Öráreitni?
Í dag og undanfarið hefur töluvert verið rætt hér um athugasemdir sem gerðar eru við „ófullkomna“ íslensku fólks sem er að læra málið. Sum þeirra sem taka þátt í umræðunni segjast þekkja slíkar athugasemdir vel en önnur segjast ekkert kannast við slíkt þrátt fyrir að umgangast innflytjendur mikið. Í sjálfu sér þarf þetta ekkert að vera óeðlilegt – auðvitað eru aðstæður misjafnar, við umgöngumst ekki öll sama eða sams konar fólk og reynsla okkar getur því verið ólík í þessu efni eins og öðrum. Það er samt athyglisvert að Íslendingar virðast sjaldnast kannast við athugasemdir af þessu tagi en innflytjendur þekkja þær yfirleitt vel. Þótt ég geti auðvitað ekki fullyrt neitt um þetta grunar mig að þessi munur sé ekki tilviljun.
Mér finnst mun líklegra að þarna sé iðulega um að ræða öráreitni sem við sem eigum íslensku að móðurmáli tökum ekki eftir, af því að við verðum ekki fyrir henni. „Öráreitni er hugtak sem notað er yfir hversdagslegar athafnir, athugasemdir eða umhverfisþætti sem eru niðrandi eða niðurlægjandi fyrir fólk sem tilheyrir jaðarsettum hópum og eiga sinn þátt í jaðarsetningu þess“ segir á vefnum Hinsegin frá Ö til A. Oft eru þetta góðlátlegar athugasemdir eða grín sem ekki er illa meint en verkar samt stuðandi á fólk sem fyrir því verður þótt öðrum finnist það jafnvel krúttlegt. Vissulega má gæta þess að lenda ekki í ofurviðkvæmni hvað þetta varðar en það skiptir máli að við hugum að því hvernig við bregðumst við frávikum í máli innflytjenda.