Í gegnum tíðina
Stundum hefur verið amast við því að nota gegnum eða í gegnum í vísun til tíma. Í bæklingnum Gott mál eftir Ólaf Oddsson segir: Algengt er orðalagið „gegnum aldirnar,“ en betra er: um aldir.“ Gísli Jónsson er á sömu slóðum í Morgunblaðinu 1983: „Í staðinn fyrir að segja gegnum aldirnar er hægt að komast að orði á margan laglegri hátt: Öldum saman, öld eftir öld, í aldanna rás o.s.frv.“ Síðar sama ár sagði hann í Morgunblaðinu: „[M]ér þykir „gegnumtal“ í þessari merkingu ekki fallegt.“ Í Morgunblaðinu 1985 hnykkir Gísli á þessu og segist hafa verið hvattur til „að ítreka aðfinnslur vegna þess málfars, þegar (í) gegnum er haft til að tákna tímamerkingu, svo sem (í) gegnum tíðina, gegnum árin eða gegnum aldirnar. Ég geri þetta fús […].“
Gísli taldi þarna vera „um að ræða óholl áhrif frá ensku (through) og dönsku (igennem)“. Í Íslenskri orðabók er sambandið gegnum árin (aldirnar) skýrt 'í áranna (aldanna) rás' og merkt ?? sem táknar „framandorð sem vafi leikur á hvort talist getur íslenskt, sletta“. Vissulega er þetta líkt dönsku, gennem årene eða gennem tiden, og væntanlega er grunur um dönsk áhrif ástæðan fyrir því að þetta orðalag hefur iðulega sætt gagnrýni. En eins og Jón G. Friðjónsson hefur bent á kemur svipað orðalag fyrir í fornu máli, t.d. þeir berjast allan dag í gegnum sem merkir einfaldlega 'allan daginn' og kona hans sat hjá og grét alla nótt í gegnum sem merkir 'alla nóttina'. Báðar þessar setningar koma fyrir í handritum frá 13. öld.
Vissulega er merkingin eilítið önnur þarna og orðaröðin önnur en í nútímamáli – í gegnum kemur á eftir tímatilvísuninni en ekki á undan eins og nú. En það breytir því ekki að þarna er í gegnum notað í tilvísun til tíma og sambönd eins og gegnum aldirnar og gegnum árin hafa tíðkast í a.m.k. 150 ár. Alls eru tæp sex þúsund dæmi um gegnum aldirnar á tímarit.is, það elsta í Gefn 1873: „þær hafa varðveitt þjóðerni vort óraskað í gegnum aldirnar.“ Sambandið varð algengara eftir 1980. Dæmin um gegnum árin eru 38 þúsund, það elsta í kvæði eftir Gest Pálsson í Ísafold 1874: „einsog hetja stóðstu styrk / straumhörð gegnum árin myrk.“ Sambandið var sjaldgæft fram um miðja 20. öld en tíðni þess jókst mjög upp úr 1970 og einkum eftir 1980.
Sambandið (í) gegnum tíðina er dálítið sér á báti. Það er mun yngra í málinu en hin samböndin en þó langalgengast þeirra, hátt í 50 þúsund dæmi á tímarit.is, það elsta í Skemmtiblaðinu 1921: „En Róbert synnti gegnum tíðina í rólegheitum, án þess að láta sig nokkru skifta listamannsstörfin.“ Næst kemur sambandið fyrir í tilvitnun í Halldór Laxness í Alþýðublaðinu 1967 og svo í grein eftir Halldór í Tímariti Máls og menningar 1968: „Mart hefur verið ritað og rætt um málið gegnum tíðina.“ En árið 1972 kom út viðtalsbók Matthíasar Johannessen við Halldór, Skeggræður gegnum tíðina, og árið 1977 gaf hljómsveitin Mannakorn út plötuna Í gegnum tíðina. Upp úr þessu og einkum eftir 1980 jókst notkun sambandsins gífurlega.