Að setja í sig hrygg

Fyrir nokkrum dögum stóð á vef Mannlífs: „Reiknað er með að lögreglan setji í sig hrygg og málum sem snúa að þessum ofsóknum verði hraðað.“ Sambandið setja í sig hrygg er mjög óvenjulegt og því ekki undarlegt að það hafi verið til umræðu í hópunum Skemmtileg íslensk orð og Málvöndunarþátturinn. Þótt flestum þætti nokkuð ljóst af samhengi hvað sambandið merkir þarna – 'taka á sig rögg', 'gyrða sig í brók' – sagðist aðeins einn þátttakandi í umræðunum kannast við það. Nefnt var að þetta væri líklega komið úr ensku þar sem bæði grow a spine og grow a backbone er til í svipaðri merkingu – oftast í boðhætti. Þau sambönd eru reyndar oft talin móðgandi sem ekki er endilega ljóst að sé í þessu tilviki.

Í umræðum í Málvöndunarþættinum benti Einar Ólafsson á að eitt dæmi er um þetta orðasamband á tímarit.is. Það er frá Guðlaugi Gíslasyni alþingismanni sem skrifaði í Fylki 1977: „Eg held, að hann ætti nú að setja í sig hrygg, eins og Áki á bæjarskrifstofunum kemst stundum svo skemmtilega að orði“ – sá sem um er rætt er Vestmannaeyingur. Dæmið úr Mannlífi er frá Reyni Traustasyni ritstjóra vefsins sem hefur notað sambandið áður og hefur það eftir manni frá Flateyri: „Ef drífa þurfti í einhverjum málum talaði hann um að „setja í sig hrygg“. Þetta er ágætis orðatiltæki sem ég hef síðan tileinkað mér.“ Þarna eru sem sé komin dæmi um þetta orðasamband úr tveimur ólíkum áttum, frá Vestmannaeyjum og Flateyri.

Auðvitað er samt hugsanlegt að þar séu einhver tengsl á milli, en jafnframt er ljóst að þetta er ekki dæmi um nýlega yfirfærslu ensks orðasambands heldur hálfrar aldar gamalt hið minnsta. Vissulega getur verið að sambandið hafi orðið til með hliðsjón af áðurnefndum enskum orðasamböndum en ekki er heldur óhugsandi að um sé að ræða innlenda smíð þar sem notuð er svipuð líking og í ensku. Sambandið vaxa fiskur um hrygg sem merkir 'eflast', 'vaxa ásmegin' er auðvitað vel þekkt og viðurkennt og gæti hafa orðið kveikjan að setja í sig hrygg enda merkingin ekki ósvipuð. Mér finnst a.m.k. ekki ástæða til að afgreiða þetta samband sem eitthvert rugl eins og oft er gert með sambönd sem fólk kannast ekki við.