Misskilningur og rangfærslur um „ný-íslensku“

Á laugardaginn var birtist í DV greinin „Ný-íslenskan og hættur hennar“ eftir Sigmund Erni Rúnarsson. Megintilgangur greinarinnar er að andmæla breytingum á íslensku í átt til kynhlutleysis þótt Sigmundur viðurkenni að „vissulega megi gagnrýna íslenska tungu fyrir að hafa verið full til karllæg í gegnum tíðina – og er þar líklega varlega að orði komist“. Vitanlega er Sigmundi frjálst að hafa sína skoðun á þessu og engin ástæða til að gera athugasemd við það. Hins vegar er eðlilegt að ætlast til að hann haldi sig við staðreyndir í umfjöllun sinni en á því er nokkur misbrestur. Meðal þess sem hann nefnir er „bannfæring karlkynsins“, að verið sé „að fækka kynjum í móðurmálinu“, „gera orð útlæg“ og breyta reglum um vísun persónufornafna.

Frasar eins og „bannfæring karlkynsins“ og „að fækka kynjum í móðurmálinu“ eru alveg út í hött. Auðvitað er ekki verið að bannfæra karlkynið, hvað þá fækka málfræðilegum kynjum – þau eru og verða þrjú. Málið snýst bara um að nota karlkyn í vísun til karla, kvenkyn í vísun til kvenna og hvorugkyn í vísun til kvára og kynjablandaðs hóps, sem og í almennri vísun þegar kyn fólks sem vísað er til er óþekkt. Þetta síðastnefnda er breyting, og Sigmundur er einn margra sem vilja halda í karlkynið sem „hlutlaust“ kyn, og það er auðvitað í góðu lagi. Ég á hins vegar ómögulegt með að sjá hvernig einhver „bannfæring karlkynsins“ felst í áðurnefndri breytingu, eða hvernig verið er að „fækka kynjum í móðurmálinu“ með henni. Það er rugl.

Það er ekki heldur verið að „gera orð útlæg“ þótt leitast sé við að nota önnur orð en maður og samsetningar af því í vísun til kynjablandaðra hópa, vegna þess hversu tengt karlmönnum orðið er í huga málnotenda, og nota frekar orð eins og manneskja og man og samsetningar með -fólk. Það er auðvitað í góðu lagi að vilja halda í orðið maður í almennri vísun en það er fráleitt halda því fram að stefnt sé að því að gera það „útlægt“ – það er vitanlega notað áfram í merkingunni ‚karlmaður‘ sem það hefur alltaf haft, auk almennu merkingarinnar. Einu orðin sem hafa verið gerð útlæg úr málinu eru niðurlægjandi orð eins og negri, kynvillingur, fáviti og önnur slík sem ég vona að við séum flest sammála um að séu ekki við hæfi í nútímanum.

Það er líka villandi að segja: „Persónufornöfn vísa ekki lengur til málfræðilegra persóna eins og reglur hafa kveðið á um. Og kenndar hafa verið í skólum.“ Þær „reglur“ eru tilbúningur að hluta og taka ekki tillit til þess að vísun fornafna hefur alla tíð getað verið bæði málfræðileg, innan tungumálsins, og þá er málfræðilegt samræmi notað, eða merkingarleg, út fyrir tungumálið, og þá er merkingarlegt samræmi notað. Við könnumst auðvitað öll við að notað sé hvorugkynið þau í vísun til karlkynsorða eins og foreldrar og krakkar – slík merkingarleg sambeyging á sér langa hefð í málinu og er t.d. algeng í einkabréfum frá seinni hluta 19. aldar og fyrri hluta þeirrar 20. eins og Guðrún Þórhallsdóttir hefur  sýnt fram á.

Saman við þetta er svo blandað alls óskyldum hlutum eins og þeim undarlegu fullyrðingum að „orðin klikkað og geðveikt virðast hafa leyst svo að segja öll önnur lýsingarorð af hólmi“ sem er fjarri sanni, og „Fjölbreytni tungumálsins er að víkja fyrir einsleitni“ sem engin rök eru fyrir. Svo er óskiljanlegt að segja „Er vilji til þess á meðal þjóðarinnar að láta réttritun lönd og leið?“ og „Eru gamlar stafsetningarreglur kannski bara barn síns tíma?“. Ég veit ekki til þess að nokkuð hafi verið amast við stafsetningarreglum nýlega. Sigmundur Ernir vill íslenskunni vitanlega vel, og engin ástæða til að gera lítið úr því. En jafnvel vel meint skrif verða að byggja á staðreyndum ef þau eiga að koma að gagni – annars geta þau verið til bölvunar.