Að blóta þorra – í þolfalli eða þágufalli

Þótt þorrablót séu gömul var ekki farið að nota sambandið blóta þorra fyrr en nýlega – elsta dæmi um það er í Tímanum 1954: „Eyfirðingafélagið í Reykjavík hefir jafnan haldið við hinum þjóðlega sið, er mjög tíðkaðist heima í héraði, að blóta þorra.“ Í Morgunblaðinu sama ár segir: „Blótaður verður þorri í „þurrki““ og „Senn er þorri á enda. Taka menn nú að blóta hann.“ Orðið þorri er eins í öllum aukaföllum og fallið sést því ekki í sambandinu blóta þorra en dæmið blóta hann sýnir að um þolfall er að ræða. Sama gildir um þolmyndina, blótaður verður þorri – germyndarandlag í þolfalli fær nefnifall þegar það er gert að frumlagi í þolmynd, en ef þorri stæði í þágufalli í blóta þorra ætti fallið að haldast í þolmynd sem yrði þá þorra blótað.

Slík dæmi eru reyndar til, það elsta í Degi 1963: „Enn er þorra blótað að fornum sið.“ Í fyrirsögn í Vísi 1965 segir: „Blótað þorra í Glasgow.“ Athyglisverð dæmi eru í auglýsingu frá Ferðafélagi Íslands 1976. Í Þjóðviljanum segir: „Þorri blótaður í Þórsmörk“ en í öðrum blöðum stendur „Þorra blótað í Þórsmörk“. Þarna er trúlegt að prófarkalesari Þjóðviljans hafi breytt setningunni. Töluvert má finna af hliðstæðum þolmyndardæmum en einnig koma fyrir fáein germyndardæmi þar sem ákveðinn greinir sýnir að um þágufall er að ræða, það elsta í Fréttum – Eyjafréttum 1991: „Enda Austfirðingar að blóta þorranum.“ Í Bæjarins besta 1995 segir: „Undanfarnar tvær vikur hafa fjölmargir landsmenn haldið við þeim gamla sið að blóta þorranum.“

Sögnin blóta merkti í fornu máli 'dýrka' eða 'fórna', en merkingin 'formæla' bættist síðar við – trúlegt er „að kristnum mönnum hafi þótt það athæfi heiðingja að blóta goð ófagurt“ segir Jón G. Friðjónsson. Í Málfarsbankanum segir: „Merki sögnin dýrka stýrir hún þolfalli: blóta þorrann, goðin. Merki hún hins vegar fórna eða formæla stýrir hún þágufalli: blóta dýri til árs og friðar; blóta einhverju í sand og ösku.“ En af hverju í ósköpunum ætti fólk að dýrka þorrann? Hann var löngum erfiður – talað er um að þreyja þorrann og hann „gefur grið ei nein“, „engri skepnu eirir“ o.s.frv. Það er eðlilegra að líta svo á að um sé að ræða merkinguna 'fórna' – blóta þorra merkir þá 'færa þorranum fórnir' til að blíðka hann og þorra er þá þágufall en ekki þolfall.

Þegar blóta merkir 'fórna' vísar andlagið í nútímamáli yfirleitt til þess sem fórnað er, en „[í] fornu máli merkti orðasambandið blóta goðum 'færa goðum fórn' segir Jón G. Friðjónsson. Bæði í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 og Íslenskri orðabók kemur líka fram að í merkingunni 'fórna' geti sögnin tekið tvö þágufallsandlög – blóta einhverjum einhverju. Dæmi um þetta má finna í Dagsbrún 1896: „menn gátu ekki gert sér guðina hliðholla eður vinveitta með öðru en því, að blóta þeim dýrum eða mönnum.“ Í blóta þorra má líta svo á að þorra svari til fyrra andlagsins – þorrinn er þiggjandi fórnarinnar. Þetta er hliðstætt því þegar seinna andlagi sagnarinnar gefa er sleppt – talað er um að gefa skepnum án þess að tilgreina hvað gefið er.

Eins og áður segir er sambandið blóta þorra ekki gamalt – frá því um miðja síðustu öld. Vitanlega var sögnin til með þolfalli í merkingunni 'dýrka' og því ekki óeðlilegt að þolfall væri oftast notað í þessu sambandi. Ekki er ólíklegt að tengsl þágufallsins við merkinguna 'bölva, formæla' hafi haft þau áhrif að fólk hafi forðast þágufall í blóta þorra til að koma í veg fyrir samfall við þá merkingu, þótt nú megi reyndar finna dæmi um að leikið sé með hana í auglýsingum og þorranum bölvað í sand og ösku („veldu helvítis, andskotans, djöfulsins Goða og Kjarnafæði“). Mér finnst samt eðlilegast að líta svo á að þarna sé um merkinguna 'fórna' að ræða og sé því ekkert athugavert við að blóta þorranum þótt þolfallið sé vitaskuld líka eðlilegt.