Hvað þarf gamla fólkið að bíða lengi?
Í morgun var hér spurt út í fyrirsögnina „Hvað þarf gamla fólkið að bíða lengi?“ á mbl.is – hvers vegna hún væri ekki frekar „Hve lengi þarf gamla fólkið að bíða?“. Báðar setningarnar eru fullkomlega eðlileg íslenska en það er ekki undarlegt að fólk sem ekki á íslensku að móðurmáli verði hugsi þegar það sér setningu af þessu tagi. Þarna er nefnilega um að ræða setningagerð sem þekkist ekki í skyldum málum svo að ég viti, en er eðlileg og algeng í íslensku. Þar er atviksorð sem er ákvæðisorð með lýsingarorði eða öðru atviksorði rifið frá því og látið standa fremst í setningu. Í þessu tilviki er um að ræða spurnarorðið hvað (sem stendur sem atviksorð þarna þótt það sé venjulega spurnarfornafn) en ýmis önnur atviksorð geta hagað sér á sama hátt.
Þar er einkum um að ræða atviksorð sem eru löng og hafa sterka áherslumerkingu. Við segjum þetta er óskaplega leiðinlegt þar sem atviksorðið óskaplega er ákvæðisorð með lýsingarorðinu leiðinlegt, leggur áherslu á hversu leiðinlegt þetta sé. En við getum líka haft atviksorðið fremst í setningu og sagt óskaplega er þetta leiðinlegt – í sömu merkingu, þótt e.t.v. sé áherslan enn sterkari þarna. Á ensku er hægt að segja this is terribly boring en alveg útilokað að slíta atviksorðið frá lýsingarorðinu og segja *terribly is this boring eða *terribly this is boring. Á dönsku er hægt að segja det er forfærdeligt kedeligt en ekki *forfærdeligt er det kedeligt, og á þýsku er hægt að segja das ist schrecklich langweilig en ekki *schrecklich ist das langweilig.
Á sama hátt getum við sagt bæði í gær var rosalega gaman og rosalega var gaman í gær, þetta er ferlega fúlt og ferlega er þetta fúlt, ég þekkti ótrúlega margt fólk á tónleikunum og ótrúlega þekkti ég margt fólk á tónleikunum, o.s.frv. En stutt atviksorð, eins og mjög, er yfirleitt ekki hægt að slíta frá lýsingarorðinu sem þau standa með í nútímamáli – við getum ekki sagt *mjög er þetta leiðinlegt eða *mjög var gaman í gær. Þetta var aftur á móti hægt í fornu máli – „Mjög var Auður þá elligömul“ segir t.d. í Grettis sögu. En það er örugglega misjafnt hvað málnotendum finnst ganga í þessu efni. Mér finnst t.d. hæpið að slíta verulega frá lýsingarorði, en finn þó nokkur dæmi um það – í DV 1986 segir t.d.: „Verulega er þetta bagalegt fyrir Jakob.“
Svo að komið sé aftur að upphaflegu spurningunni er það rétt að búast mætti við hve(rsu) lengi þarf gamla fólkið að bíða? þar sem spurnaratviksorðið hve eða hversu er ákvæðisorð með atviksorðinu lengi, og spurnarliðurinn í heild, hve(rsu) lengi, stendur fremst í setningu. Það er ekki hægt að slíta slíkan lið sundur – * hve(rsu) þarf gamla fólkið að bíða lengi? er alveg útilokað. En ef hvað er notað í stað hve(rsu) gengur þetta vel. Á sama hátt er hægt að nota mikið í stað mjög fremst í setningu og segja eins og Lilli klifurmús, Mikið er það sorglegt að refir skuli ekki geta klifrað í trjám og Mikið held ég að þær séu góðar þótt útilokað sé að segja *Mjög er það sorglegt að refir skuli ekki geta klifrað í trjám og *Mjög held ég að þær séu góðar.