Slagorð eða vígorð?
Nýlega var breytt orðalag í auglýsingum um drykkinn Kristal hér til umræðu. Í fréttum um þetta var alltaf notað orðið slagorð – „Ölgerðin breytir slagorði Kristals“ í Viðskiptablaðinu og „Ölgerðin breytir slagorðinu fyrir Kristal“ í Vísi. En slagorð hefur ekki alltaf þótt góð íslenska. Í Morgunblaðinu 1989 sagði Jón Aðalsteinn Jónsson: „Mörgum hefur verið heldur í nöp við þetta orð, sem hefur smeygt sér óbreytt inn í mál okkar úr dönsku, en þangað komið úr þýzku, Schlagwort.“ Í Þjóðviljanum 1959 sagði Árni Böðvarsson: „Hins vegar er slagorð notað í heldur lélegu máli um það sem annars er venjulega nefnt kjörorð eða ef til vill heldur vígorð (það orð sem menn berjast undir).“ En er alltaf hægt að nota vígorð í staðinn fyrir slagorð?
Í Íslenskri nútímamálsorðabók er slagorð skýrt 'setning eða nokkur orð sem tjá kröfu eða markmið, einkunnarorð'. Elstu dæmi um þá merkingu orðsins í íslensku eru frá síðasta hluta 19. aldar. Í Þjóðólfi 1895 segir t.d.: „hann […] ber fyrir sig ýmisleg alþekkt „slagorð“, svo sem að röksemdir mínar séu „handhægar en léttvægar“. Eins og Jón Aðalsteinn bendir á voru framan af stundum notaðar gæsalappir „vafalaust sem afsökun fyrir notkun orðsins“. Í Þjóðólfi 1900 er annað orð notað til skýringar: „þótt menn litu þá mest á þetta »slagorð« eða einkunnarorð: »öfluga peningastofnun í landinu«“. Notkun orðsins slagorð jókst töluvert á fyrsta fjórðungi tuttugustu aldar en ýmsum þótti það ekki nógu góð íslenska og vildu finna betra orð.
Í bókinni Alþjóðamál og málleysur segir Þórbergur Þórðarson að Hallbjörn Halldórsson prentari hafi búið til „orðið vígorð fyrir hálfdanska orðið slagorð“. Jón Aðalsteinn segir: „Hefur hann þar haft í huga so. að vega í merkingunni að ráðast á e-n með orðum.“ Elsta dæmi um vígorð er í Alþýðublaðinu 1923: „Í kauplækkunarhamförum atvinnurekenda um þessar mundir er það haft að vígorði, að dýrtíðin verði að minka.“ Í byrjun var vígorð stundum haft innan gæsalappa en komst þó fljótt í mikla notkun. Þrátt fyrir það var slagorð alla tíð meira notað og á síðustu árum hefur dregið sundur með orðunum – í Risamálheildinni er hálft fimmtánda þúsund dæmna um slagorð en aðeins rúm 500 dæmi um vígorð sem virðist því á útleið.
„Ýmsum finnst þetta orð ekki henta alls staðar“ sagði Jón Aðalsteinn um vígorð, og má það til sanns vegar færa – það getur átt við t.d. í stjórnmálabaráttu en slagorð hefur miklu víðtækari merkingu og er t.d. mikið notað í hvers kyns auglýsingum eins og nefnt var í upphafi. Jón Aðalsteinn heldur áfram: „en þá má nota í staðinn orð eins og einkunnarorð eða kjörorð, svo sem gert er í orðabókum“. Vissulega er það oft hægt, en slagorð hefur löngu unnið sér hefð og er fullgilt íslenskt orð þrátt fyrir erlendan uppruna sinn. Í fyrri útgáfum Íslenskrar orðabókar er það merkt með ? sem táknar „vont mál, orð eða merking sem forðast ber í íslensku“ en í þriðju útgáfu bókarinnar er það gefið athugasemdalaust, sem og í Íslenskri nútímamálsorðabók.