Að eiga erfiðu gengi að fagna

Orðasambandið eiga/hafa gengi að fagna hefur tíðkast í málinu a.m.k. síðan seint á 19. öld. Venjulega stendur eitthvert lýsingarorð á undan gengi, oftast góðu – af 3.400 dæmum um sambandið á tímarit.is eru nærri tvö þúsund um góðu gengi. En ýmis önnur lýsingarorð koma þó fyrir, og í Málvöndunarþættinum var nýlega vakin athygli á því að í íþróttafrétt hefði verið talað um að eiga erfiðu gengi að fagna. Málshefjanda fannst sérkennilegt að nota sögnina fagna sem venjulega merkir 'gleðjast yfir (e-u), kætast vegna (e-s)' í þessu samhengi því að erfitt gengi gæti varla verið gleðiefni. En þetta er þó fjarri því að vera einsdæmi, og sýnir vel þann mun sem getur verið á grunnmerkingu orða og merkingu þeirra í föstum orðasamböndum.

Elsta dæmi um sambandið á tímarit.is er í Ísafold 1877: „hún hefir, og það að miklu leyti ómaklega, átt allt of litlu gengi að fagna.“ Þetta þarf þó ekki að skilja þannig að verið sé að fagna því hversu gengið er lítið, heldur á væntanlega að skilja það þannig að allt of lítið sé til að gleðjast yfir. Sama gildir væntanlega um önnur dæmi um litlu gengi að fagna sem eru um 90 á tímarit.is, sem og dæmi eins og engu gengi að fagna, ekki miklu gengi að fagna og fleiri svipuð. Sambandið er reyndar fremur sjaldgæft fram undir miðja 20. öld en í flestum eða öllum dæmum um það á þeim tíma virðist sögnin fagna vera notuð í bókstaflegri merkingu. En upp úr 1940 fóru neikvæð lýsingarorð smátt og smátt að sjást með gengi, einkum þó eftir 1980.

Nokkur dæmi: Í Helgafelli 1942 segir: „Því að þótt þessar hugsjónir hafi jafnan átt misjöfnu gengi að fagna í lífi þjóða og einstaklinga […]“. Í Akranesi 1948 segir: „ýmsar aðrar fiskitegundir og veiðar, eiga minnkandi gengi að fagna.“ Í Morgunblaðinu 1970 segir: „Stjórnmálaflokkar eiga mismunandi gengi að fagna, meðbyr og mótbyr.“ Í DV 1981 segir: „FH-liðið hefur átt skrykkjóttu gengi að fagna undanfarin ár.“ Í Tímanum 1984 segir: „West Ham, sem hefur átt rysjóttu gengi að fagna undanfarið.“ Í Eyjafréttum 1986 segir: „við höfum unnið mikið af æfingaleikjum, en átt lélegu gengi að fagna í Íslandsmóti á eftir.“ Í Morgunblaðinu 1988 segir: „Fram átti frekar slæmu gengi að fagna á síðasta keppnistímabili.“

Eins og dæmin benda til er þetta einkum algengt í íþróttafréttum og þar má líka finna dæmi eins og vitnað var til í upphafi – „Bournemouth byrjaði tímabilið í deildinni vel en hefur átt erfiðu gengi að fagna síðustu vikur“ segir t.d. í Vísi 2018. Það er því ljóst að í máli margra hefur sögnin fagna glatað grunnmerkingu sinni í þessu sambandi og eiga gengi að fagna merkir einfaldlega 'ganga' – eiga góðu gengi að fagna merkir 'ganga vel'. Á sama hátt merkir eiga lélegu/erfiðu gengi að fagna einfaldlega 'ganga illa' en vísar ekki á neinn hátt til þess að hið lélega gengi sé sérstakt fagnaðarefni. Notkun neikvæðra lýsingarorða í sambandinu sýnir að á síðustu hálfri öld eða svo hefur eiga gengi að fagna orðið að föstu orðasambandi og tíðni þess margfaldast.

Það er ljóst að það er fjarri því að vera einsdæmi að orð glati grunnmerkingu sinni í föstum orðasamböndum. Þvert á móti – það er einmitt eitt af einkennum fastra orðasambanda að merking þeirra er ekki summa eða fall af merkingu orðanna í sambandinu, heldur hefur sambandið ákveðna merkingu sem heild. Þetta er hliðstætt sambandinu eiga von á sem iðulega vísar til einhvers óæskilegs enda þótt orðið von út af fyrir sig sé vitanlega jákvætt. Fólk getur haft mismunandi skoðanir á þessari þróun sambandsins eiga gengi að fagna en á hana er augljóslega komin hefð. Hitt er samt annað mál að sambandið er dálítil klisja sem vel má halda fram að sé ofnotuð. Oft færi betur að segja einfaldlega liðinu hefur gengið illa síðustu vikur.