmi um þessa mynd, ýmist með pl eða ppl. Í Norðurslóð 2006 eru birt nokkur orð og orðasambönd „sem Kristján Eldjárn heyrði í æsku og skráði hjá sér“. Meðal þess er „Vappla, vöpplur – vöfflur, ætíð borið þannig fram“. Á annan tug dæma frá þessari öld er um myndina vöpplur á tímarit.is en það er athyglisvert að nær öll dæmin eru úr minningargreinum.

Þar er orðið vöpplur oftast haft innan gæsalappa og stundum skýrt sérstaklega. Í Morgunblaðinu 2001 segir: „Á meðan heilsan leyfði bauðstu oftast upp á eitthvert bakkelsi og oftar en ekki „vöpplur“, ekki vöfflur.“ Í Morgunblaðinu 2011 segir: „Aldrei fór neinn maður þaðan svangur, því ávallt voru „vöpplur“ eins og þú sagðir alltaf, smurbrauð og annað fínerí lagt á borð.“ Í Morgunblaðinu 2012 segir: „„Fáið ykkur vöpplur krakkar mínir,“ sagðir þú í hvert skipti sem við komum til þín.“ Í sama blaði sama ár segir: „Hún elskaði súkkulaði og önnur sætindi, bakaði dýrindis smákökur, pönnukökur og „vöpplur“ meðan hún gat.“ Meirihluti þeirra sem um er skrifað er frá Norðurlandi, en einnig er þar fólk úr Borgarfirði og af höfuðborgarsvæðinu.

Oftast eru það barnabörn sem skrifa þessar minningargreinar og augljóst að þeim hefur fundist þessi framburður sérkennilegur og gamaldags og nefna hann þess vegna. Þetta sýnir glöggt að þessi framburður er að hverfa – sem er skaði. Haraldur Bernharðsson bendir á að með því að breyta vaffla í vapla sé orðið lagað betur að íslensku hljóðkerfi og segir að „myndin vaffla, ft. vöfflur sýni erlendan uppruna sinn í hljóðastrengnum [fl] sem annars er sjaldgæfur í íslensku. […] Á hinn bóginn er myndin vap(p)la, ft. vöp(p)lur betur löguð að hljóðkerfi íslenskunnar […] Frá sjónarhóli íslenskrar tungu má því ef til vill segja að vöp(p)lur fari betur í munni en vöfflur.“ Ég ólst upp við vöplur í Skagafirði en lagði þann framburð af – en hef nú tekið hann upp aftur.