Þau eru áhugasamt

Sumt fólk skilgreinir sig utan kynjatvíhyggjunnar og vill því ekki láta nota um sig fornöfnin hann og hún. Hvorugkynsfornafnið það er óheppilegt í vísun til fólks og þess vegna var búið til fornafnið hán (og reyndar fleiri fornöfn) til að nota í staðinn. Í stað þess að nota hán eða eitthvert annað nýtt fornafn kjósa sum þó fremur að nota hvorugkynsmyndina þau um sig sjálf – láta fleirtölumyndina sem sé hafa eintöluvísun. Væntanlega er þetta að erlendri fyrirmynd – í ensku á notkun they í eintölumerkingu sér langa sögu, jafnvel allt aftur á 14. öld, og nýtur sífellt meiri viðurkenningar. Það er notað þegar kyn þeirra sem vísað er til er óþekkt, skiptir ekki máli, eða er ekki gefið upp og eins í vísun til þeirra sem skilgreina sig hvorki karlkyns né kvenkyns.

Einhverjum kann að finnast það fráleitt að nota fleirtölumyndina þau í eintölumerkingu á þennan hátt, og vissulega á það sér ekki hefð í málinu. En þó er rétt að hafa í huga að mjög sambærileg fornafnanotkun tíðkaðist til skamms tíma í formlegu og upphöfnu máli, og sést stöku sinnum enn. Hér á ég við þéringar, þar sem myndin þér er notuð bæði í eintölu og fleirtölu annarrar persónu – þér eruð vinur minn og þér eruð vinir mínir. Orðmyndin þér er upphaflega önnur persóna fleirtölu (þið var upphaflega aðeins tvítala) og hagar sér að sumu leyti þannig enn, jafnvel þegar hún hefur eintöluvísun – tekur ævinlega með sér sögn í annarri persónu fleirtölu. Við segjum þér er vinur minn en alls ekki *þér ert vinur minn.

Orðið vér sem einnig er upphaflega fleirtala í fyrstu persónu (við var upphaflega aðeins tvítala) var notað á svipaðan hátt í formlegu máli. Meðan Ísland hafði kóng hófust konunglegar tilskipanir eitthvað á þessa leið: „Vér Kristján konungur hinn tíundi af guðs náð konungur Íslands og Danmerkur.“ Kristján Eldjárn forseti Íslands 1968-1980 notaði líka yfirleitt vér – vissulega oftast í fleirtöluvísun. Eins og þér tók vér alltaf með sér fleirtölumynd sagnar hvort sem vísimiðið var í eintölu eða fleirtölu – vér erum en alls ekki *vér er. En ef orðin tóku með sér lýsingarorð eða lýsingarhátt sem sagnfyllingu var tala hennar á reiki. Það var ýmist sagt þér eruð kominn eða þér eruð komnir, vér erum viss um eða vér erum vissir um, o.s.frv.

Þegar fleirtölumyndin þau er notuð í eintöluvísun kemur upp sú spurning hvernig eigi að fara með sögn sem stendur með henni – og sagnfyllingu, ef því er að skipta. Á að hafa bæði sögn og sagnfyllingu í fleirtölu og segja t.d. þau eru áhugasöm, hafa sögnina í fleirtölu en sagnfyllinguna í eintölu og segja þau eru áhugasamt, eða hafa hvort tveggja í eintölu og segja þau er áhugasamt? Ég held að önnur leiðin sé heppilegust – vissulega felst málfræðilegt ósamræmi milli sagnar og sagnfyllingar í henni en það er þó ekkert einsdæmi, heldur hliðstætt því sem tíðkaðist í þéringum eins og áður segir. En meginatriðið er þó að þau sem nota þau á þennan hátt fái sjálf að ákveða hvernig þeim finnst heppilegast að hafa þetta.

Auðvitað getur fólk hneykslast á þessu eins og því sýnist og sagt að þau sé fleirtala og það sé ekkert hægt að gefa fleirtölumynd eintöluvísun á þennan hátt – það sé misþyrming á málinu. Þá má minna á hliðstæðuna við þéringar, þótt vissulega megi halda því fram að þrátt fyrir að þessi notkun þau sé formlega svipuð þéringum sé hún gerólík í eðli sínu vegna þess að þéringar hafi þróast af sjálfu sér í málinu en notkun þau í eintölumerkingu sé „handstýrð“ breyting. En þá er mikilvægt að hafa í huga að fyrir sumum er þetta hjartans mál – snýst um sjálfsmynd þeirra og stað þeirra í tungumálinu. Mér finnst æskilegast að bíða átekta, leyfa þessari notkun að hafa sinn gang og sjá hvernig hún þróast. Umburðarlyndi og tillitssemi er mikilvægt sem endranær.