Posted on Færðu inn athugasemd

Úrslit Skólahreystis

Í dag var hér vakin athygli á því að orðið hreysti hefði verið notað í hvorugkyni í frétt á vef Ríkisútvarpsins. Þar segir: „Og á hverjum einasta fasa í minni endurhæfingu er manneskja sem er í andlega hreystinu líka“ og „Inga áttaði sig á því að það var ekki nóg að huga að líkamlegu hreysti heldur þurfti að huga að því andlega líka“. Orðið hreysti er upphaflega – og venjulega – kvenkynsorð en orð með þessa stofngerð gæti út af fyrir sig eins verið hvorugkynsorð. Orðið háreysti sem hefur sömu stofngerð og er myndað með i-hljóðvarpi af raust á sambærilegan hátt og hreysti af hraust(ur) er frá fornu fari til bæði í kvenkyni og hvorugkyni þótt eingöngu kvenkynið sé gefið upp í Íslenskri nútímamálsorðabók enda líklega yfirgnæfandi í nútímamáli.

Kvenkynsorðið hreysti er eins í öllum föllum eintölu – fleirtala er ekki notuð af merkingarlegum ástæðum. Í hvorugkyni fá orð af þessu tagi -s-endingu í eignarfalli en eru eins í nefnifalli, þolfalli og þágufalli. Þar af leiðir að mjög oft er ekki hægt að sjá hvort orðið er í kvenkyni eða hvorugkyni. Það gildir t.d. um setningar eins og „Dugnaður og hreysti ásamt ódrepandi seiglu eru þar ofarlega á blaði“ í Morgunblaðinu 2020, „Hún vekur hvarvetna athygli fyrir geislandi fegurð og hreysti“ í Fréttablaðinu 2020, „Útivera stuðlar að betri heilsu; lýðheilsu, geðheilbrigði og hreysti“ í Fréttablaðinu 2021, „Því er ætlað að efla hreysti, lífsfyllingu, félagsleg tengsl og virkni fólks á þriðja æviskeiði“ í Fréttablaðinu 2022, o.s.frv.

Til að hægt sé að sjá í hvaða kyni orðið er haft þarf það því að vera í eignarfalli, með greini, eða taka með sér ákvæðisorð – lýsingarorð eða fornafn. Fáein dæmi um að þessi atriði beri vitni um hvorugkyn má finna á tímarit.is. Í Morgunblaðinu 1947 segir: „Aðalhlutverkið leikur hinn karlmannlegi og djarfi Massimo Derotti, sem vegna afl[s] og hreystis er nefndur Ítalski Tarzan.“ Í Foringjanum 1976 segir: „Það er keppt bæði í verklegum og bóklegum greinum, auk líkamlegs hreystis.“ Í Víkurfréttum 1994 segir: „Sigrún, sem sjálf er hreystið uppmálað, hvetur fólk til að auka hreyfinguna og borða rétt.“ Í Degi 1999 segir: „Við sáum fyrir okkur ungan, lífsglaðan og hugljúfan mann sem einkenndist af miklu líkamlegu hreysti og keppnisanda.“

Í umræðum var nefnt að hvorugkynsbeyging hefði verið algeng í heiti keppninnar „Skólahreysti“ sem sýnd hefur verið í sjónvarpi undanfarin ár. Í DV 2007 segir: „Það er nóg um að vera á Skjá einum í kvöld þegar fram fara úrslit Skólahreystis á slaginu 20.00.“ Í Velferð 2007 segir: „Síðan gátu börn skemmt sér í hoppikastala og þrautabraut í anda Skólahreystis.“ Í Vesturbæjarblaðinu 2017 segir: „Landsbankinn er nýr bakhjarl Skólahreystis.“ Í Víkurfréttum 2018 segir: „Nánari upplýsingar og myndir má finna á heimasíðu Skólahreystis og Facebook.“ Í Mosfellingi 2018 segir: „Vinsældir Skólahreystis hafa aukist jafnt og þétt síðustu ár.“ Alls eru tæp 60 dæmi um eignarfallið Skólahreystis á tímarit.is og rúm 60 í Risamálheildinni.

Í dæmum af þessu tagi, þar sem nafnorð (úrslit, anda, bakhjarl, heimasíðu, vinsældir) tekur með sér annað nafnorð í eignarfalli, virðist það trufla málnotendur ef ekki sést að um eignarfall er að ræða. Það sést ekki í kvenkyni vegna þess að öll föllin eru eins, og þess vegna er tilhneiging til að bæta eignarfallsendingu hvorugkyns við. Dæmi um kvenkynseignarfall eru samt mun fleiri, og sé litið fram hjá samsetningunni Skólahreysti er hvorugkynsbeyging orðsins hreysti sjaldgæf. Þó er trúlegt að hún sé algengari en hægt er að sýna fram á, því að líklegt er að sum dæmi sem gætu verið kvenkyn séu í raun og veru hvorugkyn í huga höfunda sinna. En þótt hvorugkynið breiddist út væri það saklaust enda væri það ekkert óeðlileg eins og áður segir.

Posted on Færðu inn athugasemd

Hvernig spyrjum við um ástæðu?

Íslenskan hefur þrjár meginaðferðir til að spyrja um ástæðu einhvers – orðasamböndin (forsetningarliðina) af hverju og hvers vegna, og spurnaratviksorðið hví. Af orðasamböndunum eru til ýmis tilbrigði svo sem af hvaða ástæðu og vegna hvers en þau eru svo sjaldgæf að þau skipta ekki máli. Í fornu máli kemur eingöngu hví fyrir – orðasamböndin koma ekki til fyrr en á síðari öldum. Um miðja 19. öld er hlutfall af hverju um það bil helmingur af heildartíðni þessara þriggja spurnaraðferða samkvæmt tímarit.is en hvers vegna og hví eru um fjórðungur hvort fyrir sig. Á næstu áratugum eykst tíðni hvers vegna smátt og smátt, einkum á kostnað af hverju, en hví er nokkuð stöðugt milli 20 og 25% fram um 1930 þegar dæmum fer að fækka.

Um miðja 20. öld er hlutfall hvers vegna orðið um tveir þriðju af heildinni en af hverju og hví á bilinu 15-20% hvort. Eftir það lætur hví hins vegar hratt undan síga og er komið niður í 4% af heildinni um síðustu aldamót. Hlutfall af hverju hefur hækkað að sama skapi og af hverju og hvers vegna eru hvort um sig rétt tæpur helmingur af heildinni á þessari öld. Í Risamálheildinni sem hefur einkum að geyma texta frá þessari öld sést hvernig þessi þróun heldur áfram. Þar er hlutfall af hverju tæplega ¾ af heildinni, hlutfall hvers vegna rétt tæplega fjórðungur, en hlutfall hví ekki nema rúm tvö prósent. Í textum af samfélagsmiðlum er munurinn enn meiri – þar er af hverju (mjög oft skrifað afhverju) 85,5% af heildinni, hvers vegna 12,5% og hví aðeins 2%.

Ég hef á tilfinningunni að flestum fullorðnum þyki spurnarorðið hví frekar formlegt og ég held t.d. að ég noti það aldrei nokkurn tíma, ekki heldur í ritmáli. En hér var í dag bent á að hví væri orðið algengt í máli ungs fólks og þess getið til að það stafaði af áhrifum enska orðsins why. Það er svolítið erfitt að meta þetta en textar af samfélagsmiðlum endurspegla þó fyrst og fremst óformlegt málfar ungs fólks og því er helst að miða við þá. Vegna eðlis þessara texta er hlutfall spurnarorða mjög hátt þar í samanburði við aðra texta og dæmin um hví því býsna mörg, hálft ellefta þúsund. Hlutfallið er vissulega lágt, aðeins um 2% eins og áður segir, en þó nokkurn veginn það sama og í formlegri textum – ólíkt því sem búast mætti við.

Miðað við hvað hví er – eða var – formlegt orð og hvernig tíðni þess hefur farið ört lækkandi undanfarna áratugi mætti nefnilega búast við að hlutfall þess væri mun lægra í óformlegu máli samfélagsmiðla. Þótt hví hafi verið á hraðri niðurleið undanfarna áratugi eiga ensk áhrif því e.t.v. eftir að framlengja líf þess eitthvað. Vitaskuld eiga hví og why sér sameiginlegan uppruna þannig að það er ekki eins og þarna sé um eitthvert aðskotaorð að ræða, en það er óvanalegt að ensk áhrif verði til þess að efla gamalt orð sem tilheyrði formlegu málsniði og auka notkun þess í óformlegu máli. En að öðru leyti er niðurstaðan sú að notkun af hverju sé orðin langsamlega algengasta aðferðin til að spyrja um ástæðu en hvers vegna og einkum hví séu á hraðri niðurleið.